Landsnet sendi nýlega frá sér tillögu að raflínuáætlun (kerfisáætlun) fyrir árin 2016 til 2025. Landvernd telur ástæðu til að hrósa fyrirtækinu fyrir nýjar áherslur og bætt vinnubrögð við gerð áætlunarinnar. Leiða má líkum að því að að alvarlegar athugasemdir almennings og umhverfisverndarsamtaka við vinnubrögð Landsnets á undanförum árum, þ.m.t. kærumál og dómsmál vegna eldri kerfisáætlana og einstakra framkvæmda, hafi haft þessi jákvæðu áhrif. Drögin eru nú til kynningar og getur hver og einn komið á framfæri athugasemdum sínum fyrir áramót.
Á ári hverju ber Landsneti að gefa út áætlun um hvernig það sér fyrir sér þróun flutningskerfisins til næsta áratugar (s.k. kerfisáætlun), og að gera tímasetta áætlun um framkvæmdir næstu þrjú árin. Almenningur hefur í kjölfar úrskurðar umhverfisráðherra árið 2013 átt kost á að taka þátt í undirbúningi áætlunarinnar. Að mati Landverndar bera drög að nýjustu áætlun Landsnet þess skýr merki að aðhald og athugasemdir almennings og umhverfisverndarsamtaka hafi skilað sér í bættum vinnubrögðum. Breytt hefur verið forsendum og aðferðum við áætlanagerðina og hefur fyrirtækið m.a. litið til annarra ríkja um fyrirmyndir. Full ástæða er til að vekja athygli á þessari jákvæðu þróun og hvetja fyrirtækið til að halda áfram á sömu braut.
Jákvæðar breytingar
Landvernd vill tiltaka eftirtaldar breytingar frá fyrri áætlunum, sem skref í jákvæða átt:
- Í stað þess að beita nýtingarflokki rammaáætlunar sem forsendu fyrir áætlun um raforkuflutningsmannvirki næstu 10 ára, hefur Landsnet nú þróað betri aðferðir við að sjá fyrir þörf fyrir mannvirkjagerð til raforkuflutnings. Virðist þannig um raunhæfari forsendur að ræða en áður tíðkaðist,
- í fyrsta sinn er nú með raunverulegum hætti fjallað um möguleika á jarðstrengjum á hluta línuleiða vítt og breitt um landið, en á þetta hefur skort,
- í stað hefðbundins jarðstrengs um hluta hálendsins er jafnstraumsstrengur allan Sprengisand nýr valkostur í kerfisáætlun og umhverfismati, og er það í fyrsta sinn sem Landsnet ljær máls á slíkri tækni (hefnbundnir jarðstrengir hér á landi eru með riðstraumi en mun lengri vegalengdir má leggja í jörð sé notaður jafnstraumsstrengur),
- í fyrsta sinn er nú þjóðhagslegt mat hluti af kerfisáætlun.
Öll þessi atriði eru í samræmi við þær athugasemdir sem gerðar hafa verið í málsmeðferð vegna eldri áætlanagerðar, meðal annars af Landvernd. Má þarf t.d. nefna dómsmál Landverndar vegna kerfisáætlunar 2014-2023, þar sem m.a. voru gerðar alvarlegar athugasemdir við meðferð athugasemda. Önnur mál hafa endað fyrir úrskurðarnefndum, eins og þekkt er, þ.m.t. kerfisáætlun 2015-2024.
Þá er jákvætt að nú er sérstök áhersla á að greina kerfisáætlun m.t.t. loftslagsmála.
Enn má bæta vinnubrögð
Það dregur nokkuð úr gildi þeirrar jákvæðu þróunar sem hér á sér stað, að forsendur fyrir mögulegri lengd jarðstrengja á hverri og einni línuleið kunna á köflum að vera umdeilanlegar og aðferðir ekki fyllilega gagnsæjar. Vonast Landvernd til að bæta megi þar úr, enda hlýtur Landsneti að vera kappsmál að setja öll gögn fram með gagnsæjum, hlutlægum og sannreynanlegum hætti. Þá má telja að sæstrengur til Evrópu verði afar umdeildur sem forsenda.
Sérstaklega má benda á að við gerð sviðsmynda þarf að vera gagnsærra hvaða forsendur liggja að baki, ekki síst fyrir sviðsmyndir þar sem gert er ráð fyrir frekari orkuuppbyggingu og rafvæðingu.
Landvernd saknar þess að ekki skuli vera gerð tilraun til að meta mögulegan orkusparnað í kerfisáætlun. Alkunna er að orkusóun á Vesturlöndum er afar mikil og miklir og væntanlega hagkvæmir sóknarmöguleikar á því sviði.
Þá sýnist Landvernd að ekki séu skýrar forsendur fyrir því að framkvæmdir sem eru inni á eldri 3ja ára tímasettum framkvæmdaáætlunum fari ýmist út eða inn í hvert skipti sem ný áætlun er gerð. Mikilvægt er fyrir alla aðila að fyrirsjáanleiki sé um framkvæmdaáform. Þannig verður bæði að liggja fyrir með skýrum hætti af hverju talið er að ráðast þurfi í tiltekna framkvæmd en líka hvenær áætlað er gera það og í hvaða röð. Nefna má að nú eru á áætlun 2018 og 2019 línulagnir frá Akureyri til Fljótsdals sem ekki hafa enn verið umhverfismetnar, hvað þá að sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi fyrir þeim. Landvernd telur að ferli umhverfismats, sem lýkur með framkvæmdaleyfi sveitarfélags, þurfi að vera opið, gagnsætt og með eðilegri framvindu. Þá verði að gera ráð fyrir því að reynt geti á álitaefni þegar framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út, t.a.m. þegar athugasemdir hafa komið fram í umhverfismati sem ekki hefur verið unnið úr með fullnægjandi hætti eða að matið er úrelt og á ekki lengur við um framkvæmdina, til að mynda vegna breyttra laga, tíðaranda eða tækni. Því vandaðri sem öll málsmeðferð er, þ.m.t. að hugað sé að öllum umhverfisþáttum sem skipta máli, áður en komið er að lokastigi matsferilsins, þeim mun líklegra er að sátt náist um tiltekna framkvæmd. Verndargildi náttúru er lykilatriði í því ferli öllu.
Landvernd mun áfram halda vöku sinni og varðstöðu um náttúruverðmæti í þessum málum og undirbýr nú athugasemdir sínar við áætlunina.