Haustfréttabréf Bláfána er komið út

Mikil þörf er á áframhaldandi vitundarvakningu um plastmengun í hafi og hvetjum við Bláfánahandhafa til þess að leggja þessu málefni lið með einum eða öðrum hætti.

Bláfáninn 30 ára

Þá fer Bláfánatímabilinu senn að ljúka hjá mörgum Bláfánahandhöfum. Meirihluti handhafa flaggar vottuninni fram undir lok september en þó fjölgar ört í þeim hópi sem bera vottunina allt árið um kring. Aldrei hafa fleiri flaggað Bláfánanum á Íslandi en í ár. Sex smábátahafnir, þrjár baðstrendur og fimm fyrirtæki í sjávarferðamennsku með alls 30 báta fengu viðurkenninguna.

Bláfáninn var stofnaður árið 1987 og er verkefnið því 30 ára í ár. Afmælinu hefur verið fagnað víðsvegar um heim með ýmsum uppákomum og sérstökum viðburðum. Á fréttasíðu Blue Flag International má finna fréttir um viðburðina.

Plastmengun í hafi er verkefni sem Landvernd hefur lagt ríka áherslu á undanfarin misseri. Hreinsum Ísland verkefninu var hleypt af stokkunum í vor en auk þess tókum við þátt í norrænni rannsókn á uppruna plasts sem finnst hér við strendur. Niðurstöður þessarar rannsóknar munu liggja fyrir í nóvember. Mikil þörf er á áframhaldandi vitundarvakningu um plastmengun í hafi og hvetjum við Bláfánahandhafa til þess að leggja þessu málefni lið með einum eða öðrum hætti.

Urtan í Surtsey

Í myndasafninu má sjá urtu sem fannst í byrjun september í Surtsey. Urtan var með kaðal þrengdan um hálsinn. Hún var á lífi þegar hún fannst en erfiðlega gekk að ná henni og bjarga. Fleiri myndir af urtunni má finna hér. Kaðall sem þessi er búinn til úr plasti. Plastmengun í hafi er stór áskorun á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum. Mælingar sýna að magn plasts í lífverum sem finnast dauðar hér við land er svipað mikið og í nágrannalöndum okkar. Fuglar, fiskar og hvalir halda að plastið í sjónum sé fæða og verður meint af.

Hreinsum Ísland og Plastlaus september

Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru þann 16. september og Plastlausum september hvetur Landvernd landsmenn til að huga að plastnotkun sinni og minnka notkun á óþarfa einnota plastumbúðum, ásamt því að flokka það plast sem fellur til. Plast hefur neikvæð áhrif á lífríki sjávar en talið er að um 8 milljón tonn af plasti endi í sjónum árlega. Tölur frá Sameinuðu þjóðunum sýna að 80% plasts í hafi kemur frá landi. Landvernd hvetur því einstaklinga, hópa og fyrirtæki til að hreinsa sitt nánasta umhverfi af plasti og öðru rusli fyrir komandi haustlægðir. Á síðunni Hreinsum Ísland má finna góð ráð fyrir þá sem hyggjast taka til hendinni.

Haustfréttabréf Bláfánans var sent út í dag og má nálgast í heild sinni hérna.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd