Koparoxíð í sjókvíum – Ályktun

Við krefjumst skýringa á því að Umhverfisstofnun heimilar notkun koparoxíðs sem ásætuvörn á sjókvíum Arnarlax í Patreks- og Tálknafirði.

Efni: Breyting á starfsleyfi Arnarlax ehf. í Patreks- og Tálknafirði

Umhverfisstofnun hefur upplýst að gefið hafi verið út breytt starfsleyfi Arnarlax ehf. í Patreks- og Tálknafirði. Breytingin felur í sér að rekstraraðili fær heimild til notkunar notkunar á eldisnótum með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

Áður en framangreind breytinga var tilkynnt var tillaga að henni auglýst og með því gefin kostur á að senda inn athugasemdir.

Tveir aðilar, Landvernd og Icelandic Wildlife Fund, sendu inn athugasemdir. Í athugasemdum kom meðal annars eftirfarandi fram:


• Arnarlax varð við eftirlit Umhverfisstofnunar í nóvember 2018 uppvíst að brotum á starfsleyfi. Hafði notað koparoxíð án heimildar. Umhverfisstofnun greip ekki til neinna refsiákvæða, en verðlaunar nú fyrirtæki sem er uppvíst að refsiverðu athæfi með því að heimila sama athæfi.


• Í Noregi, þar sem sjókvíaeldið á sér lengri og umfangsmeiri sögu en hér við land, er ástandið fyrir allnokkru orðið þannig að rauð viðvörunarljós blikka vegna óásættanlegrar koparmengunar í fjörðum landsins frá sjókvíaeldi. Norska hafrannsóknastofnunin hefur vakið athygli á þessu og bent á að rannsóknir sýni að um 80 prósent af kopar, sem er að finna í ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð, losnar í hafið.


• Innan Evrópusambandsins hefur notkunin verið sett á gráan lista vegna þessara neikvæðu áhrifa efnisins á umhverfið.

• Sjókvíaeldisfyrirtæki við Ástralíu og Nýjasjáland hafa hætt notkun ásætuvarna með koparoxíði vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á umhverfið og lífríkið.

• Hafrannsóknastofnun Íslands telur að sú breyting á starfsleyfi sem nú hefur verið heimiluð skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Framangreindar vel rökstuddar ábendingar fela í sér að alls ekki ætti að heimila notkun koparoxíðs sem ásætuvörn í sjókvíum á nema mjög brýnir samfélags hagsmunir séu í húfi, og þá undir mjög þröngum skilyrðum. Ekki hefur verið sýnt fram á að brýnir samfélags hagsmunir séu í húfi.

Umhverfisstofnun hefur með ákvörðun sinni virt framangreindar staðreyndir og grundvallarreglu í umhverfisvernd, að vettugi.

Stjórn Landverndar sagði í umsögn sinni að á grundvelli varfærnisjónarmiða væri ekki rétt að veita heimild til að nota koparoxíð sem ásætuvörn í sjókvíum. Jafnframt, að yrði ekki farið að þeim tilmælum, þá legði stjórnin til að auglýstum ákvæðum yrði breytt og skilyrt enn frekar. Lagði stjórn Landverndar fram formlega tillögu að slíku ákvæði. Umhverfisstofnun virti bæði tilmælin að vettugi.

Afstaða og afgreiðsla Umhverfisstofnunar er óskiljanleg.

Landvernd krefst því skýringa á því að Umhverfisstofnun heimilar notkun koparóxíðs sem ásætuvörn á sjókvíum í framangreindu starfsleyfi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd