Mótmælendur í Gálgahrauni fengu viðurkenningu Náttúruverndarþings

Níumenningarnir sem hafa verið ákærðir fyrir mótmæli í Gálgahrauni fengu Náttúruverndarann, viðurkenningu Náttúruverndarþings síðastliðinn laugardag. Níumenningarnir eru fulltrúar fyrir stærri hóp Hraunavina sem stóð vaktina í Gálgahrauni í heilan mánuð.

Níumenningarnir sem hafa verið ákærðir fyrir mótmæli í Gálgahrauni fengu Náttúruverndarann, viðurkenningu Náttúruverndarþings, síðastliðinn laugardag. Níumenningarnir eru fulltrúar fyrir stærri hóp Hraunavina sem stóð vaktina í Gálgahrauni í heilan mánuð síðastliðið haust og reyndi þannig að stöðva vegaframkvæmdir sem klufu hraunbreiðuna í tvennt. Þessi ötula barátta endaði 21. október með stærstu fjöldahandtöku á Íslandi á síðari árum. Tuttuguogfimm manns voru færð í fangageymslur fyrir að mótmæla friðsamlega í hrauninu. Af þessum hópi voru níu manns ákærðir.

Tinna Þorvalds-Önnudóttir, ein níumenninganna, þakkaði fyrir hönd hópsins og sagði að þau tækju á móti þessum verðlaunum í þeirri von „að barátta okkar verði til þess að náttúruverndarsinnum alls staðar á landinu vaxi ásmegin, að þeir þori að láta til sín taka„. Tinna hvatti náttúruverndarsamtök til að „krefjast þess að engar meiriháttar framkvæmdir fari fram á láði eða legi án þess að unnendur íslenskrar náttúru séu hafðir með í ráðum.„ Jafnframt lagði Tinna áherslu á að lagabætur yrðu gerðar vegna innleiðingar Árósasamningsins sem tryggði ekki aðkomu náttúruverndarsamtaka að dómsmálum. Hægt er að lesa ávarp Tinnu í heild sinni á natturan.is.

Á þinginu var efnt til málstofu um aðgerðahyggju og viðbrögð lögreglu við aðgerðum náttúruverndarsinna. Þar fluttu Lárus Vilhjálmsson leikhússtjóri, Andri Snær Magnason rithöfundur, og Stefán Eiríksson lögreglustjóri erindi. Á eftir erindum þeirra voru líflegar umræður með þátttöku úr sal. Spurningar snerust m.a. um hvort meðalhófs hefði verið gætt, eða hvort lögregla hefði gengið of hart fram. Í erindi Lárusar lýsti hann aðgerðunum og handtökunum. Hann sagði meðal annars: ,,Ég var miður mín. Mánuðinn góða í hraunvörslunni hafði mér aldrei komið til hugar að Ísland gæti breyst á einu vettvangi úr því að vera land þar sem maður treysti því að lögreglan væri að vinna í þágu almennings í land þar sem lögreglan vann aðeins fyrir stjórnvöld og einkafyrirtæki. Ég hafði haldið í einfeldni minni að Ísland væri land þar sem menn leituðu sátta áður en vopnin væru notuð.”

Náttúruverndarþing samþykkti eftirfarandi ályktun:

Náttúruverndarþing, haldið þann 10. maí 2014 í Mörkinni 6, Reykjavík, ályktar að hálendi Íslands, stærsta víðerni í Evrópu þar sem ósnortin og lítt snortin náttúra fá enn notið sín, verður að vernda sem eina heild. Hvers kyns áform um virkjanir eða lagningu háspennulína á miðhálendinu vinna gegn hagsmunum landsins.

Náttúruverndarþing mótmælir harðlega áformum umhverfis- og auðlindaráðherra um breytt friðlandsmörk í Þjórsárverum til að skapa rými fyrir Norðlingaölduveitu eða annað miðlunarlón við Þjórsárver. Ennfremur, stjórnvöldum ber skylda til að vernda náttúru landsins fyrir ágangi ferðamanna.

Mývatn á heima á lista UNESCO yfir helstu náttúruundur veraldar en til að svo geti orðið verður að draga úr áhrifum mannsins á lífríki þess eins mikið unnt er.

Náttúruverndarþingið áréttar að hvers kyns áform um borun eftir olíu á norðurslóðum ógna lífríki hafsins og þá ekki síður byggð og menningu við Atlantshaf.

Vísindin eru skýr: Ekki verður unnt að brenna nema 25% þeirra olíubirgða sem þekktar eru svo takast megi að koma í veg fyrir stórkostlega eyðileggingu af völdum loftslagsbreytinga. Ísland er á versta stað hvað varðar súrnun sjávar sem mun hafa afar neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Eina tækifærið til að bægja þeirri ógn frá felst í að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Um það ber ríkisstjórn Íslands að hafa forgöngu á alþjóðavettvangi í þágu þjóðarinnar.

Réttur almennings til að mótmæla náttúruspjöllum er grunnforsenda þess að mannkyni takist að forða tortímingu mannlífs á jörðinni. Árósasamningurinn kveður skýrt á um þessi réttindi og því ber Alþingi að breyta lögum þannig að frjáls félagasamtök eigi sjálfkrafa aðild að dómsmálum er varða umhverfis- og náttúruverndarmál.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd