Stjórn Landverndar telur mikilvægt að ríkið skapi góðar aðstæður fyrir íslenskan landbúnað til þess að bæta og efla fæðu- og matvælaöryggi, draga úr þörf fyrir innflutning matvæla, styrkja búsetu í landinu og síðast ekki síst til að tryggja sjálfbæra landnýtingu. Mikilvægt er að hætta innflutningi á dýrafóðri sem er unnið með eyðingu regnskóga. Styrkir til landbúnaðar eiga að styðja við umhverfismarkmið og sjálfbærni, þannig má styrkja bændur sem stunda umhverfisvænan búskap og rækta landið, fremur en að veita framleiðslustyrki fyrir dýraprótein. Ennfremur er mikilvægt að leggja áherslu á sjálfbæra grænmetisræktun, sem styður við fæðuöryggi og bætir umhverfi og heilsu. Nýleg drög að samnorrænum ráðleggingum um matarræði taka með greinargóðum hætti á þessum tenglsum á milli fæðu, umhverfis og heilsu.
Stjórn Landverndar hefur kynnt sér ofangreinda þingsályktunartillögu og þau drög sem birt voru í samráðsgátt fyrr á árinu sem og stefnuna Ræktum Ísland! sem fv. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lét gera árið 2021 og sendi stjórnin inn umsögn um hana. Sú tillaga sem hér eru til umfjöllunar eru umtalsvert betri grunnur en „Ræktum Ísland“. Breytingarnar sem hafa verið gerðar á framtíðarsýn frá drögum í samráðsgátt eru almennt til bóta.
Mikil tækifæri eru í landbúnaði til þess að gera betur og íslenska ríkið sem helsti fjármögnunaraðili landbúnaðarkerfisins ætti að gera skýrar kröfur í stefnumörkun til að allur landbúnaður sé sjálfbær og stundaður með samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda og náttúruvernd í fyrsta sæti jafnframt fæðuöryggi og hollustu fæðu.