Stjórnvöld gera ekki nóg í loftslagsmálum og ný aðgerðaáætlun eykur ekki á bjartsýni um það. Í breytingum sem við þurfum að gera á okkar samfélagi verðum við að tvinna saman loftslagsaðgerðum, náttúruvernd, vistheimt, minnkun taps á líffræðilegri fjölbreytni og stuðla að auknum jöfnuði og réttlæti innanlands og hnattrænt. Slíkar aðgerðir gætu forðað okkur frá verstu hörmungum loftslagshamfara og eru um leið skref að betra samfélagi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Aðgerðaleysi valdhafa má ekki deyfa okkur heldur blása í okkur aðgerðavilja og getu til þess að sameinast og þrýsta á valdhafa til að gera það sem þarf að gera. Tökum málið í okkar hendur. Við, fólkið í landinu, höfum vald.
Félagslegir vendipunktar
Margar viðtækar samfélags- og kerfisbreytingar hafa orðið í gegnum mannkynssöguna. Gott dæmi um þetta er jafnrétti kynjanna, en síðustu og núverandi kynslóðir hafa með góðum árangri dregið úr feðraveldinu sem staðið hefur í margar aldir. Fleiri dæmi frá síðustu áratugum er baráttan gegn aðskilnaðarstefnu kynþátta, fyrir jafnrétti hinsegin fólks og fall Berlínarmúrsins auk margra annarra til viðbótar. Þetta eru allt breytingar þar sem litlum sannfærðum minnihlutahópi hefur með baráttu sinni tekist að breyta viðhorfum meirihlutans og koma þannig af stað viðtækum breytingum á öllum sviðum samfélags. Slík dæmi eiga að gefa okkur staðfasta bjartsýni og uppbyggilega von um að við getum haft áhrif.
Orðið vendipunktur er m.a. notað þegar áhrif loftslagsbreytingar á náttúru fara yfir ákveðin þröskuld þar sem áframhaldandi þróun verður ekki aftur snúið. En vendipunktar eru einnig til í samfélögum okkar og kallast félagslegir vendipunktar. Þeir verða til þegar breytingar á félagslegum þáttum samfélags knýja fram sameiginlegar og varanlegar stefnubreytingar. Sá fjöldi sem þarf til þess að hafa marktæk áhrif er misjafn og háður ýmsum aðstæðum. Rannsóknir hafa samt leitt í ljós að það þarf jafnvel bara um 25% af sannfærðum minnihluta til þess að hafa þannig áhrif á meirihlutann að endurmóta samfélagið varanlega. Fólk eru félagsverur og ef ákveðinn fjöldi er sannfærður um breytingar og sýnir þær í verki mun það hafa áhrif á samfélagið. Mikilvægt er að vera meðvituð um félagslega vendipunkta, vera á varðbergi fyrir neikvæðri þróun en nýta sér möguleika á vendipunktum til góðra breytinga.
Jarðvegurinn fyrir góðar umbreytingar er orðinn frjór, vísindamenn tala skýrt í loftslagsmálum, við vitum hvað þarf að gera, loftslagsbreytingar hafa nú þegar neikvæð áhrif í flestum löndum heims og sú hnattræna mótmælabylting sem kom í kjölfar baráttu Gretu Thunberg gefur sterkan grundvöll fyrir áframhaldandi félagslega vendipunkta.
Framtíðin mótast af því hvernig við lifum í dag
Við vitum að einstaklingsaðgerðir duga ekki til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda nógu mikið ef stjórnvöld knýja ekki fram stórar kerfisbreytingar samhliða. Vegna þess eigum við það til að finnast við sem einstaklingar geta lítið gert. En einstaklingsaðgerðir eru einmitt mjög mikilvægar og geta verið kveikja að stærri breytingum því áhrifin byrja oft sem breytingar á samfélagslegum normum, gildum og venjum. Þegar ákveðinn fjöldi innleiðir og lifir eftir þeim gerast breytingar. Hugarfars- og hegðunarbreytingar hjá einstaklingum og síðan hjá samfélögum eru síðan mikilvægur jarðvegur til þess að knýja fram nauðsynlega stjórnmálalegar breytingar. Því stjórnmálamenn gera ekki róttækar breytingar nema þeir viti að fólkið sé tilbúið í þær. Það getur s.s. ýtt þeim af stað ef við sýnum hvað við viljum. Til þess þarf samstöðu. Og saman erum við afl til að knýja fram umbreytingar.
Allir geta verið leiðtogar umbreytinga
Við getum öll tekið virkan þátt í þessum nauðsynlegu umbreytingum. Við þurfum breytingar á ólíkum sviðum samfélags og hvert og eitt okkar getur fundið sitt áhrifasvið eftir hæfni, áhuga, getu og aðstæðum án þess að finnast við bera of mikla ábyrgð. Saman myndum við eina heild. Skólar geta eflt menntun til sjálfbærni m.a. með þátttöku í Grænfánaverkefninu. Við öll getum gert breytingar á eigin lifnaðarháttum, talað um málin og haft áhrif á nærsamfélagið.
„Valdeflumst og aukum getu okkar til aðgerða.“
En loftslagsmálin eru svo aðkallandi að við getum ekki beðið eftir því að breytingar gerist einungis skref fyrir skref. Við þurfum að koma af stað risastórri bylgju og ekki síst að hafa áhrif og þrýsta á stjórnmálaöfl því alvöru kerfisbreytingar eru nauðsynlegar. Það eru nú þegar margir á réttri leið og saman getum við náð félagslegum vendipunktum þó að okkur þykir það fjarstæðukennt í dag. Þegar við stöndum saman og tökum þátt með áhuga, eldmóði, gleði og ákveðni getum við smitað fleiri um að vera með á þessari vegferð. Valdeflumst og aukum getu okkar til aðgerða. Í félagasamtökum eins og Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, landshlutabundnum náttúruverndarsamtökum, Ungum Umhverfissinnum, Aldin o.fl. getum við sameinað krafta okkar.
Það er gefandi og nærir eigin hamingju að taka virkan þátt í góðum breytingum. Höfum trú á því að betri, sanngjarnari heimur með góðum lífsgæðum fyrir alla og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda sé mögulegur og að saman getum við haft áhrif. Fetum í fótspor forfeðra og -mæðra okkar sem hafa áður stuðlað að góðum umbreytingum og höfum ávallt að leiðarljósi að áhugasamur minnihlutahópur getur komið stórum breytingum af stað. Áfram VIÐ!
„Ein stærsta hætta fyrir okkar framtíð er afskiptaleysi.“