Stjórn Landverndar sendi matvælaráðuneytinu umsögn um nýja stefnu um uppbyggingu og umgjörð lagareldis til ársins 2040.
Vonandi kemur stefnan og aðgerðir sem byggjast á henni í veg fyrir að fleiri gerðir lagareldis valdi viðlíka tjóni á umhverfinu og sjókvíaeldi hefur gert. Landvernd bendir einnig á að stefnan þurfi að taka á því hvernig takmarka skuli tjón af því sjókvíaeldi sem þegar er til staðar.
Stjórnlaust sjókvíaeldi
Sjókvíaeldi við Íslandsstrendur hefur fimmtugfaldast á síðustu ellefu árum og áform eru um stóraukningu fram til ársins 2040. Ríkisendurskoðun fjallaði um sjókvíaeldi eftir ítarlega úttekt fyrr á árinu. Niðurstaðan var sláandi:
„Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og ekki í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi hefur ekki verið fylgt eftir með styrkingu stjórnsýslu og eftirlitsstofnana.“
Varúð getur komið í veg fyrir umhverfisslys
Ofvöxtur og risaframkvæmdir á sviði allra greina lagareldis hljóta óhjákvæmilega að ógna lífríki og náttúru, því er nauðsynlegt er að fara varlega í sakirnar svo Íslendingar sitji ekki uppi með fleiri umhverfisslys á borð við þau sem sjókvíaeldið hefur valdið.
Látum ekki hagsmunaaðila skilgreina leikreglurnar
Þá er bent á mikilvægi þess að ekki sé byggt á rannsóknum frá hagsmunaaðilum, eins og gerðist þegar áhættumat sjókvíaeldis var skilgreint.