Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar
Að ganga um svæðið frá Miklafelli að Lambhagafossum er eins og að lesa kennslubók um áhrif elda og ísa á Íslandi. Eldgosið í Lakagígum árið 1783 sendi hraunstrauma eftir dal sem áður fyrr var kallaður Fljótsdalur. Hverfisfljótið hafði þá runnið um dalinn í þúsundir ára og mótað hann, m.a. grafið um 200 metra djúpt gljúfur milli Miklafells og Hnútu, að sögn eldklerksins Jóns Steingrímssonar.
Dalurinn og gljúfrið fylltust af hrauni við Skaftárelda árið 1783. Þó má vel sjá móta fyrir gljúfrinu og börmum þess í hrauninu á takmörkuðu svæði. Það er einstök náttúrusmíð.
Hraunið frá Lakagígum leiddi til þess að Hverfisfljót varð að finna sér nýjan farveg talsvert austar. Það tók stefnu um Bárðarskarð, sem kennt er við landsnámsmann sem flutti úr Bárðardal suður í Fljótshverfi á landsnámsöld. Í Bárðarskarði hefur fljótið á rúmlega tvö hundruð árum grafið djúpt far sem er tveir til þrír metrar að breidd. Þar þrýstist straumur Hverfisfljóts fram af miklum krafti og má sjá að vatnið vinnur ötullega nótt sem dag að því að breikka og dýpka farið.
Skipulagsstofnun kolfelldi virkjunina
Neðan við þessa stórbrotnu náttúrusmíð tekur við slétta þar sem ráðgert er að staðsetja inntakslón fyrir svokallaða Hnútuvirkjun (9,3 MW). Austar og neðan við þessa sléttu tekur við önnur fossadýrð; fyrst fossinn Faxi og svo fossaröðin Lambhagafossar. Á þessu svæði hefur fljótið náð að grafa rás sem er 5 til 10 metra breið og steypist Hverfisfljótið með miklu offorsi niður að hraunsléttunni þar fyrir neðan. Áformuð virkjun mun ræna vatni af þessum fossum, vegir og aðfallspípa skera landið.
Sérstöðu og virði þessa einstaka svæðis verður gjörspillt með áformuðum framkvæmdum og rekstri áformaðrar Hnútuvirkjunar sem gleypir drjúgan hluta fljótsins. Engin haldbær rök hafa verið lög fram um nauðsyn virkjunar á svæði sem verndað er með lögum um náttúruvernd. Skipulagsstofnun kolfelldi virkjunina þegar umhverfisáhrif hennar voru metin.
Missum ekki mikilvægan kafla úr sköpunarsögu landsins
Verði af framkvæmdum við Hnútuvirkjun munu framtíðarkynslóðir Íslendinga missa mikilvægan kafla úr sköpunarsögu landsins. Gestir okkar, undirstaða mikilvægustu atvinnustarfsemi héraðsins, munu glata tækifærum til stórkostlegrar upplifunar. Landvernd, í samstarfi við fjölmarga aðra aðila sem láta sig málið varða og unna íslenskri náttúru, hafa kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps að veita virkjuninni framkvæmdaleyfi. Það er einlæg von okkar allra að nefndin standi vörð um einstaka náttúru eins og lög gera ráð fyrir – og hafni öllum áformum um framkvæmdir á svæðinu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september 2022.