Rask á Strípshrauni sem er rann á sögulegum tíma og ætti að njóta sérstakrar verndar sbr. 37. gr. náttúruverndarlaga 44/1999.
Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur vísað kæru Landverndar vegna framkvæma við vatnslögn um Heiðmörk frá án efnislegrar meðhöndlunar. Í úrskurðinum segir að kærandi eigi ekki aðild að kærumáli um lögmæti hinna umdeildu framkvæmdaleyfa. Í kæru Landverndar var bent á að framkvæmdin brýtur í bága við a.m.k. fjóra lagabálka, þ.e.a.s. skipulags- og byggingarlög, skógræktarlög, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um náttúruvernd. Ekki er í úrskurðinum gerður ágreiningur við ábendingar um lögbrotin enda fékk kæran ekki efnislega meðhöndlun hjá nefndinni.
Í umræðunni sem fram hefur farið hefur aldrei verið um það deilt að með framkvæmdinni var brotið á umræddum lögum. Það sætir því furðu að samtök á borð við Landvernd skuli ekki, þrátt fyrir augjós lögbrot og umtalsvert umhverfisrask, ekki eiga aðild að málinu. Frávísunin felur í sér skýr skilaboð til löggjafans um nauðsyn þess að rýmka kæruheimildir frjálsra félagasamtaka í löggjöf um skipulagsmál sem nú er í endurskoðun. Stjórnvöld hafa að undanförnu sýnt vaxandi skilning á mikilvægi frjálsra félagasamtaka og bætt heimildir þeirra til málsskota innan stjórnsýslunnar. Hér vísast til þess að fyrr á árinu var lögum um náttúruvernd breytt þannig að umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök geta nú skotið ágreiningsmálum er varða stjórnsýslulega framkvæmd laganna til umhverfisráðherra. Að öðru leyti takmarkast kæruheimildir frjálsra félagasamtaka að verulegu leyti við framkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum.Á myndinni hér að ofan má sjá hvar stikur hafa verið settar þar sem áformað er að fara með vatnslögnina og tilheyrandi vegagerð yfir Hjallamisgengið.
Þróunin erlendis hefur einnig verið í þá veru að auka aðgengi frjálsra félagasamtaka að stjórnsýslukærum. Í Evrópu hafa möguleikar frjálsra félagasamtaka til áhrifa verið bættir verulega með Árósarsamningnum en honum er ætlað að tryggja aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál, rétt til þátttöku í ákvörðunartöku um umhverfismál og aðgang að réttlátri málsmeðferð, þ.m.t. rétt til aðildar að dómsmálum. Þess ber að geta að Ísland er eina landið innan Evrópska efnahagssvæðisins sem enn hefur ekki fullgilt þann mikilvæga samning, þrátt fyrir undirritun Íslenskra stjórnvalda í Árósum 1998.
Málsgögn
Lesa kæru Landverndar.
Hér má nálgast úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Hér má nálgast gamla þingsályktunartillögu um fullgildingu Árósasamnings. Tillagan náði ekki fram að ganga.