Opnunarávarp formanns Landverndar, Björgólfs Thorsteinssonar
Umhverfisráðherra, þingforseti, ágætu þátttakendur á Umhverfisþingi
Inngangur
Ég vil lýsa ánægju með að Umhverfisþing skuli nú haldið á haustmánuðum 2005. Að þessu sinni er viðfangsefnið sjálfbær þróun (SÞ) og hvernig til hefur tekist í okkar samfélagi og tel ég reyndar nauðsynlegt að slík þing séu haldin með reglulegu millibili til að fara yfir farinn veg og móta stefnu til framtíðar.
Um sjálfbæra þróun
Eins og fram kemur í Velferð til framtíðar – stefnumörkun til 2020, er SÞ hugtak sem felur í sér nálgun sem þjóðir heims hafa sameinast um að hafa að leiðarljósi í viðleitninni til að leysa mörg helstu viðfangsefni 21. aldarinnar. Þar kemur fram að sjálfbær þróun hafi þrjár meginstoðir: efnahagsvöxt, félagslega velferð og vernd umhverfisins og að skoða verði þessa þrjá þætti í samhengi og leitast við að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið. Og ég legg áherslu á þetta síðasta: án þess að skaða umhverfið. Hér er því verið að setja ákveðnar leikreglur, eins konar vegvísi sem menn geta farið eftir, svipað og um aðrar leikreglur sem gilda í atvinnulífinnu í gegnum samkeppnislög eða aðra löggjöf.
Hugtakið hefur orðið til af illri nauðsyn. Mælingar á ástandi vistkerfa gefa vísbendingar um að efnahagshagvöxtur og ör mannfjölgun sem orðið hafa undanfarin árhundruð hafi raskað mikilvægum hringrásum náttúrunnar og í sumum tilvikum sé þessi röskun svo víðtæk og djúp að hún kunni að ógna sjálfum forsendum mannlífs á Jörðu. Velferð til framtíðar verður ekki tryggð nema með því að taka ríkt tillit til gangverks náttúrunnar og að forðast aðgerðir og framkvæmdir sem raska þessu gangverki.
Á Íslandi er SÞ fyrir atbeini stjórnvalda komin vel inn í orðræðuna og er hugtakið notað til að lýsa framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag. Það eru ekki einungis stjórnvöld, bæði ríkisstjórn og sveitarstjórnir, sem hafa gert SÞ að stefnumáli sínu heldur einnig félagasamtök t.d í atvinnulífinu og víðar í þjóðfélaginu, jafnt sem allir stjórnmálaflokkar. Það virðast því allir vera sammála um þessa hugmyndafræði og hún á ekki að vera pólítískt álitaefni. Stjórnmálin snúast oft á tíðum um hvernig samfélagsgerð við viljum búa við. SÞ sýnist mér ekki snúast um hvernig samfélagsgerð við viljum búa við heldur hvort við viljum búa við samfélagsgerð yfirhöfuð, þ.e.a.s. hvort við viljum búa áfram á þessari plánetu til lengri tíma.
SÞ hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða. En hvers vegna á að hafa hag komandi kynslóða að leiðarljósi? – er þetta einhver göfug hugsun um að færa fórnir í nútíðinni til að óbornir menn hafi það ekki lakara en við sjálf? Í mínum huga gengur þetta lengra og dýpra. Í mínum huga snýst þetta um að þvinga nútímamanninn til að hugsa til langs tíma, en þannig tekur hann betri ákvarðanir til að bæta umhverfi sitt í dag og þar með að auka lífsgæði sjálfs sín. Og þetta er mergur málsins – að auka lífsgæðin í dag – en samhliða því að tryggja að jörðin geti borið framtíðina.
Frjáls félagasamtök
SÞ snýst þannig um heildarhagsmuni og langtímahagsmuni og fellur vel að starfsemi frjálsra félagasamtaka (FF) í umhverfisgeiranum. Hlutverk frjálsra félagasamtaka er víðtækt í nútíma þjóðfélagi og hlutverk þeirra fer vaxandi. Í lýðræðisþjóðfélagi er valdið komið frá borgurunum en þeir framselja vald sitt til kjörinna fulltrúa í gegnum kosningar með reglulegu millibili. Valdið er ekki þar með óskorað í höndum fulltrúanna heldur verður stöðugt að taka mið af vilja fólksins. Ein leið sem borgararnir koma viljum sínum á framfæri er í gegnum frjáls félagasamtök sem eru stofnuð af fólkinu sjálfu, fólki sem lítur svo á að breytinga sé þörf og sem vill gera eitthvað í málinu sjálft. FF eru hluti af þriðja geiranum svokallaða. ólíkt skipulagsheildum í einkageiranum greiða þau ekki út arð til eigenda, og ólíkt skipulagsheildum í opinbera geiranum eru þau ekki háð pólítísku valdi. Frjáls félagasamtök hafa sjálfsákvörðunarrétt um sína eigin framtíð og una því frelsi vel.
