Loftslagsjól – er það raunhæft?

Umhverfisvæn jól eru skemmtileg jól. Þau eru jól þar sem okkar nánasta fólk er í fyrsta sæti og græðginni er skellt í gin jólakattarins sem umbreytir henni í eitthvað græðandi fyrir jarðveginn.

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir sérfræðingur hjá Landvernd skrifar

Stundum er eins og umhverfismálin séu vísvitandi gerð flókin og óskiljanleg. Þó ég hafi sjálf starfað í umhverfismálum í 5 ár þá fæ ég enn svima við að horfa á losunarútreikninga og við að reyna að átta mig á kolefniseiningum.

Þetta er samt ekki flókið í grunninn. Við eigum eina jörð og auðlindir hennar eru takmarkaðar. Við þurfum að umgangast hana vel og lifa í sátt við þau takmörk sem hún setur okkur. Ofneysla er gífurlegt vandamál og svarið við henni býr innra með okkur öllum. Ef við veljum hæglæti, þakklæti, nægjusemi og samveru fram yfir græðgi, tillitsleysi og firringu; þá getum við verið nokkuð sannfærð um að vera á réttri leið í umhverfismálunum.

Umhverfisvæn jól eru skemmtileg jól. Þau eru jól þar sem okkar nánasta fólk er í fyrsta sæti og græðginni er skellt í gin jólakattarins sem umbreytir henni í eitthvað græðandi fyrir jarðveginn.

En hvernig höldum við umhverfisvæn jól? Hér eru nokkrar einfaldar hugmyndir sem þið getið útfært og gert að ykkar. Listinn er ekki gerður til að auka á nokkurt samviskubit, heldur öllu fremur veita innblástur og fá einstaklinga til að hugsa um það hvar þeir vilja hafa áhrif.

Jólatréð

Gervitré eða lifandi tré? Það er í raun ekki eitt rétt svar við þessu. Það sem skiptir mestu máli er að ef gervitré verður fyrir valinu, þá þarf að velja eitthvað sem er gert til þess að endast í mörg ár (20 ár+). Ef lifandi tré verður fyrir valinu er best að kaupa það úr nærumhverfinu. Enn betra ef að tréð hefur verið fellt til að grisja skóginn, þá vaxa hin sem eftir standa betur. Sumir hafa brugðið á það ráð að skreyta fíkus heimilisins, sem er svo sem ágætis lausn líka.

Jólamaturinn

Almenna reglan er sú að grænmetisfæði er umhverfisvænna en dýraafurðir. Hvernig væri að skella hnetusteik í ofninn annan í jólum – eða hafa hana með á jóladag? Svo má auka magn meðlætisins í kringum hátíðarnar. Eitt er víst; við græðum öll á auka trefjum með smákökunum og konfektinu.

Til að einfalda jólamatinn má einnig skoða hvað ætla má að meðlimir heimilisins borði af kræsingunum í raun og veru? Gott er að áætla tíma til að borða afganga og velja rétti sem er nokkuð líklegt að fólk (börn) vilji borða.

Jólafötin

Jólakötturinn hefur löngu skipt um skoðun. Nú sendir hann öllum landsmönnum í notuðum fötum hlýja strauma yfir hátíðarnar. Umhverfisvænustu fötin eru þau sem þú átt þegar í skápnum. Ef ekkert passar lengur má alltaf kíkja í Verzlanahöllina, Barnaloppuna, Hringekjuna eða Gullið mitt svo dæmi séu nefnd.

Jólagjafirnar

Jólagjöf ársins samkvæmt rannsóknarsetri Verslunarinnar eru samverustundir. Að vísu hafa þær alltaf hitt í hjartastað hjá mér og fólkinu í kringum mig. Þreyttir foreldrar vilja pössun í jólagjöf. Aðrir sætta sig kannski við matarboð, gönguferð með nestispásu, hefti með uppáhalds uppskriftum fjölskyldunnar eða skemmtilegt þemakvöld? Slíkar gjafir er auðvelt að útbúa sjálfur. Sjá fleiri hugmyndir hér.

Jólasveinarnir 100

Jólasveinarnir hafa sett sér markmið um sjálfbærni og versla skógjafirnar í nytjamörkuðum landsins og á öðrum stöðum þar sem hægt er að nálgast notuð leikföng. Þeir finna líka ýmislegt í skúmaskotum og á leynistöðum foreldra sinna. Sjá fleiri hugmyndir hér.

Jólaskraut og umbúðir

Jólaandann má finna í gömlu skrauti frá ömmu og afa. Umhverfisvænustu jólaseríurnar eru þær sem eru gerðar til að endast lengi og hafa LED perur. Umbúðir utan um jólagjafir geta verið dagblöð, gömul nótnahefti, jólagjafapokar frá því í fyrra og fleira. Svo heyrði ég að það væri hægt að sleppa límbandinu og nota soðin hrísgjón og vatn í staðinn (því er þá skellt í blandara). Sel það ekki dýrara en ég keypti það en hljómar eins og ágætis tilraun.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu  18. desember 2023

 

 

Loftslagsjól – 50 gjafahugmyndir

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd