Landvernd hefur skilað umsögn um Rammaáætlun (tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 370. mál). Umsögnina má lesa í heild sinni neðst í greininni.
Það er á ábyrgð Alþingis að rammaáætlun hefur ekki verið afgreidd. Það hefur skaðað faglegt ferli. Alþingi er því hvatt til þess að afgreiða áætlunina hratt og á faglegum forsendum.
Áherslan ætti að vera á bætta orkunýtingu
Við bendum á að samfélagsleg áhersla ætti að vera á að spara, forgangsraða og nýta orku mun betur. Orkufyrirtæki geta náð fram mikilli aukningu í framleiðslugetu núverandi virkjana án mikils rasks á náttúru. Það er ekki alls rík þörf á því að bæta við virkjunarkostum.
Helstu punktarnir okkar um málið:
- Stjórn Landverndar styður þá aðferðafræði og vinnubrögð sem felast í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
- Aukin áhersla síðustu ára á verndun víðerna og stækkun ferðaþjónustu sem atvinnugreinar verður að endurspeglast mun betur í áætluninni.
- Því sem meira er gengið á landið, þeim mun verðmætari verða þau svæði sem eftir eru. Rammaáætlun þarf að taka tillit til þess.
- Hugmyndir um að færa svæði úr nýtingarflokki í biðflokk kalla á samsvarandi tilfærslu á svæðum úr vernd í bið eru ekki byggðar á faglegum forsendum heldur eru eingöngu hrossakaup.
- Stjórn Landverndar telur að herða þurfi friðlýsingarskilmála. Friðlýsa ætti svæði í verndarflokki gagnvart allri orkuvinnslu.
- Nokkuð er um tilraunir til þess að komast framhjá rammaáætlun með því að byggja virkjanir rétt undir þeim stærðarmörkum sem falla undir hana. Þessu verður að bregðast við.
- Til þess að rammaáætlun þjóni tilgangi sínum þarf að fara fram á að allir sem virkja í þeim tilgangi að selja orkuna, þurfi að sæta niðurstöðu rammaáætlunar.
- Það er ekki hægt að mæla umhverfisáhrif virkjunar með því að horfa einungis til stærðar hennar. Þetta viðhorf hefur Skipulagsstofnun tekið undir.