Íslenska ríkið brotlegt við EES-reglur um mat á umhverfisáhrifum

Lögberg Þingvellir. Með lögum skal land byggja. Landvernd krefst þess að lögum um náttúruvernd sé fylgt í hvívetna, landvernd.is
Eftirlitsstofnun EFTA segir að beitt hafi verið ólögmætum ákvæðum í íslenskum lögum og reglugerð er tvö fiskeldisfyrirtæki fengu að starfa þrátt fyrir að úrskurðarnefnd hefði sagt starfsemina í bága við lög.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tekið bráðabirgðaákvörðunum um að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við reglur EES um mat á umhverfisáhrifum þegar það breytti lögum um fiskeldi í október 2018.  Þá breytti Alþingi lögum um fiskeldi með frumvarpi sem samþykkt var samdægurs og eftir afar takmarkaðar umræður á Alþingi. 

Rekstrarleyfi veitt án umhverfismats og aðkomu almennings

Með frumvarpinu var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilað að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi til 20 mánaða til fiskeldisfyrirtækja. Ekki er gert ráð fyrir því að slík bráðabirgðaleyfisveiting fari í umhverfismat eða að almenningur og samtök almennings geti komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Lögin útiloka enn fremur að leyfisveitingin sé kærð til óháðs og hlutlauss aðila á borð við úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Brot á fjórum greinum Evróputilskipunar um umhverfismat

Eftirlitsstofnunin ESA kemst að þeirri niðurstöðu að lögin um rekstrarleyfi til fiskeldis brjóti í bága við greinar 2, 4, 9 og 11 í evróputilskipun um umhverfismat.  Brotin felast í að útiloka almenning frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og í að gera almenningi útilokað að kæra þau. Sömuleiðis er brotið á ákvæði um að skyldu til að gilt umhverfismat liggi fyrir þegar veitt eru rekstrar- og starfsleyfi fyrir leyfisskyldar framkvæmdir og starfsemi.

Landvernd skoraði á ráðherra

Stjórn Landverndar skoraði strax á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að láta af lagasetningunni af þeim ástæðum sem ESA hefur nú fallist á.  Ekki var orðið við því. Ef Alþingi og ríkisstjórn hefðu gefið tíma í faglegan undirbúning og færi á umræðu fyrir þessa lagabreytingu hefði líklega verið hægt að koma í veg fyrir setningu þessara ólaga.  

Almenningur mikilvægur aðili í ákvörðunum um umhverfið

EES-reglur gera ráð fyrir aðkomu almennings við ákvarðanatöku við umhverfismat. Þessar EES-reglur fela ekki aðeins í sér lýðræðislegan rétt almennings heldur stuðlar þær líka að faglegri og skynsamari ákvarðanatöku til langs tíma.  Það er því allra hagur að farið sé eftir reglum um umhverfismat og aðkomu almennings að opinberri ákvarðanatöku.  

Ákvörðun ESA má finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar:

Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar, audur(hjá)landvernd.is, s. 8435370

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd