Náttúruvernd – að hugsa hnattrænt og láta verkin tala heima fyrir

Guðrún Schmidt er sérfræðingur Skóla á grænni grein, landvernd.is
Guðrún Schmidt fræðslustjóri og sérfræðingur hjá Landvernd skrifar​.

Guðrún Schmidt, fræðslustjóri og sérfræðingur hjá menntateymi Landverndar og íbúi á Egilsstöðum- Grein birt í Glettingi – tímariti um austfirsk málefni“, Nr. 85, 35 árg., 1. tölublað 2025

 

Náttúran er okkur allt, við erum hluti af henni og allt kemur frá henni. Þetta magnaða samspil lífvera og efna er grundvöllur alls lífs á jörðinni og gefur okkur þá möguleika að nýta og njóta. En bara upp að vissu marki. Miðað við stöðu náttúrunnar í dag þá er náttúruvernd ekki lengur val heldur nauðsyn til að getað lifað áfram á þessari dásamlega plánetu. Hvað er þá meira gjöfult en að standa fyrir vernd á náttúrunni og þannig með okkur sjálfum? Náttúruvernd er nefnilega ekki að vera á móti einhverju, heldur að vera með þeim framförum sem við þurfum mest á að halda, eins og til dæmis virkum loftslagsaðgerðum, vernd og endurheimt vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbærri nýtingu auðlinda og langtum minna vistspori. Og það góða er að við getum öll tekið þátt í náttúruvernd á fjölbreyttan hátt.

Þolmörk jarðar

Nú árið 2025 eru tíu ár síðan að Parísarsamkomulagið var samþykkt með loforðum og áætlunum um að draga varanlega og verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. En lítið hefur gerst og árið 2024 var losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis í hámarki á meðan eyðilegging vistkerfa m.a. vegna framkvæmda, þurrka og skógarelda minnkaði möguleika til bindingar á kolefni töluvert1. Menn hafa nú þegar umbylt meira en 70% af flatarmáli landsvæða jarðar úr náttúrulegu ástandi, valdið mikilli hnignun þeirra og stuðlað þar með einnig verulega að hlýnun jarðar2. Jarðvegs- og gróðureyðing hefur lengi verið og er enn stórt vandamál bæði víða um heim og einnig hér á Íslandi. Vísindalegar rannsóknir sýna að 64% af votlendi heimsins hafa verið eyðilögð frá árinu 19003. Um það bil 1 milljón dýra- og plöntutegunda eru í útrýmingarhættu í heiminum4. Og svo mætti lengi telja upp sorglegar staðreyndir um stöðu náttúru heimsins.

Vísindamenn hafa skilgreint þolmörk jarðar sem vísa til níu lykilkerfa sem gera jörðina lífvænlega. Mannkynið gengur svo freklega á auðlindir jarðar að það hefur nú þegar farið yfir þolmörk sex lykilkerfanna vegna loftslagsbreytingar, röskunar á nátt­úru­legri hringrás köfnunarefnis og fos­­fórs, ferskvatns­­­not­k­unar, breytingar á land­­not­k­un, minnkunar líf­fræð­i­­legrar fjöl­breytni og efna­­meng­unar (sjá mynd 1). Þar sem allt er nátengt í náttúrunni eru þolmörk jarðar háð hvert öðru þannig að þegar farið er yfir ein þeirra getur það haft áhrif á stöðu annarra þolmarka5.

 

 

Mynd 1: Þolmörk jarðar6. Mannkynið hefur vegna athafna sinna, farið yfir þolmörkin á sex af níu lykilkerfum jarðar.

Framtíðarsýn hins alþjóðlega samfélags er sjálfbær þróun og heimsmarkmiðin eru vörður á leiðinni þangað. Í skilgreiningu um sjálfbæra þróun kemur einnig mjög skýrt fram að horfa verður á þá staðreynd að auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar og mynda þar með lokað kerfi sem samfélagið og efnahagslífið eru hluti af7.

