Efnt hefur verið til keppni um bestu birkimyndböndin. Nemendur grunn- og framhaldsskóla geta tekið þátt og er skilafrestur 30. september 2021.
Breiðum út birkiskóga landsins
Á síðasta ári tóku nokkur fyrirtæki, stofnanir og félög höndum saman og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Landvernd er í þessum hópi. Í haust sem leið var safnað umtalsverðu magni af birkifræi sem var að hluta dreift síðastliðið haust en í vor verður afganginum dreift á valin, beitarfriðuð svæði.
Keppni um besta birkimyndbandið
Til að glæða enn frekar umhverfisáhuga landsmanna var ákveðið að efna til myndbandakeppni meðal grunn- og framhaldsskólanema.
Skilafrestur til 30. september
Ákveðið var að hefja keppnina í lok apríl og að henni lyki 30. september. Ástæðan fyrir svona löngum keppnistíma er sú að án efa vilja einhverjir mynda birkið frá því að það lifnar að vori fram að því að birkireklarnir verða fullþroskaðir í haust.
Vegleg verðlaun í boði
Keppt verður í tveimur flokkum, grunnskólaflokki og framhaldsskólaflokki. Í boði eru vegleg verðlaun sem fyrirtækin Heimilistæki og Tölvulistinn gáfu til keppninnar.
Hver þátttakandi getur sent inn fimm myndir inn í sinn flokk. Engar hömlur eru settar hvað varðar tæki sem eru notuð við gerð myndbanda. Sama gildir um efnismeðferð.
Kröfur:
- myndin/myndirnar fjallar á einhvern hátt um birki á Íslandi
- hámarkslengd innsendra myndbanda er 60 sekúntur.
- skrá verkefnið á www.birkiskogur.is.
Aldurstakmörk á samfélagsmiðlum eru 13 ár á Íslandi. Ef þátttakandi er yngri en 13 ára verður hann að hafa leyfi foreldra/forráðamanna til að taka þátt.
Hægt verður að skoða innsend myndbönd á www.birkiskogur.is
Nánari upplýsingar um keppnina veitir Áskell Þórisson í síma 896 3313 og Kristinn H. Þorsteinsson í síma 834 3100.