Náttúra hálendis verðmæti framtíðar

Auður Önnu Magnúsdóttir
Endurheimt náttúrulegra vistkerfa og skýrari rammi um lausagöngu búfjár eru meðal áherslumála í ályktunum aðalfundar Landverndar, sem haldinn var í síðustu viku.

Endurheimt náttúrulegra vistkerfa og skýrari rammi um lausagöngu búfjár eru meðal áherslumála í ályktunum aðalfundar Landverndar, sem haldinn var í síðustu viku. Nauðsynlegt er, hvað vistheimt varðar, að mati samtakanna að fylla í skörðin þar sem mýrlendi hefur verið ræst fram með tilheyrandi röskun á lífríki. Þá þarf að vernda náttúrulega birkiskóga, enda er lífríki þeirra fjölbreytt og undirstaða margs í stóru samspili náttúrunnar.

Dregur úr líffræðilegri fjölbreytni

„Okkur rennur til rifja að enn sé verið að ræsa fram mýrlendi sem losar mikið magn af gróðurhúsalofttegundum en eyðir líka búsvæðum plantna og fugla og dregur þannig úr líffræðilegri fjölbreytni,“ segir Auður Önnu- og Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
„Framræsla mýranna er oft án nokkurs sýnilegs tilgangs, sem setur málið í sérkennilegt ljós. Sú var tíðin að bændur fengu stuðning frá ríkinu til þess að ræsa mýrar fram, eins og var gert víða um landið og þúsundir hektara teknar undir. Nú þyrfti þessi stuðningur að koma til aftur undir öfugum formerkjum; það er að greiða þeim sem fylla í skurðina aftur. Sem betur fer er í dag allvíða verið að loka skurðum, svo sem fyrir atbeina Votlendissjóðs og Landgræðslunnar, en gera þarf miklu betur.“

Samfélagið allt verji vistkerfi

Landvernd lagði sig mjög eftir því að Teigsskógi í Reykhólasveit yrði þyrmt og fundin yrði önnur lausn í gerð vegar yfir Þorskafjörð, en sú sem fyrir valinu varð. Vistkerfi skógarins, sem var óraskaður, hafi verið sterk líffræðileg heild og birkitrén náð alveg niður í fjöru að sjávargróðri þar. „Baráttan í Teigsskógarmálinu var löng og ströng. Við vildum til verndar náttúrunni annað vegstæði en það sem Vegagerðin valdi og kynnti fyrir tuttugu árum og hélt sig við. Sú nálgun að Landvernd væri ábyrg fyrir töfum í samgöngumálum Vestfirðinga var undarleg því Landvernd er lítil samtök sem hafa ekkert um vegagerð að segja,“ segir Auður og áfram:
„Samfélagið allt þarf að sameinast í að verja fjölbreytt vistkerfi á Íslandi og tryggja með því hagsæld í landinu. Um endurheimt vistkerfa þurfa að gilda mælanleg markmið svo árangur náist. Endurheimt þessi er ein af undirstöðum sjálfbærrar þróunar sem er grunnstefið í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“
Hvað búfjárbeit viðvíkur telur Landvernd mikilvægt að skerpa á regluverki. Gera þurfi búfjáreigendur ábyrga fyrir búpeningi sínum, sem hljóti að gera nýtingu lands skilvirkari. Mikilvægur árangur í gróðurvernd hafi náðst með beitarstjórn og landgræðsluverkefnum. Sauðfjárbeit, svo sem á gosbeltasvæðinu sem liggur þvert yfir landið, aftri hins vegar því að gróður og jarðvegur endurheimtist. Því verði að hugsa málin upp á nýtt.

Þjóðgarðshugmynd verði ekki drepin

Frumvarp umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs náði ekki fram að ganga á Alþingi – og málið er því úr sögunni í bili. Í ályktun aðalfundar Landverndar er þessi niðurstaða hörmuð, það er eftirgjöf við staðbundna eða sértæka hagsmuni einstakra sveitarfélaga og orkufyrirtækja sem hugsanlega vilja virkja. Mikilvægt sé því að þjóðgarðshugmyndin verði ekki drepin – heldur verði haldið áfram með málið þegar nýtt Alþingi hefur verið kjörið.
„Landvernd lét í lok maí gera skoðanakönnun sem leiddi í ljós að þjóðgarðshugmyndin hefur almennan stuðning á landsvísu. Andstaðan var sterk frá nokkrum af þeim sveitarfélögum sem hafa skipulagsvald á hálendinu. Oft hafa íbúar og sveitafélög nærri hálendinu sinnt því vel og nýtt til ferðalaga, sinnt þar landgræðslu og leiðbeiningum til ferðamanna. Það er að vissu leyti skiljanlegt að þeim finnist hugmyndin um að ríkisstofnun gegni þessu hlutverki slæm. Málin eru hins vegar ekki svona einföld,“ segir Auður og að lokum:

Störf og ný menning

„Margvíslegar ógnir steðja að hálendinu nú, sem verður best haldið í skefjum með þjóðgarði. Má þar nefna uppbyggingu orkumannvirkja og fjöldatúrisma. Ísland hefur gjörbreyst á undanförnum árum með mikilli fjölgun ferðamanna, þó fáir hafi verið að undanförnu vegna veirunnar. Fólk frá útlöndum sem hingað kemur fer vissulega oft á þekkta og vinsæla ferðamannastaði, en óbyggðirnar eru aðdráttarafl. Í stórbrotinni náttúru hálendisins felast mikil verðmæti til framtíðar litið, þangað getur straumurinn legið í framtíðinni. Því þarf að setja ferðum þar, framkvæmdum og öðru ákveðinn ramma eins og gert yrði með stofnun hálendisþjóðgarðs, sem einnig skapar störf og kæmi með nýja menningu inn í samfélögin, sem byggð er á sérstöðu svæðisins. Því er mikilvægt að halda áfram með málið og Landvernd mun hamra járnið, til dæmis fyrir alþingiskosningar í haust.“

Hver er hún?

• Auður Magnúsdóttir er fædd árið 1977 og er lífefnafræðingur að mennt. Hún býr í Reykjavík með eiginmanni og þremur börnum.
• Var deildarforseti auðlinda- og umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands lengi en hefur sl. þrjú ár verið framkvæmdastjóri Landverndar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 2021.

Ljósmynd: Sigurður Bogi, Morgunblaðinu.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd