Landvernd hefur skilað inn umsögn um frumvarp til laga um lækkun á eldsneytisverði.
Áhyggjur vegna áhrifa hækkandi eldsneytisverð á afkomu heimila og þjóðarhags eru eðlilegar. Stjórn Landverndar telur þó varasamt að grípa til breytinga á gjöldum og sköttum sem lækka eldsneytisverð. Flest bendir til þess að til lengri tíma litið þurfi íslenskt samfélag að búa við hátt eldsneytisverð, og aðlaga sig að því ástandi.
Greinargerð Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA) um framtíðarhorfur bendir til þessa, en samkvæmt henni má búast við viðvarandi hækkandi eldsneytisverði . Það er mikilvægt að allir aðilar í samfélaginu aðlagist þessu. Það verður hinsvegar ekki gert með tímabundnum aðgerðum stjórnvalda til að færa verðið niður. Það er mikilvægara að líta til langs tíma og búa í haginn fyrir sjálfbærari samgöngur á Íslandi og nýta þann hvata sem felst í háu eldsneytisverði til þess að auka hlut umhverfisvænni samgöngumáta, bæði hvað varðar almenningssamgöngur, flutninga og einkabifreiðar.