Á aðalfundi Landverndar 2020 var samþykkt ályktun um olíulaust Ísland árið 2035.
Þar er lagt til að íslensk stjórnvöld setji sér markmið um tímasetta útfösun samgöngutækja sem nota jarðeldsneyti, eins og nánar er tilgreint í ályktuninni.
Skýrslan sem hér birtist hefur að geyma greiningu sem Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) vann fyrir Landvernd vorið 2021. Greiningunni var ætlað að gefa yfirlit yfir núverandi og sögulega notkun jarðeldsneytis á Íslandi, svo og tæknilegar og hagrænar forsendur þess að ná umræddu markmiði um olíulaust Ísland árið 2035. Jafnframt átti greiningin að innihalda ábendingar um þær breytingar sem gera þarf á lögum og reglugerðum til þess að markmiðið náist og gróft yfirlit yfir frekari aðgerðir sem íslenska ríkið þyrfti að grípa til í sama skyni. Þrátt fyrir að endurnýjanlegar orkuauðlindir Íslands standi undir langstærstum hluta af framleiðslu rafmagns og hita í landinu er íslenska hagkerfið gríðarlega háð jarðeldsneyti.
Það mun því krefjast átaks að fasa út jarðeldsneyti, en því fyrr sem það er gert, þeim mun meiri verður ávinningurinn. Ein meginniðurstaða þessarar skýrslu er sú að tæknilegar forsendur séu að hluta til nú þegar fyrir hendi, og ef þróun nýrra orkulausna verði jafnhröð næsta áratug og hún hefur verið undanfarin ár megi reikna með að ekki verði skortur á raunhæfum valkostum sem leyst geta jarðeldsneyti af hólmi. Átakið að fasa út jarðeldsneyti fyrir árið 2035 sé því fyrst og fremst pólitískt viðfangsefni.
Útfösun jarðeldsneytis er ekki aðeins stórt skref í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda, heldur fylgja henni ýmis jákvæð hliðaráhrif s.s. bætt loftgæði, aukið orkuöryggi, sparaðar gjaldeyristekjur og bætt samkeppnisstaða. Með útfösun minnka auk þess líkurnar á að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og þurfi að greiða fyrir umframlosun. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar rætt er um efnahagslegan fýsileika útfösunar. Í þeirri umræðu má ekki einblína á kostnaðinn við að fasa út þetta eldsneyti, heldur þarf einnig að áætla kostnaðinn við að gera það ekki.
Til að setja fram trúverðuga greiningu á tæknilegum og hagrænum forsendum þess að ná markmiðinu um jarðeldsneytislaust Ísland árið 2035 þyrfti að rýna í stöðu einstakra atvinnugreina, áform þeirra og möguleika á skjótri útfösun eldsneytisins.
Hérlendis er mjög lítið til af greiningum um þessi efni sem hægt er að styðjast við, í það minnsta ef horft er til hinna Norðurlandanna til viðmiðunar. Þar er búið að vinna mun meiri forvinnu, bæði af hálfu ríkjanna og atvinnugreina í hverju landi.
Skýrslan sem hér birtist ætti að geta nýst vel sem grunnur að frekari umræðu, en mikil þörf er á meiri og dýpri greiningarvinnu til að greiða leiðina að jarðeldsneytislausu Íslandi 2035. Sú vinna má þó ekki tefja aðgerðir, enda brýnt að þær hefjist sem allra fyrst. Heildarsala jarðeldsneytis á Íslandi tvöfaldaðist hér um bil á tímabilinu 1982-2018, en vísbendingar eru um að þá hafi toppnum verið náð. Í opinberum spám er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á allra næstu árum. Minnkandi vöxtur eða jafnvel stöðnun í olíunotkun virðist þó frekar vera afleiðing utanaðkomandi breytinga en afleiðing af stefnumótun íslenskra stjórnvalda eða einstakra atvinnugreina.