Kolefnis rörsýn (Carbon tunnel vision)

Það er ljóst að mannkynið þarf að gera fleiri breytingar en að hætta að nota jarðefnaeldsneyti til að snúa þróuninni við. Orkuskipti eru að sjálfsögðu nauðsynleg til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en þau ein og sér leysa ekki vandann. Þá værum við einfaldlega í staðinn fyrir að vera með ósjálfbært jarðefnaeldsneytisdrifið kerfi, með ósjálfbært rafdrifið kerfi og héldum áfram að menga, ofnýta og fara yfir þolmörk jarðar með afleiðingum þvert á þau öll. Því miður skortir meðvitund um þessar staðreyndir því áætlanir og umræða stjórnvalda víða um heim og einnig hérlendis einkennist töluvert af svokallaðr

i „kolefnis rörsýn“ þar sem skortir sýn á samhengi og tengingar milli ýmissa atriða eins og er lýst á mynd 2.

Mynd 2: Kolefnis rörsýn8 – að sjá ekki samhengi hlutanna.  

Náttúruvernd er svo margt

Náttúruvernd snýst um margt. Hún getur verið staðbundin í þeim tilgangi að vernda ákveðið svæði, óbyggð víðerni, ákveðna tegund lífveru eða vistkerfi fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Heilbrigð náttúra er lykillinn að velferð fyrir alla, grunnurinn að fæðuöryggi, minnkar áhrif af veðuröfgum, hún veitir okkur upplifun, útivist, andlega velferð. Hún er mikilvægur hluti af uppeldi, innblæstri og menntun og tengir okkur saman. Hnattrænt snýst náttúruvernd m.a. um það að minnka álag á náttúruna, taka stór og mikilvæg skref í loftslagsaðgerðum, varðveita líffræðilega fjölbreytni, minnka líkurnar á faröldrum, minnka mengun, tryggja vistkerfisþjónustu, bjarga mannslífum og dýrum og síðast en ekki síst að tryggja að mannkynið geti áfram lifað á jörðinni. Náttúruvernd snýst um að bera ábyrgð, stuðla að réttlæti bæði innan og milli kynslóða og er siðferðisleg skylda okkar.

Ýmis lög og reglugerðir t.d. lög um náttúruvernd, dýravelferð, landgræðslu og skipulag eiga að setja ramma um nýtingu og umgengni okkar við náttúruna. Auk þess er Ísland búið að ganga undir ýmsa alþjóðlega samninga og stefnur eins og Parísarsamkomulagið9, rammasamning um líffræðilega fjölbreytni Kunming Montréal stefnuna10, samning Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun11 og Ramsar samninginn um vernd votlendissvæða12. Áratugurinn 2021 til 2030 er tileinkaður endurheimt vistkerfa13 á vegum Sameinuðu þjóðanna. Sem dæmi má nefna að í rammasamningnum um líffræðilega fjölbreytni kemur m.a. fram að friða þarf 30% af náttúru á landi, strandsvæðum og hafsvæðum fyrir 203014.

 

Að sníða sér stakk eftir vexti

Yfirleitt vísar máltækið „að sníða sér stakk eftir vexti“ til fjármála og að eyða ekki um efni fram. En sama má segja um nýtingu okkar á náttúrunni. Við megum ekki eyða um efni fram, við verðum að viðhalda og vernda höfuðstólinn til þess að geta lifað á vöxtum hans. En við erum því miður að lifa á yfirdrætti (sjá mynd 3)15 og þar með á kostnað komandi kynslóða eins og bæði kenningin um þolmörk jarðar gefur til kynna og útreikningar um vistspor mannkyns, þar sem Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem hafa stærst vistspor16.

Mynd 3: Í meira en 50 ár hefur mannkynið notað á hverju ári meira af auðlindum en jörðin gæti endurnýjað á sama ári. Árið 2024 var mannfólkið búið að nota allar auðlindir þann 1. ágúst. Eftir það lifum við á kostnað komandi kynslóða15.

Við erum vön því að hafa geta gengið verulega á náttúruna án þess að finna sjálf fyrir miklum afleiðingum. Það er vegna þess að við höfum útvistað afleiðingum með því að nýta og jafnvel arðræna auðlindir annarra landa og senda þangað úrgang. En nú er mælirinn fullur sem lýsir sér með loftslagshamförum. Það er kominn tími til að við hættum ofnýtingu, mengun og ofneyslu og horfum til vistfræðilegra þarfa.

Hvað er þá náttúruvernd í verki?

Við verðum seint öll sammála um forgangsröðun, áherslur og leiðir í náttúruvernd. En það góða er að við höfum öll tækifæri til þess að stuðla að náttúruvernd með einum eða öðrum hætti eftir áhugasviði og áherslum hvers og eins. Listinn sem fylgir hér á eftir er ekki tæmandi og er flokkaður eftir þremur stigum menntunar til sjálfbærni17 til þess að efla okkur í getu til aðgerða: 1) hugur, 2) hjarta og 3) hendur.

