Miðhálendi Íslands er eitt stærsta landsvæði í Evrópu sem aldrei hefur verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.
Stóriðja og raforkuframleiðendur ógna þessari einstöku náttúru og eiga fjölmargar náttúruperlur í hættu að verða sökkt eða vera breytt í iðnaðarsvæði. Á korti Framtíðarlandsins má sjá uppfærðar upplýsingar um hvaða svæði eru í hættu í dag.
Getum við bjargað víðernum Íslands?
Myndskeið unnið af The Empire og BearJam Productions
Miðhálendið er einn mesti fjársjóður landsins
Miðhálendið er einn mesti fjársjóður landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Kraftarnir sem náttúruöflin leysa úr læðingi, þar með talið samspil elds og íss, móta stöðugt þetta tilkomumikla landsvæði, en öræfakyrrðin sem á það til að umlykja ferðalanga er ógleymanleg hverjum þeim sem hana hefur upplifað.
Að finna megi á einu svæði samansafn þeirra náttúruverðmæta sem hér er lýst er einstakt á heimsvísu. Að auki fækkar stöðugt í heiminum stórum óbyggðum svæðum og víðernum þar sem náttúran ræður ríkjum. Við Íslendingar erum enn í þeirri öfundsverðu stöðu að geta staðið vörð um þessi verðmæti hér á landi með því að vernda miðhálendið. Okkur ber að vernda víðerni enda erum við vörslumenn um 42% víðerna í evrópu. Lesa grein Snæbjörns Guðmundssonar fyrrum formann Landverndar um Villtasta prósentið – Víðerni Íslands.
Á myndinni hér að ofan má sjá Hólmsá, sem er í biðflokki Rammaáætlunar.