Vægi frjálsra félagasamtaka í heiminum er sífellt að aukast. Á Íslandi gegna umhverfisverndarsamtök mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu bæði gagnvart ríkisstjórn, sveitarfélögum, verktökum og almenningi. Á vettvangi frjálsra félagasamtaka safnast fyrir mikil þekking. Þar gefa stjórnarmenn tímann sinn, starfsmenn vinna langan vinnudag án aukaþóknunar, og bakhjarlar gefa fé til að sýna samstöðu með málefninu. Frjáls félagasamtök veita aðhald og fylgja málum eftir þannig að þau fari ekki úrskeiðis. Þau gegna jafnframt mikilsverðu fræðsluhlutverki um umhverfismál en fræðsla er forsenda þess að einstaklingurinn geti tekið upplýstar ákvarðanir. Fræðsla er því einn af hornsteinum þess lýðræðislega þjóðfélags sem við búum við.
S..l. vor tók ég við sem formaður Landverndar. Landvernd eru samtök sem starfað hafa að umhverfisvernd í 36 ár. Margt hefur breyst á þeim tíma til batnaðar og skilningur á gildi náttúru- og umhverfisverndar hefur farið vaxandi. Umhverfisverndarsamtök eiga orðið regluleg samskipti við stjórnvöld og eru kölluð til samræðna og samráðs um mörg viðfangsefni á þessu sviði. Þau hafa margt fram að færa í stefnumótun í umhverfismálum. Með því að vinna með frjálsum félagasamtökum er einnig hægt að leysa mörg verkefni á mun ódýrari hátt heldur en ef þjónusta væri keypt á frjálsum markaði og eru mörg dæmi þess að frjáls félagasamtök hafi þannig sparað ríkinu, og þar með skattborgurunum, heilmikið fé.
Það sem vekur áhyggjur mínar er veik fjárhagsstaða þessara samtaka. Fagleg og vönduð umfjöllun um umhverfisvernd og sjálfbæra þróun er það sem við sækjumst eftir. En til þess að svo megi verða þurfa samtökin fjármagn. ómetanlegt sjálfboðastarf er unnið til umhverfis- og náttúrverndar, en allt sjálfboðastarf verður markvissara ef það á sér bakhjarl í samtökum sem hafa efni á að reka öflugar skrifstofur með nauðsynlegu starfsfólki og að kaupa utanaðkomandi þjónustu, t.a.m. lögfræðiþjónustu þegar með þarf. Víða erlendis er þetta allt mun auðveldara og kemur þar einkum tvennt til: í milljónaþjóðfélögum þarf ekki svo hátt hlutfall borgaranna að greiða félagsgjöld til samtaka þannig að nóg fé safnist fyrir föstum rekstrarkostnaði, en auk þess njóta menn víða skattaívilnana í tenglum við slík framlög. Á Íslandi er þessu ekki til að dreifa, alla veganna ekki enn sem komið er. Frjáls félagasamtök á Íslandi þurfa að eyða miklum tíma í fjáröflun fyrir starfsemi sína sem þau annars gætu nýtt til starfseminnar sjálfrar. Að hafa ekki kjölfestu í fjárhagnum gerir starfið allt mun erfiðara og finna þarf lausn á þeim vanda.
Mat á verðgildi náttúrunnar
Annað sem ég hef áhyggjur af er að Íslendingar skilji ekki nægilega vel hvað það er einstakt meðal þjóða, og þá sérstaklega hér í V-Evrópu, að eiga þessa ósnortnu náttúru á hálendi Íslands. Við skiljum ekki þessi verðmæti en hálendið allt þarf að taka fastari tökum.
Og þá kem ég að öðru atriði sem er mat á verðgildi náttúrunnar. Það er mjög mikilvægt að átta sig á að umhverfisgæði eru takmörkuð og að þau hafi verðgildi sem hægt er að meta til fjár.
Gildi umhverfisins er ferns konar:
1. Notagildi (use value) – bæði til framleiðslu og neyslu
2. Valréttargildi (option value) – eiga þess kost að njóta í framtíðinni
3. Tilvistargildi (existence value) – fólk hefur ánægju af að vita að þessi fyrirbæri eru til, jafnvel þótt ætli sér engin not
4. Erfðagildi (bequest value)
Ef lagt er saman 1+2+3+4 þá fær maður heildarverðmæti
Mat á gildi náttúrunnar ætti að vera hluti af umhverfismati. Það er ekki hlaupið að því að áætla markaðsverð á vöru sem ekki er á markaði. En það eru hagfræðilegar aðferðir til að gera slíkt og við arðsemisútreikninga í tengslum við framkvæmdir þarf að meta þessi verðmæti eins og hvern annan kostnað. Að öðrum kosti byggjum ákvörðunartöku á veikum grunni sem getur leitt til rangra ákvarðana þannig að þjóðfélagslegur ábati sé mínus tala en ekki plús.