  1. Mikilvægt er að við öll höfum góða þekkingu á náttúru, lærum að virða og elska hana, sýnum henni áhuga og tengjumst henni. Þessa þætti getum við eflt með því að stunda útivist, lesa og fræðast, ræða saman, rýna, rannsaka, undrast, uppgötva og hætta aldrei að læra eitthvað nýtt um náttúruna. Verum öll allavega smávegis eins og David Attenborough.
  2. Oft hefur verið reynt að gera lítið úr tilfinningaböndum fólks við náttúruna. En í sjálfu sér er eðlilegt og fallegt að bera tilfinningar til náttúrunnar. Hver hefur ekki upplifað fallegt sólarlag, fuglasöng, kyrrð, ilmandi blóm og magnað útsýni sem hrífur mann með sér? Lesið ljóð eftir skáld eins og t.d. Goethe, Thoreau, Jónas Hallgrímsson o.fl. eða lýsingar Helga Valtýssonar í bókinni „Á hreindýraslóðum“ til að rýna í það hversu eðlilegt og gjöfult það er að elska náttúruna. Til viðbótar því að skapa tilfinningaleg tengsl og efla samkennd er einnig mikilvægt að setja náttúruvernd í samhengi bæði þverfaglega og hnattrænt og að tengja hana við eigið líf. Hvernig tengist náttúruvernd loftslagsmálum, sjálfbærri þróun, heimsmarkmiðunum, fátækt, óréttlæti, hagkerfi, viðskiptum, hnattvæðingu, framleiðsluháttum, lýðræði, samfélagi, lífsgildum og eigin neyslu og hegðun? Slík þekking skapar þann grundvöll sem þarf til þess að koma auga á orsakir og afleiðingar í víðu samhengi og til þess að bregðast ekki einungis við afleiðingum og einkennum heldur koma að rót vandans.
  3. Hér tökum við málin í okkar hendur, sýnum náttúruvernd í verki og höfum áhrif.
    1. Beinar aðgerðir: Minnka neyslu, sóa ekki orku, vatni, mat, fötum eða öðru, kaupa lífrænt, velja mat úr héraði, minnka neyslu dýraafurða, minnka umbúðanotkun og flokka, plokka, nota bílinn sem minnst, virða náttúruverndarlögin, nota ekki skordýraeitur í garðinum, nota ekki mengandi efni, taka þátt í að stöðva jarðvegsrof og endurheimta vistkerfi, skrifa umsagnir um áform um mannvirki, skipulag o.fl., stuðla að friðlýsingu ákveðinna svæða, vinna gegn áformum sem munu skaða náttúruna, skrifa greinar, senda opinbera áskorun til valdhafa, vera félagi í náttúruverndarsamtökum á svæðinu, eins og NAUST (Náttúruverndarsamtök Austurlands) og á landsvísu eins og í Landvernd.
    2. Breyta hugarfari, menningu og normum: Stuðla að þeim lífsgildum sem móta sjálfbæra þróun eins og nægjusemi, réttlæti, kærleik, virðingu, þakklæti, samkennd, umhyggju, samfélagshyggju, samvinnu og hjálpsemi. Við þurfum að búa til ný norm og skilgreina framfarir og velferð á framtíðarvænan hátt og ekki láta þau snúast aðallega um efnahagsleg málefni og stöðugan hagvöxt. Framfarir verða að vísa okkur í rétta átt en ekki vera hluti af áframhaldandi eyðileggingu lífsgrundvallar okkar18. Og fyrir okkur sem fáum nóg að borða, föt, húsaskjól og búum við heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika þýðir velferð ekki að við getum endalaust fengið meira og meira. Hættum að horfa á neyslu án takmarka en horfum frekar á aukna nægjusemi sem tækifæri til að auka frelsi okkar, ánægju, þakklæti, hamingju og tilfinningu fyrir því að eiga og vera nóg19.

