Landvernd telur að flestar þær fyrirhuguðu breytingar sem fram koma í frumvarpsdrögum séu til bóta. Uppsetning viðauka á þann hátt sem gert er í frumvarpsdrögum er til muna skýrari en í núverandi lögum og til þess fallin að auðvelda yfirsýn og skilning á því hvaða framkvæmdir skuli vera matsskyldar (flokkur A) og hvaða framkvæmdir tilkynningarskyldar (flokkar B og C).
Stærsta breytingin á lögunum sem lögð er fram er fólgin í hinni efnislegu meðferð mála sem varða smærri framkvæmdir sem hingað til hafa ekki verið tilkynningarskyldar og því aldrei komið inn á borð Skipulagsstofnunar í formi fyrirspurnar um matsskyldu. Úr þessu er bætt í frumvarpsdrögunum og tekur Landvernd undir þær breytingar.