Haustið 2005 var á aðalfundi Landverndar ákveðið að skipa þverfaglegan vinnuhóp til að vinna grunn að stefnu Landverndar um hálendisvegi. Hlutverk hópsins var að; lýsa núverandi ástandi, greina stefnu stjórnvalda, taka saman yfirlit yfir hugmyndir um hálendisvegi, greina helstu áhrif vegagerðar á náttúrufar og víðerni og gera tillögu að stefnu Landverndar.
Í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn þess að greint sé á milli ferðamannavega og almennra vega bæði hvað varðar gerð vega og val á staðsetningu. Almennir vegir skulu þá almennt byggðir með það að leiðarljósi að gera vegfarendum og flutningabílum mögulegt að komast fljótt og örugglega á milli áfangastaða. Ferðamannavegir skulu hinsvegar þjóna þeim tilgangi að gera ferðafólki, jafnt innlendum sem erlendum ferðamönnum, mögulegt að fara um áhugaverð svæði í þeirri hægð og í þeim áföngum sem hentar til skoðunar á landslagi og náttúrufari. Vegir á miðhálendi Íslands eiga fyrst og fremst að vera ferðamannavegir og mikilvægt er að á þar séu víðáttumikil svæði án vega.
Þá er lagt til að gert verði heildstætt kerfi um flokkun vega á hálendinu til að auka öryggi vegfarenda og til að draga úr hættu á landsspjöllum. Bent er á að bæta þarf marga af núverandi vegum á hálendinu ekki síst til þess að koma í veg fyrir hjáleiðir og niðurgröft.
Hálendið er afar verðmætt svæði vegna náttúru, landslags og víðerna, bæði á landsvísu og alþjóðlega vísu. Vegna neikvæðra áhrifa ber að stöðva frekari gerð uppbyggðra vega á hálendinu og takmarka gerð annarra vega eins og kostur er.