Átt þú mynd af stað á Náttúrukortinu sem þú vilt deila með öðrum? Sendu okkur línu. landvernd.is

Norðurárdalur er á náttúruminjaskrá að stórum hluta. Grábrókargígar eru friðlýst náttúruvætti. Grábrókarhraun og Hreðavatn teljast til náttúruminja, hraunið norðan hreppamarka allt norður að Bjarnadalsá og Norðurá sjálf ásamt Hraunsey og fossinum Glanna eru náttúruminjar. Áin er heimsþekkt perla allt frá upptökum á Holtavörðuheiði, enda ein fegursta laxveiðiá Evrópu sem enn varðveitir hinn einstaka villta lax úr Norður Atlantshafi. Þá er fjallafegurð Norðurárdals í raun einkennismynd og ímynd Vesturlands þar sem Hvassafell, Grjótháls, Litla Baula, Hvammsmúli og dýrmætar villta heiðar ramma inn Baulutind sem gnæfir yfir Grábrókarhrauni á náttúruminjaskrá.  Þá er ótalið heiðalandið upp af Borgarfirði, Mýrum, Dalasýslu og Hrútafirði. Það er einstakt á heimsvísu. Flest Evrópulönd hafa misst allt heiðaland undir mannvirki og samfellt heiðaland í Evrópu er afar sjaldgæft. Heiðalöndin víðfeðmu á Íslandi geyma náttúru og fuglalíf sem er einstakt á veraldarvísu og Borgfirðingar hafa þar stóru verndarhlutverki að gegna fyrir heiminn. Erlendir ferðamenn sækja svæðið í auknu mæli til að upplifa heiðalandið, víðernið ósnortna, lyngið, þúfurnar, vötnin á hálsum og heiðum. Norðurárdalur státar líka af einstökum veiðivötnum: fögrum fjallavötnum sem í raun teljast til óbyggða svo örskammt frá mannabyggð. Vindorkuvirkjun á Grjóthálsi myndi valda töluverðu raski og neikvæðum áhrifum á ásýnd dalsins og upplifun fólks á svæðinu.

Heimild: Orkustofnun

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is