Jarðvarminn þriðja auðlindin?

Jarðhitasvæði eru meðal sérstæðustu náttúrufyrirbæra á Íslandi og njóta hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim sérstakrar verndar, landvernd.is
Áður en teknar eru ákvarðanir um nýtingu á tilteknu landssvæði þurfi að leggja mat á þjóðhagslegan ávinning af nýtingunni.

Áður en teknar eru ákvarðanir um nýtingu á tilteknu landssvæði þurfi að leggja mat á þjóðhagslegan ávinning af nýtingunni. Í því felst m.a. að líta þarf til umhverfiskostnaðar og annarra nýtingarmöguleika. Verndun, t.d. með stofnun þjóðgarða, er ákveðið form af nýtingu og með því að nýta landsvæði með þeim hætti í dag er ekki komið í veg fyrir annarskonar nýtingu af hálfu komandi kynslóða. Með umfangsmiklum framkvæmdum í dag getur núlifandi kynslóð hinsvegar komið í veg fyrir eða skert verulega möguleika komandi kynslóða til nýtingar í formi náttúruverndar.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 15. júlí s.l. var fjallað um auðlindanýtingu á Íslandi. Dregið var fram ríkjandi sjónarmið sjötta áratugar síðustu aldar þess efnis að á Íslandi væru tvær auðlindir fiskur og fallvötn. Á þeim árum var sjávarútvegur helsta atvinnugrein landsmanna og horft var til nýtingar fallvatnanna. Hafist var handa við stíflugerð og virkjanir en fram að því höfðu stóru fallvötnin farið sína náttúrulegu leið til sjávar. Nú er öldin önnur og þegar Kárahnjúkavirkjun verður komin í rekstur hefur ein kynslóð Íslendinga líklega virkjað um eða yfir helming af því vatnsafli landsins sem talið er hagkvæmt að virkja. Í Reykjavíkurbréfinu er dregin sú ályktun að yfirgnæfandi líkur séu á því að Kárahnjúkavirkjun sé síðasta stóra vatnsaflsvirkjunin sem byggð verður á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá er varpað fram spurningu um hvort jarðvarminn sé þriðja auðlindin og lýst er eftir umræðu um þau umfangsmiklu áform um jarðvarmavirkjanir sem nú liggja fyrir.

Landvernd tekur undir að opinská umræða um jarðvarmavirkjanir þurfi að fara fram og rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að með nútíma tækni nýta jarðvarmavirkjanir auðlindina hraðar en hún endurnýjar sig. Hægt er að nýta jarðhitakerfin í nokkra áratugi en síðan þarf að hvíla þau í eitthvað lengri tíma áður en hægt er að hefja vinnslu í þeim á ný. Þegar hvíla þarf kerfin dregur úr raforkuframleiðslu og þeim samdrætti þarf þá væntanlega að mæta með því að draga úr orkunotkun eða með nýjum virkjunum. Umfangsmikil uppbygging jarðvarmavirkjana gæti því kallað á enn fleiri virkjanir í framtíðinni og sett þrýsting á komandi kynslóðir til frekari náttúrufórna gegn eigin vitund og vilja – slíkar álögur eru ekki í anda sjálfbærrar þróunnar.

Almennt er það skoðun Landverndar að áður en teknar eru ákvarðanir um nýtingu á tilteknu landssvæði þurfi að leggja mat á þjóðhagslegan ávinning af nýtingunni. Í því felst m.a. að líta þarf til umhverfiskostnaðar og annarra nýtingarmöguleika. Verndun, t.d. með stofnun þjóðgarða, er ákveðið form af nýtingu og með því að nýta landsvæði með þeim hætti í dag er ekki komið í veg fyrir annarskonar nýtingu af hálfu komandi kynslóða. Með umfangsmiklum framkvæmdum í dag getur núlifandi kynslóð hinsvegar komið í veg fyrir eða skert verulega möguleika komandi kynslóða til nýtingar í formi náttúruverndar.

Eitt af því sem Landvernd leggur af mörkum til umræðu um þessi mál er framtíðarsýn um Reykjanesskagann undir yfirskriftinni „Reykjanesskagi – eldfjallagarður og fólkvangur.“ Framtíðarsýn Landverndar byggir á náttúruvernd samhliða fjölþættri nýtingu náttúruauðlinda. Umtalsverð orkuvinnsla er þegar til staðar í Hengli, Svartsengi og á Reykjanesi og er helst skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans á þeim svæðum en þyrma ósnortnum svæðum. Leggja þarf áherslu á rannsóknir og djúpboranir sem gætu allt að tífaldað orkuvinnslugetu þessara svæða án þess að því þurfi að fylgja teljandi rask umfram það sem þegar er orðið. Jafnvel þó djúpborunarverkefnið nái ekki fram að ganga má ætla að ná megi umtalsverðri orku úr þeim svæðum Reykjanesskagans sem þegar hafa verið virkjuð að hluta. Það er því erfitt að sjá rökin fyrir röskun á fleiri svæðum á þessum tímapunkti. Engu að síður hafa orkufyrirtækin sótt um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum en svæðið frá Stóra Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni sem ber að vernda.

Ef sátt næst um sýn sem byggir á að nota þau fjölmörgu tækifæri sem Reykjanesskaginn hefur upp á að bjóða til náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu auk orkuvinnslu og nýtingu jarðhitaefna, er unnt að skapa mikinn arð fyrir samfélagið án þess að ganga of nærri náttúrunni.

Björgólfur Thorsteinsson formaður Landverndar
Leiðari í Kríunni sem kom út í september 2006.

Tengt efni frá Orkuþingi 2006.
Hvernig á að meta sjálfbæra vinnslugetu jarðhitasvæða? – Guðni Axelsson, Sveinbjörn Björnsson og Valgarður Stefánsson.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd