Þessi vegagerð var framkvæmd á grundvelli “bráðabirgðaframkvæmdaleyfis” sem er hugtak sem er ekki til í löggjöfinni.
Landvernd hefur, ásamt Eldhestum og Birni Pálssyni, kært útgáfu sveitarfélagsins Ölfuss á leyfi fyrir framkvæmdum á Stóra Skarðsmýrarfjalli. Í kærunni er þess krafist að leyfið verði ógilt þar sem útgáfan samræmist ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.
Í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar á Hellisheiðarvirkjun fékk sveitarfélagið ítarlegar leiðbeiningar um hvernig standa skuli að útgáfu framkvæmdaleyfa. Þar kemur fram að áður en hægt sé að gefa út framkvæmdaleyfi þurfi að breyta aðalskipulagi og deiliskipulagi. Þá kemur fram að áætlun um efnistöku þurfi að liggja fyrir áður en heimilt er að gefa út framkvæmdaleyfi. Þrátt fyrir leiðbeiningar Skipulagsstofnunar hefur sveitarfélagið ekki unnið skipulagsvinnuna og áætlun um efnistöku liggur heldur ekki fyrir.
Sveitarstjórnin gaf út leyfi til framkvæmda, undir nafninu „bráðabirgðaframkvæmdaleyfi.“ Hugtakið „bráðabirgðaframkvæmdaleyfi“ er ekki til í íslenskri stjórnsýslu. Leyfið sem gefið var út þjónar sama tilgangi og það sem löggjafinn kallar framkvæmdaleyfi og telja kærendur að úrskurðarnefndinni beri að fjalla um málið á þeim grunni. Í skjóli þessa „bráðabirgðaframkvæmdaleyfis“ hefur m.a. verið ráðist í vegagerð á Stóra Skarðsmýrarfjalli en vegagerð er háð framkvæmdaleyfi. Mikilvægt er að fá hið fyrsta úr því skorið hvort sveitarfélög geti endurskilgreint hugtök laganna og þannig komið í veg fyrir lögformleg kynningarferli þar sem íbúar, hagsmunaaðilar og frjáls félagasamtök eiga rétt á aðkomu.
Þessi efnistaka fer fram á grundvelli “bráðabirgðaframvkæmdaleyfis” sem er hugtak sem er ekki til í löggjöfinni .
Úr úrskurði Skipulagsstofnunnar:
„Varðandi stöðu skipulags- og leyfisveitinga vegna fyrirhugaðrar stækkunar Hellisheiðarvirkjunar bendir Skipulagsstofnun á eftirfarandi:
1. Framkvæmdin er ekki í samræmi við Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002 – 2014 og kallar því á breytingu á því.
2. Fyrirhugaðar framkvæmdir á nýju orkuvinnslusvæði og breytingar á núverandi iðnaðarsvæði vegna stækkunar Hellisheiðarvirkjunar eru háðar breytingum á gildandi deiliskipulagi fyrir virkjun á Hellisheiði.
3. Framkvæmdin er háð leyfisveitingum Sveitarfélagsins Ölfuss samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, nýtingarleyfi iðnaðarráðuneytis til vinnslu jarðhita og grunnvatns samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands samkvæmt reglugerðum nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns. Áður en framkvæmdaleyfi er veitt skal liggja fyrir áætlun um efnistöku, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, í samræmi við lög um náttúruvernd nr. 44/1999.“