Verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd er ætlað ungu fólki og snýst um að kynna sér umhverfismál og miðla upplýsingum til almennings með fjölbreyttum leiðum. Tíu verkefni komust í undanúrslit árið 2020. Verkefnin voru af ólíkum toga og komu frá framhaldsskólum víðsvegar af landinu.
Þriðja sætið hlaut verkefnið Hellisbúarnir en að því stóðu fjórir nemendur úr Framhaldsskólanum í Austur- Skaftafellssýslu. Nemendurnir heita Ástrós Aníta, Harpa Sigríður, Mateja Nikoletic og Selma Mujkic og eru á aldrinum 16 til 21 árs.
Á Instagram síðunni sinni segja þau frá ferð sinni á Breiðamerkurjökul og fjalla um bráðnun jökla. Dómnefndin var afar hrifin af bæði miðlunarleið nemendanna og efnisvalinu. Umsögn þeirra við verkefnið er eftirfarandi:
Bráðnun jökla ógnar ungum kynslóðum í dag og stefnir heimkynnum okkar og lífsháttum í hættu. Hópurinn setti verkefnið fram á mjög aðgengilegan hátt fyrir ungt fólk sem var til fyrirmyndar og var í senn fræðandi og lifandi.
Landvernd hefur umsjón með verkefninu Ungt umhverfisfréttafólk. Þegar fram líða stundir er stefnt á að bjóða framhaldsskólum, efri bekkjum grunnskóla nemendum á háskólastigi að taka þátt. Framhaldsskólar geta enn skráð sig til leiks fyrir næstu önn. Skráning fer fram hér.