Björk Guðmundsdóttir og Sigur Rós ásamt Ólöfu Arnalds halda tónleika til stuðnings náttúruvernd á Íslandi í brekkunni fyrir ofan þvottalaugarnar í Laugardal í Reykjavík kl. 17, laugardaginn 28. júní nk.
Aðgangur að tónleikunum verður ókeypis og gefa þeir aðilar sem að tónleikunum standa alla sína vinnu. Til þess að allt heppnist sem best óska tónleikahaldarar eftir sjálfboðaliðum til starfa á tónleikunum og eru áhugasamir beðnir að hafa samband við Margréti Vilhjálmsdóttur í síma 8483891 eða Diljá í netfangi: diljaamunda@gmail.com
Eins er óskað eftir góðum og nytsömum tillögum í tengslum við uppákomuna.
Fjölskyldugarðurinn og Sundlaugin í Laugardal verða opin fyrir tónleikagesti til 24.00 þetta kvöld.
Tónleikahaldarar treysta því að umhverfisvænir tónleikagestir sýni vistvernd í verki og gangi vel um svæðið. Annars sér Reykjavíkurborg um tiltekt á svæðinu eftir tónleikana og Gámafélagið ehf. um endurvinnslu á því rusli sem til fellur endurgjaldslaust.
Aðstandendur tónleikanna bjóða öllum Náttúruverndarsamtökum að kynna sína starfsemi í stórum tjöldum á tónleikasvæðinu.
Búið er að kolefnisjafna tónleikana og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk. Björkunum var plantað nálægt Þjórsá í landi Skaftholts og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur.
Nánari upplýsingar á: www.nattura.info – www.bjork.com – www.sigurros.com