Fleiri vatnalíffræðingar eru sammála um að aukið köfnunarefnisálag vegna aukinnar umferðar um svæðið geti aukið umtalsvert vöxt þörunga á viðkvæmum svæðum í vatninu og hugsanlega spillt mikilvægum hrygningarsvæðum bleikjunnar. Landvernd telur að í ljósi sérstöðu lífríkisins í Þingvallavatni beri ráðherra að hafa varúðarregluna að leiðarljósi þegar úrskurður í málinu verður kveðin upp.
Landvernd hefur sent umhverfisráðherra bréf vegna Gjábakkavegar. Í úrskurði Skipulagsstofnunar þann 24. maí var fallist á framkvæmdina með skilyrðum. Pétur M. Jónasson prófessor í líffræði kærði úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Meðal þess sem Pétur hefur bent á er að aukin umferð um svæðið muni auka köfnunarefnisálag á vatnið. Rannsóknir hafa sýnt að köfnunarefni er takmarkandi þáttur fyrir vöxt þörunga í Þingvallavatni. Tiltölulega lítil aukning á köfnunarefni getur því aukið vöxt þörunga á umtalsvert og hugsanlega spillt mikilvægum hrygningarsvæðum bleikjunnar. Um þetta eru fleiri vatnalíffræðinga sammála. Landvernd telur að í ljósi sérstöðu lífríkisins í Þingvallavatni beri ráðherra að hafa varúðarregluna að leiðarljósi þegar úrskurður í málinu verður kveðin upp.
Stjórn Landverndar telur nauðsynlegt að skoða betur aðra möguleika á að bæta samgöngur um svæðið. Líta ætti til þess að hafa vegastæðið sunnar á Lyngdalsheiði og tengja veginn við þjóðvegakerfið annað hvort í átt að Selfossi eða með nýjum og bættum vegi um Nesjavallaleið til Reykjavíkur.