Mynd 4: Hvernig skilgreinum við framfarir?20

 

  1. Kerfisbreytingar: Við verðum að viðurkenna að núverandi gróðadrifna og hnattræna hagkerfi okkar gengur ekki upp og á stóran þátt í þeirri slæmu stöðu sem mannkynið er komið í. Mikilvægt er að horfa fram á við og eiga uppbyggilegar umræður um nýjar, raunhæfar útgáfur af hagkerfi sem margir virtir hagfræðingar hafa nú þegar hannað. Hringrásarhagkerfið er góð byrjun en mikilvægt er einnig að færa sig frá hagvaxtarkröfu. Þörf er einnig á endurbótum á lýðræðinu og á dómsmálakerfinu. Mörg dæmi eru um það að hagsmunaaðilar hafi of mikil áhrif á pólitískar ákvarðanir, líka hérlendis. Eins er þekkt að réttarstaða fyrirtækja sé stundum betri en umhverfisins eða almennings. Í sambandi við sjálfbæra þróun þá verðum við í ríku löndunum að gera okkur grein fyrir að við útvistum ofnýtingu, mengun, losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangi til fátækra landa og höfum þar með neikvæð áhrif á náttúru og íbúa annarra landa (smitáhrif/spillover effects21). Hér berum við siðferðislegar skyldur og mikilla breytinga er þörf þar sem réttlæti verður að vera að leiðarljósi22. Stjórnvöld verða að leiða og framkvæma þessar kerfisbreytingar því þau hafa völd, tæki og tól til þess. En krafa um breytingar verður fyrst og fremst að koma frá almenningi. Þannig á lýðræði að virka.
Heima með heiminn í huga

„Í villtri náttúru eru fjöregg heimsins falin“ eru orð skáldsins Henry David Thoreau23. Þvílík gæfa að ennþá er að finna óbyggð víðerni á Íslandi! Þvílíkur fjársjóður sem flestar aðrar þjóðir í kringum okkur hafa glatað. Ég man enn þann dag þegar ég upplifði kyrrð öræfanna í fyrsta skipti. Flestir íbúar landsins hafa mjög sterka tengingu við landið og náttúruna og nálægðin við frumframleiðslu er meiri en í þéttbýlum Evrópulöndum. Á Íslandi er líka töluvert minna um mengun í jarðvegi, vatni og lofti en í mörgum öðrum vestrænum löndum. En því miður er það ekki vegna þess að við lifum hér svo umhverfisvænu lífi heldur af því að hér er svo strjálbýlt. Náttúrutapið er búið að vera töluvert hérlendis eins og vegna mikillar jarðvegs- og gróðureyðingar og vegna framkvæmda og athafna mannsins. Hér á Austurlandi getum við horft á umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar sem eitt dæmi. En samt finnum við ekki eins mikið ennþá fyrir skorti af villtri, óbyggðri náttúru og mörg önnur vestræn lönd. Þannig höfum við tækifæri til þess að snúa við þróuninni áður en við verðum jafn illa stödd og mörg önnur lönd.

Mynd 5: Víðerni og kyrrðin eru einstök á Íslandi og hafa mikið verndargildi.

Menntun skiptir að sjálfsögðu miklu máli og hérlendis er menntun til sjálfbærni vel skilgreind í aðalnámskrá. Ýmsar leiðir eru til að efla menntun til sjálfbærni í skólum eins og t.d. Grænfánaverkefnið24 sem er alþjóðlegt verkefni (Eco-schools25) og er viðurkennt af UNESCO sem helsta innleiðingartæki í menntun til sjálfbærni í heiminum. Grænfánaverkefnið, sem er hérlendis rekið af umhverfisverndarsamtökunum Landvernd26, leiðir skóla í faglegri og árangursríkri vinnu sem fléttar menntun til sjálfbærni inn í daglegt skólastarf og valdeflir nemendur í getu til aðgerða. Um 180 skólar á öllum skólastigum taka þátt hérlendis. Margir taka einnig þátt í öðru alþjóðlegu verkefni, Umhverfisfréttafólki27, sem er undir væng Grænfánans. Til viðbótar erum við hér á Austurlandi líka svo heppin að hafa starfandi Náttúruskólann28 sem er með öfluga útikennslu og Hallormsstaðaskólann sem býður núna upp á fyrsta staðbundna háskólanám í skapandi sjálfbærni undir hatti Háskóla Íslands29.

Mynd 6: Allmargir skólar á Austurlandi eru virkir Grænfánaskólar en æskilegt værir ef allir tækju þátt.