Efnahagslegi og umhverfisþátturinn í sjálfbærri þróun þurfa ekki að vera andstæður eins og margir virðast halda. Sjálfbær þróun setur okkur ákveðin viðmið, er eins konar vegvísir um hvernig við eigum að stýra þróuninni. Ef við ætlum að vinna að markmiðum sjálfbærrar þróunar þá verðum við að meta umhverfið að verðleikum.
Þingvellir hafa þegar verið teknir á heimsminjaskrá. Mörg önnur svæði á Íslandi eiga eflaust þar einnig erindi. Erlendir vísindamenn, alþjóðlega viðurkenndir sérfræðingar á þessu sviði, hafa þegar bent á að Þjórsárver og aðliggjandi svæði séu náttúrminjar sem hafi mikið gildi á heimsvísu. Þetta var eftir að íslenskir vísindamenn komust að þeirri niðurstöðu í gegnum Rammaáætlun að hér væru um að ræða eitt verðmætasta svæði hálendisins. Mannvirkjagerð á þessu svæði myndi spilla þessum verðmætum og ég fæ ekki séð að slík landnotkun yrði í anda sjálfbærrar þróunar nema síður sé. Frjáls félagasamtök hafa margoft bent á verðgildi þessa svæðis og reyna að bjarga verðmætum.
Lög tryggi betra aðgengi og málsaðild
SÞ kemur sterklega inn í skipulagsmálin en á Íslandi eru þau mál á forræði sveitarstjórna. Er það vel að svo sé en ég hef ákveðnar áhyggjur af hvernig málum er háttað varðandi skipulagsferlið því á þeim átján mánuðum sem ég hef starfað í stjórn Landverndar hef ég séð of mörg dæmi þess að skipulagsákvarðanir hafi verið teknar án þess að sjálfbær þróun hafi verið samþætt inn í ákvarðanaferlið. Á þetta ekki síst við þegar um er að ræða skipulag á svæðum sem hafa mikið gildi á landsvísu eða langt út fyrir landssteinana, og sýnist mér ekki vera nægilega margir varnaglar fyrir hendi til að koma í veg fyrir óþarfa spjöll.
Einn af þeim varnöglum sem þarf að vera til staðar er betra aðgengi almennings og félagasamtaka að ákvörðunartöku. Ný lögum um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir ákveðnu aðgengi en það er engan veginn nægjanlegt og það er brýnt að fullgilda Árósarsamninginn hér á landi sem fyrst. Jafnframt ætti að endurskoða öll sérlög m.t.t. breytinga á málsmeðferðinni og taka afstöðu til réttinda almennings.
Umhverfismál snerta málaflokka margra ráðuneyta utan umhverfisráðuneytisins, t.a.m. iðnaðarráðuneytisins, sjávarútvegsráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, menntmálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, en vinna þarf að þessum lagabreytingum á stjórnsýslustiginu. Ég tel mjög mikilvægt að ná þessum breytingum fram til að hægt sé að vinna að markmiðum sem tengjast sjálfbærri þróun á Íslandi með skilvirkari hætti.
Loftslagsbreytingar
Ég get ekki látið hjá líða að fjalla um loftslagsbreytingar sem eru eitt brýnasta málefni samtímans. Það vekur áhyggjur hve hraði breytinga á loftslagi og náttúru er mikill, ekki síst á norðlægum slóðum. Því hraðari sem breytingar verða, því erfiðara verður það fyrir vistkerfi og mannleg samfélög að aðlagast. Það skortir verulega upp á að hraði samfélaga við að taka ákvarðanir um aðgerðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda sé í samræmi við þær hraðfara breytingar sem merkja má á loftslagi.
Hagkerfi heimsins eru nú háð því að fá ódýra orku úr kolum, olíu og jarðgasi. Ef ekki tekst að bæta verulega orkunýtni og finna fjárhagslega hagkvæma staðgengla fyrir þessa mengandi orkugjafa blasir sennilega við víðtæk og langvarandi vistkreppa með afar neikvæðar afleiðingar fyrir mannkynið. Viðfangsefnið er alþjóðlegt eins og svo mörg umhverfismál, og er án efa eitt vandasamasta viðfangsefni þessarar aldar, en tæknilega leysanlegt.
Viðfangsefnið kallar á aðgerðir Íslendinga á alþjóðavettvangi. Til að sá málflutningur sé trúverðugur verður einnig að grípa til aðgerða hér heima. Greina þarf hvað megi gera hér á landi og finna raunhæfar aðgerðir og afla þeim stuðnings. Það hefur verið markmið tveggja ára loftslagsverkefnis Landverndar, en niðurstöður þess eru kynntar á veggspjöldum hér á Umhverfisþingi.
Lokaorð
Sjálfbær þróun (SÞ) er viðfangsefni sem allt samfélagið þarf að taka þátt í