Ferð í Langasjó

Landvernd og Ferðafélag Íslands stóðu sameiginlega fyrir ferð í Langasjó sunnudaginn 25. júní. Mikil ásókn var í ferðina og var fullbókað í hana á örfáum dögum og komust færri að en vildu. Í ljósi þessa munu félögin reyna að koma á annarri slíkri ferð að ári.

Landvernd og Ferðafélag Íslands stóðu sameiginlega fyrir ferð í Langasjó sunnudaginn 25. júní. Mikil ásókn var í ferðina og var fullbókað í hana á örfáum dögum og komust færri að en vildu. Í ljósi þessa munu félögin reyna að koma á annarri slíkri ferð að ári.

Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og leiðsögumaður, fræðir ferðalanga um lífríki vatnsins.

Á laugardagskvöldi var kvöldvaka þar sem sérfræðingar héldu fyrirlestra um svæðið. Í boði voru fjögur erindi til þess að undirbúa hópinn og stuðla að því að ferðalangar myndu fá sem mest út úr ferðinni.

Snorri P. Snorrason, jarðfræðingur, hélt erindi um myndun og mótun Langasjávar og sýndi hvernig samspil elds og íss hefur myndað og mótað þetta stærsta tæra fjallavatn á Íslandi. Langir móberghryggir og gígaraðir einkenna svæðið. Að vestan afmarkast Langisjór af móbergshryggjum við Breiðbak en að austan af Fögrufjöllum. Í Fögrufjöllum eru djúpir sprengigígar með vatni í. Á árum áður náðí jökull niður að Fögrufjöllum og þá rann Skaftá að hluta til í Langasjó. Með tímanum hefur jökullinn hopað. Skaftá hætti að renna í Langasjó 1966 og varð Langisjór tær og blár í framhaldi af því.


Leiðsögumennirnir Tryggvi, Snorri og Hilmar horfa yfir Langasjó úr Fögrufjöllum.

Hilmar J. Malmquist, líffræðingur, hélt erindi um lífríki vatnsins. Langisjór er djúpt vatn, allt að 74 m, og langstærsta tæra fjallavatn landsins, nær 26 km2. Vatnið er merkilegt í jarð- og líffræðilegu tilliti. Það er jarðsögulega ungt, staðsett á virka gosbeltinu, með móbergsmyndanir og lek sand- og öskukennd jarðlög á vatnsviðinu, en vötn á slíkum vatnasviðum eru fágæt á jörðinni. Lífríki vatnsins er undir sterkum landnemaáhrifum, bæði vegna þess hve skamman tíma vatnið hefur verið tært og hversu einangrað það er. Landnemaáhrifin felast m.a. í því að í vatnið vantar nokkrar algengar vatnalífverur á borð við vatnabobba og efjuskeljar. Þá eru engin hornsíli í vatninu og silungur ekki heldur þar til honum var sleppt í vatnið, fyrst árið 1984. Vötn af því tagi sem hér greinir frá eru vísindalega mjög áhugaverð og verndargildi umtalsvert. Með Skaftárveitu, þar sem hluta af Skaftá yrði veitt í Langasjó, myndu lífsskilyrði í vatninu breytast mjög á verri veg, bæði vegna jökulgorms og mikllar vatnsborðssveiflu.


Leiðsögumennirnir Snorri og Jón.

Jón Helgason, fyrrum formaður Landverndar, hélt erindi um Skaftárelda 1783. Gosið er eitt stærsta flæðigos sem runnið hefur á sögulegum tíma og áhrifa þess gætti um heim allan þar sem mengunarský frá gosinu olli blárri móðu sem skyggði á sólina um alla Evrópu. Hér á Íslandi fylgdu móðuharðindin í kjölfar gossins. Erindi Jóns byggði að verulegu leyti á eldriti séra Jóns Steingrímssonar en eldritið eru einstæðar heimildir þar sem framvindu gossins er lýst frá degi til dags. Í eldmessunni ákallaði séra Jón Steingrímsson almættið sem bænheyrði Jón og stöðvaði hraunrennslið vestan við byggðina. En séra Jón var líka vísindamaður og þegar hættan var liðin hjá útskýrði hann hvernig almættið hefði látið hraunið stífla farveg Holtsár þannig að hún myndaði lón sem kældi hraunið.


Ferðalangur í Fögrufjöllum, Sveinstindindur í baksýn og nafnlaust lón (e.t.v. Sveinssjór) vinstra megin og Langisjór hægra megin.

Að lokum hélt Tryggvi Felixson, fv. framkvæmdastjóri Landverndar, erindi um Vatnajökulsþjóðgarð. Umræðan um Vatnajökulsþjóðgarð hófst í tengslum við gerð svæðiskipulags Miðhálendisins á árunum 1996 til 1998. Árið 1999 var þingsályktunartillaga Hjörleifs Guttormssonar um málið samþykkt og í kjölfarið skipaði ríkisstjórnin nefnd til að skoða hugmyndina. Niðurstaða nefndarinnar var jákvæð og í september 2000 samþykkt ríkisstjórnin tillögu umhverfisráðherra að stefna að því að Vatnajökulþjóðgarður sem næði til jökulhettunnar auk Skaftafellsþjóðgarðs yrði stofnaður. Hugmyndin hefur þróast síðan þá og m.a. hefur náðst víðtæk samstaða um verndun vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum og Skaftafellsþjóðgarður hefur verið stækkaður til vestur og austur og nær nú til Lakagígasvæðisins. Frekari friðun á jökuljaðrinum myndi auka enn vægi og virðingu Vatnajökulsþjóðgarðs og stuða að sjálfbæri framþróun byggða, atvinnulífs og mannlífs þar sem sköpunarverkið fengi að njóta sín. Virkjanaframkvæmdir í jaðri jökulsins við Langasjó myndi draga úr möguleikum þjóðgarðarins til að komast í fremstu röð þjóðgarða á heimsvísu.


Annar hópur útivistarfólks, alls fjórtán kajakar, voru á Langasjó þennan dag.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd