Sækja Kolefnisbókhald fyrir EXEL
Kolefnisbókhald er hægt að gera á marga vegu en með handbókinni Öndum léttar fylgir einfalt eyðublað fyrir kolefnisbókhald og útreikninga fyrir sveitarfélög í þessu verkefni. Nauðsynlegt er að skrá alla losun kolefnis (koltvíoxíðs ígildi) í öllum geirum sem teknir eru fyrir af sveitarfélagi, jafnvel þó áherslur á samdrætti í losun milli geira geti verið mismunandi milli ára og sveitarfélaga.
Kolefnisbókhald þarf að gera fyrir hvert ár í verkefninu. Það sem skiptir mestu máli er að samræmi sé frá ári til árs svo hægt sé að fylgjast með framvindunni. Það verður að vera mikið gegnsæi svo ekki fari á milli mála á hvaða gögnum útreikningarnir byggja og hvernig útreikningarnir eru gerðir. Meginmarkmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og helstu tækifæri sveitarfélaga felast í því að spara orku og eldsneyti, minnka neyslu og auka endurvinnslu hráefna. Rekstur sveitarfélagsins er í þessu samhengi skilgreindur sem hver annar fyrirtækjarekstur.
Kolefnisbókhaldið miðast við almanaksárið en ef annað er heppilegra fyrir sveitarfélagið má óska þess. Það mikilvægasta er að alltaf sé valinn sami tími fyrir mælingarnar svo samræmi sé milli ára.
Afmörkun á starfsemi sveitarfélaga
Þegar talað er um sveitarfélag sem einingu er átt við allar starfseiningar sveitarfélagsins. Fyrirtæki og einstaklingar eru ekki tekin með en síðar kann að vera að sveitarfélög hafi áhuga á að verkefnið þróist í þá átt að það nái til losunar allra í samfélaginu.
Sveitarfélag sem tekur þátt í verkefninu skuldbindur sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur ákveðinni prósentutölu á ári, t.d. 5% eða meira á ári. Markmið um að draga úr losun á ekki að taka breytingum vegna t.d. verklegra framkvæmda, aukins fólksfjölda, eða annarrar þróunar í sveitarfélaginu. Markmiðinu þarf að ná með samdrætti í losun á gróðurhúsalofttegundum, en ekki með mótvægisaðgerðum eins og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri eða endurheimt votlendis. Slíkar aðgerðir koma hins vegar til sögunnar ef markmið sveitarfélagsins er að verða kolefnishlutlaust, og styður Landvernd slík markmið heilshugar. Sveitarfélagið ákveður tiltekið tímabil fyrir verkefnið, t.d. 5 ár eða meira.
Hvað fer í kolefnisbókhaldið?
Æskilegt er að sveitarfélög stígi fjögur skref til að fylgjast með samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
- Skilgreina og afmarka hvaða þættir í starfsemi sveitarfélagsins verði hafðir með í bókhaldinu.
- Ákvarða notkun (s.s. rafmagns, hita, eldsneytis og urðunar) hjá sveitarfélaginu sem einingu.
- Reikna út losun á gróðurhúsalofttegundum með tilteknum losunarstuðlum (sjá meðfylgjandi kolefnisbókhald).
- Heildarlosun ársins er borin saman við losunarmarkmið samkvæmt samningi og aðgerðaáætlun og reiknaður út samdráttur í losun miðað við fyrra ár.
Sú starfsemi sem verður að tilgreina í kolefnisbókhaldinu er að finna hér að neðan og ítarlegri upptalningu og lýsingar er að finna í viðauka I. Upptalningin er ekki tæmandi en má nýta sem gátlista. Sveitarfélögum er frjálst að bæta við öðrum atriðum sem þau telja að eigi erindi í bókhaldið.
- Orkunotkun í öllum byggingum sveitarfélagsins og annarri starfsemi (t.d. götulýsing). Stjórnsýslubyggingar, skólar, íþróttamiðstöðvar, dvalarheimili aldraðra og fatlaðs fólks, menningarmiðstöðvar og aðrar byggingar sveitarfélagsins.
- Samgöngur og önnur orkunotkun. Ferðalög starfsfólks, t.d. ferðir á vinnutíma á bílum í eigu sveitarfélagsins, einkabílum, leigubílum og bílaleigubílum. Akstur nemenda, fatlaðra og eldri borgara. Eldsneyti á sláttuvélar, snjómokstursvélar og aðrar vélar. Flug og almenningssamgöngur, þ.m.t. strætisvagnar og ferjur.
- Úrgangur frá öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins. Úrgangi er skipt í blandaðan úrgang sem fer í urðun og endurunnin úrgang (pappír, plast og lífrænan úrgang). Einungis er reiknuð út losun frá blandaða úrganginum.