Átakapunktar á Austurlandi

Þau náttúruverndarmál sem oft eru í umræðu hér á Austurlandi tengjast m.a. nýjum virkjanaáformum, bæði vatnsaflsvirkjunum og vindorkuverum, sjókvíaeldi, ágengum framandi plöntutegundum, vistheimt, flokkun, plokkun og endurvinnslu, ágengni ferðamanna, vernd víðerna og fræðslu. Ef við skoðum t.d. áform um nýjar virkjanir þá er hægt að spyrja sig – til hvers og fyrir hvern á að virkja? Er það af því að við þurfum meiri orku þó að orkuneysla okkar Íslendinga á mann sé sú næstmesta í heimi30 og að Ísland framleiði átta sinnum meiri raforku á íbúa en meðaltalið í Evrópu31? Eða getur það verið að aðaldrifkrafturinn sé að einhverjir fjárfestar sjái hér möguleika á auknum gróða? Þó að við séum svo heppin að geta reitt okkur að mestu leyti á endurnýjanlega orkugjafa þýðir það ekki að við getum óendanlega bætt við nýjum. Því þessar virkjanir eru alltaf inngrip inn í náttúruna. Á Íslandi þurfum við einnig að sníða okkur stakk eftir vexti, hætta að sóa og takmarka notkun og framleiðslu.

Margir eiga eflaust eftir að kynna sér betur áhrif vindorkuvera á náttúru landsins, m.a. á þau óbyggðu víðerni sem eru einkenni Íslands og mjög eftirsóknarverð. Mörg nágrannalönd okkar þurfa að reiða sig á vindorku til þess að geta stórminnkað notkun á kolum og gasi sem losa mikið kolefni. En við hér á Íslandi þurfum þess ekki og höfum því góðar forsendur til þess að leggja áherslur á vernd okkar einstöku víðerna og náttúru.

Mynd 7: Á náttúrukorti Landverndar32 er meðal annars hægt að fræðast um svæði þar sem áform eru um virkjanaframkvæmdir.

Annmarkar á sjókvíaeldi eru fjölmargir. Óumdeilt er að umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil og margvísleg, erfðablöndun vegna sleppifiska setur villta laxastofninn í hættu og mikil afföll og áhrif laxalúsar sýna fram á hreint dýraníð. Þetta sýnir að slíkt sjókvíaeldi gangi ekki upp. Einnig hefur Ríkisendurskoðun metið viðkomandi stjórnsýslu veikburða og brotakennda. Samt hafa samtökin VÁ-Félag um Vernd Fjarðar33 þurft að heyja áralanga baráttu gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði og málið er enn ekki útkljáð.

Mynd 8: Í þessum þrönga og fallega firði, Seyðisfirði, er ekki pláss fyrir mengandi sjókvíaeldi að áliti meirihluta íbúa og vegna reynslu af umhverfisáhrifum greinarinnar. Mynd: Sigurjón Bjarnason

Mynd 8: Í þessum þrönga og fallega firði, Seyðisfirði, er ekki pláss fyrir mengandi sjókvíaeldi að áliti meirihluta íbúa og vegna reynslu af umhverfisáhrifum greinarinnar. Mynd: Sigurjón Bjarnason

Þetta eru einungis örfá dæmi um náttúruverndarmál hér á Austurlandi. Lengi hefur hugsunarhátturinn, hér heima og um víða veröld, verið þannig að það er eins og það skipti ekki máli að raska einu og einu svæði til viðbótar. En raunveruleikinn er hins vegar orðinn þannig að hvert einasta svæði skiptir máli. Við vitum að það er stutt í ákveðna vendipunkta sem geta haft í för með sér ófyrirsjáanlegar og óafturkræfar afleiðingar34. Náttúruvernd heima fyrir er ekki lengur bara hagsmunir náttúru svæðisins og ósk þeirra sem vilja vernda hana heldur er það samhliða því þráður í stórum vef lífsins sem er að hruni kominn.

Samstaða

Náttúran getur ekki svarað fyrir sjálfa sig en hún er að tala við okkur. Með hitabylgjum, flóðum, bráðnandi jöklum, súrnun sjávar, þurrkum og skógareldum er hún að öskra á okkur að við verðum að hætta að níðast á henni. Nú þurfum við að taka höndum saman. Við erum svo heppin að allsstaðar er fólk sem er tilbúið að tala fyrir hönd náttúrunnar. Þannig eru til dæmis umhverfisverndarsamtökin Landvernd málsvari náttúrunnar á landsvísu síðan 1969. Á Austurlandi hafa Náttúruverndarsamtök Austurlands NAUST35 haldið úti öflugu náttúruverndarstarfi síðan 1970.

