Landslagsvernd
Með þeim miklu mannvirkjum sem áformuð eru, yrði skorin drjúg sneið af verðmætri landslagsheild frá Ísólfsskála, um Herdísarvík, Strandarkirkju til Þorlákshafnar. Stjórn Landverndar telur að of lítið sé gert úr neikvæðum landslagsáhrifum í frummatsskýrslunni. Jafnframt telur stjórnin að leggja verði meiri áherslu og metnað í hönnun mannvirkja og varnargarða til að draga megi neikvæðum ásýndaráhrifum.
Jarðminjar
Stöðin yrði að öllu leyti byggð á hraunum frá nútíma en svo virðist sem ákvæði í lögum um vernd slíkra svæða hafi enga meiningu. Samkvæmt náttúruverndarlögum verða framkvæmda aðila að sýna fram á að brýn nauðsyn sé fyrir því að reisa og reka stöðina. Stjórn Landverndar kallar eftir haldgóðum skýringum á þessu.
Grunnvatn
Hlíðarvatn er náttúruperla á svæðinu, þar er ríkt fuglalíf og er vatnið nýtt til veiða og útvistar. Í skýrslunni kemur fram að einhverjar líkur séu á því að grunnvatnsnotkun geti valdið niðurdrætti í Hlíðarvatni. Stjórn Landverndar telur mikilvægt að komið verði í veg fyrir alla röskun á vatninu.