Stjórn Landverndar hefur ákveðið að kljúfa fræðsluverkefni sín frá öðrum verkefnum og stofna Fræðslumiðstöð umhverfis og náttúru. Markmið hennar er að efla þekkingu og skilning á náttúru og umhverfi í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærri þróun. Innan hennar yrðu Grænfánaverkefnið, Alviðra, Vistvernd í verki og Bláfáninn. Vonandi verður það til að efla verkefnin og styrkja þau fjárhagslega. Um fræðsluverkefni Landverndar er góð sátt. Um önnur verkefni samtakanna verða stundum deilur og menn takast á um sjónarmið eins og eðlilegt er þegar um er að ræða stór verkefni þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Því miður hafa slíkar deilur stundum orðið til þess að aðildarfélög hafa sagt sig úr Landvernd og samtökin hugsanlega ekki fengið þá styrki sem þau annars hefðu fengið.