Mynd 9: Í ágúst 2024 efndi NAUST til gönguferðar um Hamarsdalinn í minningu Skarphéðins G. Þórissonar. Þetta svæði var í miklu uppáhaldi hjá Skarphéðni og er einstaklega fallegt og mikil upplifun og ævintýri að ganga þar. Þó að verkefnastjórn Rammaáætlunar hefur lagt til að svæðið fari í verndarflokk láta sumir sig ennþá dreyma um virkjanaframkvæmdir þar. Mynd 9: Í ágúst 2024 efndi NAUST til gönguferðar um Hamarsdalinn í minningu Skarphéðins G. Þórissonar. Þetta svæði var í miklu uppáhaldi hjá Skarphéðni og er einstaklega fallegt og mikil upplifun og ævintýri að ganga þar. Þó að verkefnastjórn Rammaáætlunar hefur lagt til að svæðið fari í verndarflokk láta sumir sig ennþá dreyma um virkjanaframkvæmdir þar.

Almennt virðist umræðan um náttúruvernd og loftslagsmál ekki vera hávær ef við skoðum m.a. áherslur síðustu kosninga eða þá staðreynd að ekki er lengur til sérstakt umhverfisráðuneyti. Það virðist hins vegar vera á skjön við vilja almennings ef horft er til niðurstaðna nýlegra vísindarannsókna þar sem 81% þátttakenda á Íslandi sögðu að stjórnvöld ættu að gera meira til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Og af þátttakendum rannsóknarinnar í 125 mismunandi löndum vilja að meðaltali 89% að stjórnvöld geri meira til þess að sporna við loftslagsvánni og 86% sögðu að fólk ætti almennt að berjast gegn loftslagsbreytingum36.

Samstaðan um að vilja ná árangri í loftslagsmálum og sú staðreynd að við öll getum tekið þátt í náttúru- og loftslagsvernd með einum eða öðrum hætti er leiðarljósið sem við eigum að fylgja núna. Náttúran hefur þann öfluga hæfileika að geta náð sér ef við gefum henni tækifæri til þess, eyðileggjum ekki meira og hjálpum til við að endurheimta vistkerfi. Þetta er vonin okkar. Við eigum ekki að horfa valda- og aðgerðarlaus á loftslagshamfarir, heldur standa saman, bretta upp ermarnar og snúa við blaðinu.

 

 

 

 

Heimildaskrá

 

