Forsætisráðherra telur vindorkuver eiga heima í rammaáætlun – Náttúruverndarþing 2023

Náttúruverndarþingið 2023 var haldið í Árnesi.
Náttúruverndarþing 2023 var haldið í félagsheimilinu Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem Vinir Þjórsárvera buðu heim í hérað. Þingið var vel sótt en á það mættu yfir 50 manns til að ræða framtíð og áskoranir í náttúruvernd á Íslandi.

Fundargestir voru sammála um að náttúruverndarsinnar þurfi að sýna þrautseigju til að stefnumál þeirra fái brautargengi á komandi árum og samþykktu þrjár ályktanir.   

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þingið og sagði að vindorkuver eigi heima innan rammaáætlunar. Katrín lofaði það líka mjög hversu mikla ósnortna náttúru við Íslendingar eigum. Þá gat hún þess að margir þjóðarleiðtogar hafi kallað eftir  að hér á landi verði framleidd orka til útflutnings, en hún hafi þvertekið fyrir það. Að loknu ávarpi forsætisráðherra fluttu erindi þau Andri Snær Magnason rithöfundur, Ágústa Þ Jónsdóttir umhverfisfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur og Inga Huld Ármann ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna og ungmenna.

Í erindum kom m.a. fram að náttúran er ekki vél eða tæki sem við getum reiknað og skilið til fullnustu. Verðmæti hennar er ómetanlegt en allt líf byggir á því að til staðar sé heilnæmt umhverfi og heilbrigð vistkerfi. Allt í lífi okkar og samfélagi skal miða að því að búa í sátt við náttúruna en ekki ganga sífellt á hana. Þar sem núverandi efnahagskerfi nær því ekki þurfum við að sýna hugrekki og endurhugsa það frá grunni.

Hræðsla hindrar aðgerðir

Að þessum erindum loknum virtu gestir þingsins fyrir sér áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Eftir útiveruna á bökkum Þjórsár fóru fram umræður og þingfulltrúar samþykktu nokkrar ályktanir um helstu  áskoranir í náttúruverndarmálum á komandi árum og ártugum. Varað er við áformum í loftslagsmálum sem valda skaða á náttúru og líffræðilegri og jarðfræðilegri fjölbreytni. Það er ekkert grænt við orku sem búin er til á kostnað náttúrulegra verðmæta. Stjórnmálafólk er hrætt við að taka óvinsælar ákvarðanir og hefur því nánast einungis ráðist í aðgerðir með hvötum sem efla þá frekar vöxt heldur en draga úr neikvæðum áhrifum á náttúru. Það segir á að núverandi hagkerfi borgar ekki sá sem mengar og að lausnir sem miða að því að dæla niður eða binda með öðrum hætti kolefni, svo sem skógrækt, fá of mikla athygli og hætt er við að þær verði notaðar sem syndaaflausn. Endurheimt votlendis þarfnast mikillar innspýtingar.

Þingið varar við skautun í samfélaginu þar sem loftslagumræðu er oft stillt upp á móti náttúruvernd. Draga verður úr upplýsingaóreiðu með fræðslu til skólabarna, háskólanema, fjölmiðlafólks, þingmanna, sveitarstjórna sem og almennings.

Styrkjum stöðu náttúruverndar

Mælt er gegn þeirri ákvörðun að umhverfis- og orkumál falli undir sama ráðuneytið og þess krafist að starfrækt sé öflug náttúruvernd innan umhverfisráðuneytisins. Kallað er eftir að náttúruverndarnefndir sveitarfélagana fái meiri leiðsögn og aðhald frá Umhverfisstofnun. Náttúruvernd þurfi skýran málsvara á Alþingi og innan sveitarstjórna. Efla þarf stöðu náttúrunnar og náttúruverndarsamtök þurfa aukið umboð til þess að sækja mál fyrir hönd hennar, eins og kveðið er á um í alþjóðsamningum sem Ísland hefur undirgengist. Kallað er eftir því að innleitt sé stjórnarskrárákvæði þess efnis að náttúruauðlindir lands og sjávar séu þjóðareign og ágóði af nýtingu þeirra skili sér til samfélagsins.

Verndum hafið

Þingið minnir á að sjórinn og sjávarbotninn eru almenningi óaðgengilegir og því erfiðara að fylgjast með og eiga upplýsta umræðu um hvað á sér stað þar. Ísland hefur samþykkt á alþjóðlegum vettvangi að friða 30% sjávar innan íslenskrar lögsögu. Þau öfl sem vilja ráðast í framkvæmdir sem hafa neikvæð áhrif á lífríki hafa úr miklum peningum og mannskap að spila og því er þrautseigja ein af helstu áskorunum náttúruverndar til framtíðar.

Bregðast við ágangi ferðmanna

Þá segir að mikill ágangur ferðamanna og óheft flæði þeirra til landsins hefur neikvæð áhrif á íslenska náttúru og við því verði að bregðast.

Friðum hálendið með lögum

Þingið kallar eftir því að friðun hálendisins sé fest í lög, hvort sem í hlut á þjóðgarður, friðland eða annað svo varðveita megi sérstöðu þessara svæða sem óbyggð lands,.

Í lok Náttúruverndarþings 2023 sagði Sigrún Helgadóttir sögur af Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi og frumherja í náttúruvernd á Íslandi og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir söng kvæði eftir hann.

Að skipulagi þingsins komu fulltrúar Biodice, Hins íslenska náttúrufræðifélags, Landvarðafélagsins, Landverndar, Ungra umhverfissinna og Vina Þjórsárvera.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd