Umræða um jarðstrengi og loftlínur verður oft full tæknileg og flókin, en í rauninni er hún ósköp einföld. Spurningin snýst um hvort við viljum að raforkuflutningskerfið þróist áfram sem stórir loftlínuskógar eða að a.m.k. hluti raflína fari í jörð. Landvernd hefur látið sig miklu varða þessa umræðu víða um land enda skiptir þetta miklu fyrir náttúruvernd, útivist, ferðaþjónustu sem og samfélagið allt.
Landsnet hf. hefur uppi áform um umfangsmikla uppbyggingu í flutningskerfi raforku hérlendis. Um er að ræða stórar loftlínur með mikil sjónræn áhrif, líkt og þær sem er að finna á Hellisheiði, í Hval- firði og frá Fljótsdalsstöð niður til álversins í Reyðarfirði. Áætlanir Landsnets hafa gert ráð fyrir slíkum 220kV (kílóvolta) raflínum á byggðalínuhringnum svokallaða frá Brennimel í Hvalfirði, norður til Akureyrar, austur í Fljótsdal, suður fyrir og loks um Skaftárhrepp og norður í Sigöldu, hér kölluð hringleið (sjá kort). Önnur útfærsla felur einnig í sér þverun Sprengisands og tengingu milli Norður- og Austurlands (sjá kort) og hefur fyrirtækið nú tekið þá ákvörðun að ráðast fyrst í gerð Sprengisandslínu. Nýlega voru kynntar mögulegar útfærslur línunnar, bæði sem loftlínu og jarðstrengs. Landvernd hefur ítrekað komið á framfæri andstöðu sinni við raflínu yfir Sprengisand.
Landvernd hefur gagnrýnt Landsnet harðlega fyrir að neita að láta vinna umhverfismat fyrir jarðstrengi til jafns við loftlínur. Landsnet hefur fullyrt að fyrirtækið geti ekki lagt jarðstrengi á háum spennu-stigum vegna mikils kostnaðarmunar samanborið við loftlínur og umhverfismat jarðstrengjaleiðar gæti því vakið upp óraunhæfar væntingar hjá almenningi.
Í ljósi þess að gögn erlendis frá m.a. Danmörku og Frakklandi hafa sýnt að jarðstrengir á 220kV eru að verða algengari og samkeppnis- hæfari kostnaðarlega séð, safnaði Landvernd fjármagni til að láta vinna almenna úttekt á kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína hér- lendis. Kanadíska fyrirtækið Metsco Energy Solutions komst að því að jarðstrengur er aðeins um 20% dýrari sé miðað við 220kV raflínu með 400 megavoltampera (MVA) flutningsgetu og að enginn munur er á 132kV spennu. Báðir valkostir eru því raunhæfir og því verður að taka báða til skoðunar þegar ákvarðanir eru teknar um einstök verkefni í flutningskerfinu.
Á nýliðnu starfsári hefur Landvernd einnig veitt umsagnir um fyrstu stig umhverfismats Landsnets á kerfisáætlun fyrirtækisins um þróun flutningskerfisins næstu árin og um skýrslu nefndar um lagningu raflína í jörð, en Landvernd átti fulltrúa í þeirri nefnd. Þá hafa fulltrúar samtakanna skrifað blaðagreinar og farið í fjölda viðtala vegna þessara mála, auk þess sem skýrsla Metsco var kynnt á opnum fundi í Reykjavík og í Skagafirði og fyrir iðnaðar- og við- skiptaráðherra og atvinnuveganefnd Alþingis. Einnig kærðu Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd í sameiningu leyfi Orkustofnunar til Landsnets um að reisa og reka Suðurnesjalínu 2.