Ingvi Þ. Þorsteinsson – minningarorð

Mynd af mbl.is

Ingvi Þ. Þorsteinsson náttúrufræðingur, einn af stofnendum Landverndar, er fallinn frá á 95. aldursári. Hann fæddist í Reykjavík 28. febrúar 1930 og lést á skírdag 2024.

Ingvi var einn af máttarstólpum Landverndar og sat lengi í stjórn samtakanna. Á 70 ára afmæli Ingva heiðruðu félagar í Landvernd hann með því að gróðursetja afmælislund i Alviðru, náttúru- og fræðslusetri Landverndar í Ölfusi. Lundinn nefndu þeir Ingvalund.

Ingvi lagði gjörva hönd á plóg á sviði gróðurverndar og uppgræðslu lands. Hann starfaði sem sér­fræðing­ur í gróður­fræði og deild­ar­stjóri frá 1957 á At­vinnu­deild Há­skóla Íslands, síðar Rann­sókna­stofn­un land­búnaðar­ins á Keldna­holti (RALA) þar sem hann stjórnaði m.a. gróður­korta­gerð og öðrum gróður­rann­sókn­um með það að mark­miði að mæla og kanna flat­ar­mál og eðli gróðurs lands­ins. Auk starfa við RALA sinnti Ingvi starfi full­trúa Land­græðslu rík­is­ins árin 1965-70.

Hann var einnig meðal stofn­enda og formaður sam­tak­anna Gróður fyr­ir fólk í Land­námi Ing­ólfs, árin 1997-2001. Ingvi ritaði fjölda greina í blöð og tíma­rit um gróður­vernd, land­nýt­ingu og önn­ur um­hverf­is­mál. Hann hlaut land­græðslu­verðlaun­in árið 1997.

Landvernd minnist Ingva, þakkar honum mikilvæg störf í þágu náttúruverndar og sendir fjölskyldu hans hjartans samúðarkveðjur. 

Þorgerður M. Þorbjarnardóttir

formaður Landverndar, f.h. stjórnar og starfsfólks

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd