Fuglarnir

Litlu mátti muna að haferninum væri útrýmt á Íslandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Sumar tegundir fugla eru á válista, t.d. þórshani, en hér á landi er honum helst ógnað af fuglaskoðurum og ljósmyndurum.

Einar Þorleifsson náttúrufræðingur skrifar

Fuglar eru áberandi hópur dýra sem margir hafa unun af að skoða. Aðrir gleðjast þegar farfuglarnir mæta; vorboðinn ljúfi, skógarþrösturinn hjá skáldinu Jónasi Hallgrímssyni. Í dag er það nú samt heiðlóan sem flestir líta á sem helsta vorboðann enda er skógarþrösturinn nú til dags að hluta staðfugl, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Allmargar fuglategundir eru staðfuglar á Íslandi en þó ferðast margir
fuglar um innanlands eftir árstímum og er ætíð mest af fuglum með
ströndum landsins að vetrarlagi. 

Verndun fugla

Fuglavernd hefur löngum verið sterkur hluti náttúruverndar og voru víða um lönd sett sérstök fuglaverndarlög um og í kringum aldamótin 1900. Þá þótti það vera ósiður að drepa smáfugla til að hafa á borðum fólks eða veiða þá lifandi og hafa sem stofustáss í búrum.

Uppstoppun var löngum vinsæl en þykir nú afskaplega gamaldags og flestum finnst synd að drepa fugla til að hafa þá dauða til skrauts í stofum. Söfnun fuglseggja var einnig um tíma vinsælt áhugamál margra en er nú á dögum að verða fátíð árátta enda eru egg flestra fugla friðuð líkt og fuglarnir sjálfir.

Áhrif mannsins

Þónokkuð hefur verið um það að fuglategundir hafi dáið út vegna athafnasemi mannsins. Mest hefur verið um að ófleygir fuglar hafi horfið af ýmsum einangruðum eyjum líkt og móafuglinn á Nýja-Sjálandi sem hvarf við komu fyrstu mannanna til eyjanna í kringum árið 1500. Á öðrum eyjum hafa fuglategundir horfið vegna innflutnings spendýra t.d. brúnrottu og snáka.

Allir vita um örlög geirfuglsins. Á Íslandi hafa nokkrar tegundir hætt varpi vegna áhrifa mannsins, helst má þar geta keldusvíns og haftyrðils. 

Sumar tegundir fugla eru á válista, t.d. þórshani, en hér á landi er honum helst ógnað af fuglaskoðurum og fuglaljósmyndurum sem sækja fuglinn heim hvar sem til hans sést. Þó flestir reyni að gæta að sér þá er ætíð truflun sem fylgir og viss áhætta á að trampað sé á eggjum eða ungum sem eru faldir í grasi og lítið ber á.

Haförninn í vanda

Litlu mátti muna að haferninum væri útrýmt hér á landi á fyrri hluta 20. aldar þegar aðeins var vitað um 15 varppör, en talið er að þau hafi verið allt að 200 áður fyrr. Alfriðun með lögum, ásamt banni við að bera út eitruð hræ til að drepa refi, erni, hrafna og fálka, fór smám saman að hafa áhrif. Þetta gerðist ekki síst fyrir
tilstuðlan og árvekni áhugamanna um náttúruvernd sem voru og eru enn í dag duglegir við að minna á verndun arnarins.

Í dag munu varppörin vera um 92 og fjöldi einstaklinga í stofninum í kringum 300-350 fuglar þegar allir ungfuglar eru taldir með. Til gamans má geta að
mannfjöldi á landinu mun vera um 375.000 en fjöldi fólks í landinu er þó ætíð allnokkuð hærri vegna t.d. ferðamanna og farandvinnufólks.

Hætturnar leynast víða

Að fuglum landsins steðja sífellt nýjar hættur. Drjúgur fjöldi sjófugla ferst í netum í sjó árlega, t.d. þorskanetum og grásleppunetum. Eins ferst töluvert af vatnafuglum í silunganetum í vötnum, það eru t.d. endur eins og hrafnsönd og húsönd en einnig aðrir vatnafuglar, eins og flórgoðar, himbrimar og lómar. Töluvert af fuglum ferst þegar þeir fljúga á rafmagnslínur, rafmagnsgirðingar eða rúður í húsum.

Kettir drepa ótalinn fjölda fugla árlega. Fuglar verða fyrir bílum í þúsundavís á hverju ári. Nýjar ógnir eru sífellt að koma upp, t.d. vindtúrbínur og vindorkuverasvæði sem nú eru áformuð.

Sótt er að búsvæðum fugla

Vatnsaflsvirkjanir eru einnig ógn við búsvæði og varplendur fuglanna, t.d. gæsa og mófugla. Mýrar hafa verið ræstar fram í stórum stíl og einnig ber að geta að uppi eru allmikil áform um skógrækt á láglendi Íslands (25-35% á næstu áratugum) sem gæti ógnað fuglastofnum á heimsvísu, t.d. spóa, heiðlóu, jaðrakan og fleiri tegundum. Láglendi landsins er mjög takmörkuð auðlind enda aðeins um 24.000 km2 en þar er öll byggð á Íslandi, vegir, hafnir, landbúnaður, allskyns mannvirki, brýr raflínur o.fl.

Erlendis eru einnig margvísleg áhyggjuefni fyrir farfuglana, helsta  vetrardvalarstað íslenskra jaðrakana vegna mikillar stækkunar  alþjóðaflugvallarins við Lissabon í Portúgal út á árdeltu Tagus-árinnar þar sem
hundruð þúsunda farfugla fara um. Það gerir einmitt sérstök undirtegund jaðrakans sem aðeins verpur á Íslandi (utan fáeinna para í Noregi og á skosku eyjunum). 

Grænlandsblesgæsinni er enn töluvert ógnað af mögulegum áhrifum  loftslagsbreytinga og árlega eru allmargir fuglar skotnir þrátt fyrir að blesgæsin hafi verið friðuð síðan 2006. Stofninn stendur enn mjög höllum fæti en blesgæsirnar eru viðkomugestir á Vesturlandi og Suðurlandi vor og haust. Oft blandast þær saman við grágæsir og álftir sem halda til á túnum og ökrum eða við áreyrar þar sem skotveiðimenn eru tíðum á haustin við veiðar í rökkri og  dimmviðri svo að mikið af blesgæsum fellur vegna slysaskota.

Ísland í alþjóðlegu samstarfi

Ísland og Danmörk gerðust aðilar að Ramsarsáttmálanum um votlendisvernd árið 1978. Í dag eru dönsku Ramsar-verndarsvæðin orðin 43 en á Íslandi eru þau aðeins sex, sem er skammarlega lítið. 

Frá 1979 hefur Ísland einnig verið aðili að Bernarsamningnum um verd villtra dýra, plantna og vistgerða í Evrópu, og í árslok 2021 voru loks tilnefnd fimm verndarsvæði hérlendis, tveimur áratugum eftir að sú vinna fór í gang meðal Evrópuþjóða.

Búsvæðavernd ásamt alþjóðlegu samstarfi náttúruverndarfélaga og fuglaverndarfélaga er lykilþátturinn í að viðhalda sem flestum fuglum af mörgum tegundum um heiminn. Til þess þarf öflugt samstarf samtaka líkt og Landverndar og stjórnvalda ásamt uppfræðslu almennings.

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 2023.

Fleira frá Landvernd

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd