Mannlíf er óhugsandi án lífríkis
Enn eru of margir sem líta á jörðina sem hótel þar sem „einhver“ tekur til eftir slæma umgengni. Þeir eru sem betur fer líka margir sem líta á jörðina sem heimili sem verður að gæta vel að. Og þeim virðist fjölga. Það lofar góðu. Mannlífið byggir á því að gangvirki lífríkisins sé ekki spillt, að við lítum á lífríki jarðar sem heimili sem þarf að ganga vel um svo allir haldi góðri heilsu.
Við lifum á miklum breytingatímum þar sem maðurinn er farinn að hafa veruleg neikvæð áhrif á gangverk jarðar. Við því verður að bregðast með þekkingu og innsæi að leiðarljósi, en einnig á grunni víðtækrar samstöðu innanlands og í góðu samstarfi við önnur ríki. Við höfum tíma til að rétta kúrsinn af, draga úr þeim skaða sem virðist blasa við. En ekki mikinn tíma.
Í stóra samhenginu er mikilvægasta viðfangsefnið að stemma stigu við hættulegar loftslagsbreytingar af mannavöldum og stöðva eyðingu á lífbreytileika. Í daglegu starfi er viðfangsefnið m.a. að draga úr neikvæðum áhrifum einstakra framkvæmda á náttúru, hemja útblástur og mengun, beina fjárfestingum á grænar lausnir, breyta neyslu- og framleiðsluháttum með því að innleiða hringrásarhagkerfi og koma á fjárhagslegum hvötum til að breyta hegðun neytenda jafnt sem fyrirtækja. Þetta tengist, stóru og erfiðu viðfangsefnin loftslagsbreytingar og lífbreytileiki og allar þær ákvarðanir sem við tökum frá degi til dags. Það vill gleymast. Nýlegt dæmi er samgönguáætlun Íslands. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann en jafnframt að greina tækifæri í ógnunum. Breytingar sem þarf að innleiða til að takmarka loftslagsbreytingar og vernda lífbreytileika munu, ef rétt er að staðið, líka bæta okkur sem samfélag, hvar sem við búum á jörðinni.
Landvernd og umbreytingar
Á umbreytingartímum hefur Landvernd, sem elstu og öflugustu umhverfisverndarsamtök landsins, hlutverki að gegna. Samtökin reka víðtækt fræðslustarf, veita nauðsynlegt aðhald þegar stórar framkvæmdir eru skipulagðar, hvetja stjórnvöld til dáða, kasta fram hugmyndum um lausnir, rýna í tillögur um aðgerðir og gagnrýna aðgerðaleysi. Samtökunum hefur vaxið fiskur um hrygg með fjölgun félaga sem veita stuðning, með fleiri starfsmönnum sem bæta skilvirkni og rekstur og öflugra grasrótarstarfi. En starfið er margt og mörgum málum náum við því miður enn ekki að sinna. Því verðum við að halda áfram að styrkja samtökin til að mæta framtíð þar sem mörg viðfangsefni bíða. Hvorki vírusar né annað mótlæti má breyta þeim ásetningi.
Allir með, en sumir skara fram úr
Umhverfisverndarsamtök gegna mikilvægu hlutverki til mótvægis við sérhagsmuni, skammtímasjónarmið, afneitunarsinna og lýðskrumara. En einstaklingar skipta líka miklu máli. Hvert og eitt í okkar daglega lífi, en ekki síst þau sem hafa stigið fram og með visku og áræðni, skerpt athygli og áhuga á að bæta heiminn. Mér er hugsað til Gretu Thunberg sem hefur hvatt margt ungt fólk til dáða, Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar, sem hefur vakið þjóðina til umhugsunar um tímann og tengslin á milli kynslóða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, læknisins góða, Tómasar Guðbjartssonar, sem hefur fetað í fótspor Ómars Ragnarssonar og lagt mikið af mörkum með myndum og frásögnum um alla þá dýrð sem býr í landinu okkar ef við höldum því óspilltu. Ekki má gleyma dugnaði umhverfis- og auðlindaráðherra og um leið þess óskað að árangur af hans góðu viðleitni verði mikill þegar fram líða stundir. Loks vil ég nefna Vigdísi forseta, verndara Landverndar, klettur sem stendur með samtökunum í blíðu og stríðu. Fyrir hönd Landverndar flyt ég þessum einstaklingum þakkir fyrir leiðsögn og innblástur.
Landvernd í hálfa öld
Á síðasta ári héldum við upp á að Landvernd hefur starfað í takt við tímann í 50 ár og tekist á við ótal viðfangsefni. Þegar gluggað var í söguna kom í ljós að samtökin hafa lagt margt til málanna. Það var Landvernd sem þróaði og prófaði hugmyndir um rammaáætlun, sem hóf baráttuna gegn ofnotkun plastpoka með stofnun Pokasjóðs, sem benti á þörfina fyrir umhverfisráðuneyti og sem greindi og mótaði hugmyndir um aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda liðlega áratug áður en stjórnvöld fóru að taka þetta viðfangsefni alvarlega. Landvernd kom á fyrsta náttúruskóla landsins að Alviðru og innleiddi grænfánann til að hvetja skóla til dáða í umhverfismálum. Vissulega hefur ýmislegt áunnist á hálfri öld. Sum baráttumál hafa fengið farsælan endi, en annar vandi virðist hafa vaxið þeim mun meira. Sem fyrr eru sterkir hagsmunaaðilar, gróðahyggja og skammsýnir stjórnmálamenn helsta hindrunin á veginum til sjálfbærrar þróunar. En við, hvert og eitt okkar, erum einnig hindrun þar sem við eigum erfitt með að tileinka okkur lífsgildi sem eru forsenda þess að vel fari. Hlutverk Landverndar er halda okkur við efnið í dagsins önn.
Öflugur hópur að baki
Landvernd byggir á fólki sem vill bæta heiminn. Félögum sem treysta á að samtökin standi vaktina, stjórn sem leggur línurnar fyrir starfið og leysir fjölþætt verkefni í sjálfboðavinnu, hópi félaga sem eru virkir í grasrótarstarfi og mörgum öðrum félagasamtökum sem eiga samstarf við Landvernd. Hjarta félagsins slær hjá framkvæmdastjóra, Auði Önnu Magnúsdóttur, og samstarfsfólki hennar á skrifstofunni. Þau halda utan um rekstur, treysta fjárhag, sjá um samskipti og gera starfið skilvirkt. Saman getum við átt drjúgan þátt í að landinu okkar miði áleiðis til sjálfbærar þróunar.
Vertu með í Landvernd!
Starfsfólki Landverndar, samstarfsfólki í stjórn og félögum öllum sendi ég þakkir fyrir gott samstarf.
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar