Haustverkin

Ólík eru haustverkin hjá heimilum landsins og orkufyrirtækjunum.
Meintur yfirvofandi orkuskortur til heimila landsins stafar ekki af neinu öðru en því að orkan hefur verið seld annað.

Haustverkin eru drjúg. Fyrir þau okkar sem rækta er haustið er tími uppskeru og alltaf mjög svipaður. Það er tími pínulítilla gulróta með mold, misþroskaðra bláberja með stöku könguló og tíminn til að taka upp kartöflurnar sem eru oft minni og færri en við bjuggumst við. Haustið er líka tími sultugerðar og tíminn til að njóta í stuttan tíma sumarblómanna sem blómstruðu loksins síðustu vikuna í ágúst eftir stöðuga umönnun frá í mars.  

Haustverk orkufyrirtækjanna virðast líka alltaf vera eins. Þau byrja strax eftir verslunarmannahelgi og fela í sér einfaldan hræðsluáróður sem beint er að almennum borgurum. 

Áróðurinn er alltaf sá sami: Heimilin geta ekki fengið þá raforku sem þau þurfa á allra næstu mánuðum eða árum. Þess vegna verður að virkja –  og virkja meira, því bráðum þarf að skammta orku fyrir jólabaksturinn og suðuna á kartöflusmælkinu.  

Árstíðabundin gleymska

Orkufyrirtækin virðast þjást af árstíðabundinni gleymsku á haustin. Í vetur og vor var til næg orka í landinu til þess að semja um afhendingu orku til landeldis og gagnavera. Að hausti virðast orkufyrirtækin alveg hafa gleymt þessum samningum og boða yfirvofandi orkuskort til heimila landsins, í ár sem fyrri ár. 

Kolranga forgangsröðun má laga

Fyrr á árinu greindi Landsvirkjun frá því að 120 MW hafi farið í rafmyntagröft en það eru u.þ.b. eitt þúsund GWst á ári – meira öll heimili landsins nota. Heimili landsins nota ekki nema 806 GWst en stórnotendur 15.692 GWst. Já – heimilin nota ekki nema 5% af raforkunotkun allra stórnotenda (álver, kísilver, gagnaver, járnblendi og álþynnuverksmiðja) og minni raforku en fer í rafmyntagröft. 

Það er ljóst að heimilin eru síðust í forgangsröðinni hjá orkufyrirtækjum því meintur orkuskortur til heimila landsins stafar ekki af neinu öðru en því að orkan hefur verið seld annað. Hver ætli beri ábyrgð á því? Gætu það verið stjórnvöld sem setja orkufyrirtækjum ekki skýran ramma um hver skuli njóta forgangs? 

Breytist eitthvað með fleiri virkjunum?

Stóra spurningin er  þessi: Þegar öll heimili landsins nota minni raforku en gagnaver, þegar heimilin nota minna en 1/20 af því rafmagni sem fer til stórnotenda og þegar alltaf virðist vera til næg orka til að semja við nýja stórnotendur hverju mun það þá breyta að bæta við nýjum virkjunum?

Á meðan lög í landinu setja íslensk heimili í samkeppni við risastóra notendur og orkufyrirtækin falbjóða íslenska raforku til annarra en heimila, skiptir engu máli hvort meira er virkjað eða ekki. Íslenskur almenningur verður áfram í síðasta sæti og orkufyrirtækin halda áfram hræðsluáróðri sínum, svo þau hafi úr meiri orku að spila til að selja nýjum stórnotendum. Gleymum ekki að Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims á íbúa. Samt telja orkufyrirtækin að orkuskortur vofi yfir heimilunum. 

Án skýrs lagaramma sem setur heimili landsins í forgang umfram alla aðra þegar kemur að raforku, mun ekkert breytast með nýjum virkjunum.

Gleðilegt haust

Það væri alveg ljómandi ef orkufyrirtækin gætu eytt haustinu í eitthvað uppbyggilegra en hræðsluáróður. Þá gæti íslenskt samfélag sparað sér lestur á ómældum fjölda pistla og viðtala við forsvarsfólk orkufyrirtækjanna þar sem það ber sig illa fyrir hönd heimila landsins. Það er víst til næg orka fyrir heimili landsins, þetta er spurning um forgangsröðun. Njótum ávaxta haustsins!

Greinin birtist fyrst í Heimildinni 15. ágúst 2023

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd