Með nýju frumvarpi til laga um að heimilt verði að veita bráðabirgðaleyfi til allrar starfsemi sem líklegt er að hafi neikvæð áhrif á umhverfi, án umhverfismats, yrðu brot á EES-reglum fest í sessi. Auk þess yrði enn frekar dregið úr vægi og gildi umhverfismats, yrðu lögin að veruleika.
Eftirlitsstofnun EES samningsins dæmdi Ísland brotlegt
Forsaga þessa máls er að íslenska ríkið gerðist brotlegt við átta greinar í reglum EES um mat á umhverfisáhrifum þegar a) lögum um fiskeldi var breytt í október 2018 og b) með eldri lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Brotin fólust annars vegar í því að almenningur var útilokaður frá því að fjalla um málin og kæra þau. Hins vegar voru brotin ákvæði um að gilt umhverfismat þurfi að liggja fyrir þegar veitt eru leyfi fyrir starfsemi eða framkvæmdum sem líkleg eru til að hafa neikvæð umhverfisáhrif.
Stofnunum ríkisins beitt til að gera lítið úr umhverfismati
Sveitastjórnum og stofnunum ríkisins yrði skv. frumvarpinu heimilað að gefa út bráðabirgðaleyfi sem gildir í tvö ár án umhverfismats. Þetta bráðabirgðaleyfi yrði unnt að fá fyrir allar þær framkvæmdir og starfsemi sem verða að fara í umhverfismat til þess að fá endanlegt leyfi til að hefja starfsemi/framkvæmdir. Þannig er gerð tilraun til að klóra í bakkann og bæði veita og festa í sessi ólögmæt leyfi. Auðvelt er að ímynda sér það tjón sem hægt er að valda á þessum tveimur árum á meðan starfsemin er bara stikkfrí!
Tafir á rekstri ættu ekki að gefa afslátt af umhverfismati
Í lagafrumvarpinu er talað um „sérstök undantekningartilvik“ og „brýna þörf“ þegar að því kemur að veita starfsleyfi. Í greinargerð er tilgreint nánar að þetta gæti átt við um fjárhagslegt tjón þegar „bjarga þarf verðmætum“. Augljóslega gæti slíkt átt við um nánast hvaða aðstæður sem er.
Með ákvæði þar sem gefið er leyfi til að sleppa því að meta umhverfisáhrif er verið að opna allar gáttir og draga úr líkum á því að vandað verði til verka.
Brotið á rétti almennings og umhverfisverndarsamtaka
Aðkoma almennings að ákvarðanatöku er ekki tryggð, þar sem fólki er veittur óboðlega skammur frestur til að leggja fram athugasemdir. Ekki er heldur gerð grein fyrir því hvernig fara skal með þær athugasemdir.
Með þessu háttalagi, sem nýjum lögum er ætlað að festa í sessi, er í raun tekið fyrir eina úrræði almennings til að tryggja að stjórnvöld og framkvæmdaaðilar fari að lögum við veitingu leyfa fyrir framkvæmdum og starfsemi sem hafa mikil áhrif á umhverfið.
Til að bæta gráu ofaná svart yrði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála svipt valdi sínu. Þannig gætu framvæmdaaðilar fengið bráðabirgðaleyfi í trássi við úrskurði nefndarinnar, hafið framkvæmdir og valdið óbætanlegu tjóni á umhverfi og náttúru.
Stjórn Landverndar telur frumvarpið algerlega óásættanlegt og að Alþingi beri að koma í veg fyrir að það verði að lögum.