  1. Rowlatt, J. og Poynting, M. (2025, 17. janúar). Planet-warming gas levels rose more than ever in 2024. BBC. https://www.bbc.com/news/articles/c30dn5dn53jo
  2. (2022). Global land outlook 2: Summary for decision makers. United Nations Convention to Combat Desertification, bls. 2. GLO2_SDM_low-res_0.pdf
  3. The Convention on Wetlands. (2015). Wetlands: a global disappearing act. Ramsar.org. factsheet3_global_disappearing_act_0.pdf
  4. Briggs, H. (2020, 30. september). Biodiversity: Why the nature crisis matters, in five graphics. BBC. https://www.bbc.com/news/science-environment-54357899
  5. Rakel Guðmundsdóttir. (2022, 4. júní). Mannkynið farið yfir þolmörk sex af níu lykilkerfum jarðar. Kjarninn. https://kjarninn.is/skyring/mannkynid-farid-yfir-tholmork-sex-af-niu-lykilkerfum-jardar/
  6. Stockholm Resilience Centre. (2025). Planetary boundaries. Stockholm University. https://www.stockholmresilience.org/research/planetary-boundaries.html
  7. Guðrún Schmidt. (2023). Menntun til sjálfbærni. Handbók fyrir kennara. Grænfáninn/Landvernd/Menntamálastofnun, bls. 104-105. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/menntun_til_sjalfbaerni/104/
  8. Konietzko, J. (2022, 8. febrúar). Moving beyond carbon tunnel vision with a sustainability data strategy. https://www.cognizant.com/us/en/insights/insights-blog/moving-beyond-carbon-tunnel-vision-with-a-sustainability-data-strategy-codex7121
  9. United Nations (e.d.). The Paris Agreement. https://unfccc.int/process-and-meetings/the-paris-agreement
  10. Convention on biological diversity. (e.d.). Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework. https://www.cbd.int/gbf
  11. United Nations (e.d.). Convention to combat desertification. https://www.unccd.int/
  12. The Convention on Wetlands. (2015). Wetlands: a global disappearing act.org. factsheet3_global_disappearing_act_0.pdf
  13. United Nations Decade on Ecosystem Restoration 2021-2030. (e.d.) Preventing, halting and reversing loss of nature. https://www.decadeonrestoration.org/
  14. Convention on biological diversity. (e.d.). 2030 Targets (with Guidance Notes). https://www.cbd.int/gbf
  15. Global Footprint Network. (e.d.). Earth Overshoot Day. https://overshoot.footprintnetwork.org/
  16. Stefán Jón Hafstein. (2025, 24. janúar). janúar og risa­stórt vistspor Ís­lands. Vísir. https://www.visir.is/g/20252679591d/24.-januar-og-risa-stort-vistspor-is-lands
  17. Guðrún Schmidt. (2023). Menntun til sjálfbærni. Handbók fyrir kennara. Grænfáninn/Landvernd/Menntamálastofnun, bls. 70-71. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/menntun_til_sjalfbaerni/70/
  18. Guðrún Schmidt. (2024, 28. janúar). Landvernd og framfarir. Heimildin. https://heimildin.is/grein/20640/
  19. Guðrún Schmidt. (2022, 1. nóvember). Nægjusamur nóvember. Kjarninn. https://kjarninn.is/skodun/naegjusamur-november/
  20. Begley, E., Jr. (n.d.) Ed Begley Junior Quotes. Quote Catalog.com. https://quotecatalog.com/communicator/ed-begley-junior/
  21. Háskóli Íslands. (2023, 11. júlí). Úttekt Sjálfbærnistofnunar á alþjóðlegum smitáhrifum Íslands. https://sshi.hi.is/is/uttekt-sjalfbaernistofnunar-althjodlegum-smitahrifum-islands
  22. Guðrún Schmidt. (2023, 9. febrúar). Hvað þýða róttækar kerfisbreytingar? https://landvernd.is/hvad-thyda-rottaekar-kerfisbreytingar/
  23. Thoreau, H. D. (1862). Í villtri náttúrunni er fjöregg heimsins falið. is. https://tilvitnun.is/quote/%C3%AD-villtri-n%C3%A1tturunni-er-fj%C3%B6regg-heimsins-fali%C3%B0-
  24. (e.d.). Grænfáninn. https://graenfaninn.is/
  25. Foundation for Environmental Education. (e.d.). Engaging the youth of today to protect the planet of tomorrow! Eco-Schools. https://www.ecoschools.global/
  26. (e.d.). Landvernd er málsvari náttúrunnar. https://landvernd.is/
  27. (e.d.). Umhverfisfréttafólk. https://graenfaninn.is/umhverfisfrettafolk/
  28. Náttúruskólinn. (e.d.). Allt um Náttúruskólann. https://www.natturuskolinn.is/
  29. Háskóli Íslands. (e.d.). Velkomin á Hallormsstað. https://hi.is/hallormsstadur
  30. Guðmundur Steingrímsson. (2024, 15. febrúar). Í hvað fer allt rafmagnið. https://ff7.is/2024/02/i-hvad-fer-allt-rafmagnid/
  31. Auður Önnu Magnúsdóttir. (2023, 15. mars). Íslenska leiðin – nær heimsmet í lélegri frammistöðu. https://landvernd.is/islenska-leidin-naer-heimsmet-i-lelegri-frammistodu/
  32. Landvernd (e.d.). Náttúrukortið. https://landvernd.is/natturukortid/
  33. Vá Félag um vernd fjarðar. (e.d.). Virðum lýðræði – verndum Seyðisfjörð. https://www.va-felag.is/
  34. Igini, M. (2024, 19. ágúst). Current decade ‘critical’ to avoid permanent breach of climate tipping points, study warns. org. https://earth.org/current-decade-critical-to-avoid-permanent-breach-of-climate-tipping-points-study-warns/
  35. Náttúruverndarsamtök Austurlands. (e.d.). https://nattaust.is/
  36. Loftslagsráð. (2025, 13. maí). Stór þögull meirihluti vill loftlagsaðgerðir. https://loftslagsrad.is/stor-thogull-meirihluti-vill-loftlagsadgerdir/

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd