Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar
Vitund og skilningur á þeim verðmætum sem felast í náttúru, víðernum og landslagi á hálendi Íslands fer vaxandi. Skoðanakannir sýna að Hálendisþjóðgarður nýtur víðtæks stuðnings.
Þegar kemur að stofnun þjóðgarða er óþarfi að finna upp hjólið; bæði höfum við Íslendingar safnað sjálf í reynslubankann og einnig getum við sótt fræðilega þekkingu og praktíska reynslu til þeirra þjóða sem hefur tekist best til með sína þjóðgarða.
Hálendisþjóðgarður jafnast á við nýja landhelgi
Við bíðum afgreiðslu Alþingis á lögum um Hálendisþjóðgarð. Taki stjórnarflokkarnir afstöðu í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar, tökum við sem þjóð risastórt skref í náttúruverndarsögu landsins á næsta ári. Það er skref sem Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, hefur líkt við stækkun fiskveiðilögsögunnar.
Garðurinn um þjóðargersemina, hálendi Íslands, verður ekki fullmótaður með samþykkt laga. En sú ákvörðun er upphafið og mun stýra vegferð þar sem núverandi og komandi kynslóðir vinna lýðræðislega og taka ákvarðanir um hvernig best sé að vernda auðlindir hálendisins og nýta þær á sjálfbæran hátt. Verndun náttúruarfsins fyrir komandi kynslóðir verður í forgrunni. En sjálfbær nýting og atvinnustefna verður líka mikilvægur þáttur í starfseminni. Maðurinn er jú bæði hluti af náttúrunni – og af náttúrunni verður hann að lifa.
Sveitarfélög hafa ekkert að óttast
Það segir sig sjálft þegar skipuleggja á þjóðgarð, garð heillar þjóðar og gesta hennar, verður að bæta og breyta þeim reglum sem nú gilda. Einstaka sveitarfélögin hafa óttast að missa forræði sitt. En það er ekkert að óttast ef marka má afstöðu þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa reynslu af samstarfi um þjóðgarða. Þau bera þeirri reynslu almennt góða sögu.
Hvað með rafmagnið og línurnar?
Umræðan um orkuöryggi, línulagnir og virkjanir hefur líka blandast inn í umræðuna. Landvernd telur að auðvelt sé að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar án þess að spilla þurfi hálendinu með orkuframkvæmdum frekar en orðið er. Með betri nýtingu orkunnar og dreifikerfi, sem fyrst og fremst hefði öryggi almennra notenda að leiðarljósi, er engin hætta á að orkuskortur takmarki velsæld á Íslandi á næstu áratugum.
Sauðfé velkomið í sjálfbæra beit
Nýting hálendisins til sauðfjárbeitar er annað atriði sem oft kemur upp í umræðu um hálendisþjóðgarð. Almennt virðist sátt ríkja um að beit eigi að vera sjálfbær. Í framhaldinu þurfa stjórnvöld að skilgreina reglur um hvað sjálfbær beit þýðir í raun – og fylgja þeim eftir. Sú vinna þarf að byggja á vísindum, alveg eins og stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum. Ekki þarf að óttast að sauðkindina skorti beitarland.
Ný störf og verðmæt tækifæri
Stofnun hálendisþjóðgarðs er tækifæri til að vernda þá þjóðargersemi sem hálendi Íslands er. Um leið verða til alveg nýir möguleikar til að upplifa náttúruna og byggja upp atvinnustarfsemi i tengslum við það. Síðast en ekki síst gefum við umheiminum þau skilaboð að á Íslandi sé náttúruvernd tekin alvarlega. Hálendisþjóðgarður yrði vitnisburður um að þjóðin sem byggir þetta land lætur sig náttúruvernd varða. Hálendisþjóðgarður getur orðið ríkur þáttur í sjálfsvitund þjóðarinnar og stolt hennar um langa framtíð.
Landvernd heldur málinu á lofti
Á þessu ári hefur Landvernd haldið fjölmarga fundi þar sem fræðimenn og sveitarstjórnarmenn úr öllum landshlutum hafa miðlað af reynslu sinni og þekkingu um þjóðgarða. Þátttakan hefur verið afar góð og spurningar og umræður uppbyggilegar.
Þann 1. desember 2020 hélt Landvernd ráðstefnu um Hálendisþjóðgarð með þátttöku forsætisráðherra og fleiri góðra gesta.