Stjórn Landverndar sendi innviðaráðuneytinu umsögn um málið.
Náttúran er undirstaða uppbyggingar
Í hvítbókinni eru kynnt þrjú meginmarkmið sem endurspegla þau verðmæti sem halda þarf jafnvægi á milli: a) náttúruleg verðmæti (auðlindir jarðar, vistkerfi og loftslag), b) framleiðsluverðmæti (peningar og vörur) og c) mannleg verðmæti (menntun, heilbrigði og vellíðan mannfólks).
Rannsóknir hafa sýnt fram á að framleiðsluverðmæti hafa tvöfaldast milli 1992 og 2014, mannleg verðmæti vaxið um 13% en náttúrulegu verðmætin rýrnað um 40%. Í því ljósi er mikilvægt að stefnumótun um landnýtingu leggi höfuðáherslu á að náttúran er undirstaða allrar uppbyggingar.
Að mati Landverndar gerir hvítbókin í heild ekki nægilega grein fyrir þörfinni á að endurheimta vistkerfi og koma í veg fyrir frekari hnignun þeirra.
Sjálfbær þróun sögð í fyrirrúmi en heildarmyndina skortir
Sú uppbygging sem kynnt er í hvítbókinni felst í að þrískipta stefnunni eftir þremur víddum sjálfbærrar þróunar – umhverfi, samfélagi og efnahag. Þetta er áhugaverð nálgun, en hún hefði útheimt miklu meiri vinnu við niðurröðun efnis og tengingar á milli einstakra kafla og ákvæða, til að tryggja skýrleika stefnunnar og skilvirka miðlun við framfylgd stefnunnar.
Landvernd fagnar áherslu á markvissar aðgerðir tengdar skipulagsmálum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem og boðaðri kortlagningu víðerna.