Landvernd styður friðlýsingu Gjástykkis

Gjástykki, landvernd.is
Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Stjórn Landverndar tekur undir áhyggjur SUNN (Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi) vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana í Gjástykki í Suður-Þingeyjarsýslu, sem nú eru í matsferli vegna umhverfisáhrifa. Landvernd hvetur áhugasama til að kynna sér frummatsskýrslu Landsvirkjunar vegna rannsóknarborana í Gjástykki sem nálgast má á heimasíðu Skipulagsstofnunar www.skipulag.is og leggja fram athugasemdir. Athugasemdafrestur er til 28. ágúst 2009.

Stjórn Landverndar tekur undir áhyggjur SUNN (Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi) vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana í Gjástykki í Suður-Þingeyjarsýslu, sem nú eru í matsferli vegna umhverfisáhrifa. Landvernd hvetur áhugasama til að kynna sér frummatsskýrslu Landsvirkjunar vegna rannsóknarborana í Gjástykki sem nálgast má hjá Skipulagsstofnun og leggja fram athugasemdir. Athugasemdafrestur er til 28. ágúst 2009.

Landvernd hefur áður beitt sér gegn því að ráðist sé í orkuvinnslu í Gjástykki, enda hefði slíkt í för með sér mikið rask á svæði sem líkur benda til að búi yfir lítilli orku. Bent er í þessu sambandi á álit Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi jarðmyndana í Gjástykki, sbr. bréf stofnunarinnar til Umhverfisstofnunar dags. 12. janúar 2009 sem birt er á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar www.ni.is:

“Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands er Gjástykki einstætt frá jarðfræðilegu sjónarmiði, bæði á landsvísu og heimsvísu. Gjástykki er eitt fárra svæða á Íslandi þar sem glögglega má sjá hvernig landið hefur gliðnað með tilheyrandi sigdæld, sprungum og misgengjum. Þar má jafnframt skoða hvernig hraun frá Kröflueldum hefur komið upp á svæðinu og runnið um svæðið, hulið sprungur og jafnvel runnið ofan í þær. Í Kröflueldum var í fyrsta sinn í heiminum fylgst með gliðnunarhrinu í eldstöðvakerfi á flekaskilum þar sem atburðurinn var allur vaktaður. Fylgst var með landsigi og –risi, gliðnun mæld, fylgst með kvikuhlaupum á jarðskjálftamælum og spáð fyrir um einstök eldgos. Að mati stofnunarinnar eru ómetanleg jarðfræðileg, vísindasöguleg og menningarsöguleg verðmæti fólgin í þessum þætti myndunarsögu Íslands. Frá þessu sjónarmiði er allt rask í Gjástykki óæskilegt og gildir það reyndar um svæðið allt frá Leirhnúk norður í Kelduhverfi.”

Gjástykki, ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk vestan Kröflu, er sennilega það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýnir hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Á þessum slóðum eru því aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefast annars staðar og í því felast mikil tækifæri. Miklir möguleikar eru á þessum slóðum fyrir útivist og ferðaþjónustu, t.d. í gönguferðum milli Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði og Mývatns. Allt rask, þar með taldar rannsóknarboranir, ógnar þessu gildi og rýrir ímynd og gæði. Betri kostur væri að huga að annars konar nýtingu svæðisins, t.d. uppbyggingu eldfjallafræðagarðs í Gjástykki og við Leirhnjúk.

Friðlýsing Gjástykkis er forsenda þess að þessu merkilega svæði verði ekki raskað. Stjórn Landverndar hvetur því umhverfisráðherra að taka jákvætt í áskorun SUNN um að hafist verði handa sem fyrst við að undirbúa friðlýsingu.

F.h. stjórnar Landverndar

Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar

Share on facebook
Share on twitter
Share on email

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top