Íslenska leiðin – nær heimsmet í lélegri frammistöðu

Ráðstöfun íslensku raforkunnar er ekki í takti við það markmið að hámarka verðmætasköpun.
Ef stórnotendur greiddu sama verð fyrir raforkuna og dreifiveitur myndu tekjur vegna raforkusölu og -dreifingar (gegnum Landsnet) aukast um 52 Ma á ári.

Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims á íbúa og framleiðir sex sinnum meira rafmagn á íbúa en meðatalið fyrir hátekjulönd og átta sinnum meira en meðaltalið í Evrópu. 

Við nýlega skýrslu Viðskiptaráðs um sviðsmyndir í raforkunotkun til 2040 er margt að athuga eins og formaður Landverndar fer yfir í góðri grein.

Samkvæmt skýrslunni er raforkuframleiðsla forsenda efnahagslegra framfara. Það ætti að fela í sér að efnahagslegt ástand á Íslandi sé margfalt betra en í öðrum hátekjulöndum eða í Evrópu, þar sem raforkuframleiðsla er margfalt meiri hér en í Evrópu.

Þetta er ekki raunin því fjárhagslegur ábati af íslensku raforkunni er afar slakur. Samkvæmt úttekt tímaritsins Economist er Ísland með fjórðu verstu verðmætasköpun í heiminum á orkueiningu (verg þjóðarframleiðsla á gígawattstund). 

Af þessum tölum er ljóst að alveg hefur misheppnast að tryggja að hin eftirsótta íslenska raforka skili sér í fjárhagslegum ábata fyrir samfélagið, eins og fullyrt hefur verið.

Hvert fer öll orkan þá, ef ekki í að búa til þjóðartekjur?

Stórnotendur á Íslandi nota 78% allrar raforku sem hér er framleidd, öll önnur starfsemi eins og heimili, skólar, stofnanir og öll önnur fyrirtæki nota 18% og 4% tapast í flutningskerfinu.

Langstærsti hluti raforkunnar fer til álvera, 64% af allri raforku sem framleidd er í landinu. Aðrir stórnotendur eru kísilver, gagnaver, járnblendi og álþynnuverksmiðja.

Árið 2019, sem er síðasta árið sem við eigum raunhæfar tölur til um, voru útflutningstekjur af álvörum um 200 Ma. kr. Vegna covid hækkaði álverð mikið í heiminum voru útflutningstekjurnar 2021 um 300 Ma. kr. Nýlega hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað aftur, en þó ekki niður í það sem var árið 2019. Af 300 Ma útflutningstekjum urðu um 125 Ma. eftir á Íslandi árið 2021 að sögn forstjóra Fjarðaráls.

Til samanburðar voru útflutningstekjur í hugverkaiðnaði 139 milljarðar árið 2019. Að vinna í hugverkaiðnaði er síst verra en að starfa við stóriðju og augljóslega er hægt er að skapa mikil verðmæti án þess að nota óhemju mikla raforku.

Hinar tvær stóru útflutningsgreinarnar á Íslandi, ferðaþjónusta og sjávarútvegur, nýta að mestu jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa. Því verður að breyta, og má gera með því að a) draga úr orkunotkun með orkusparnaði og bættri nýtingu b) framleiða meiri raforku og c) dreifa raforkunni frá stóriðju til annarra greina.

52 milljarða meðgjöf til stóriðju

Ef stórnotendur greiddu sama verð fyrir raforkuna og dreifiveitur myndu tekjur vegna raforkusölu og -dreifingar (gegnum Landsnet) aukast um 52 Ma á ári. Þetta er gróflega áætlað og byggt á tölum úr ársreikningum Landsvirkjunar og gjaldskrá Landsnets árið 2021.

Dreifiveitur greiða u.þ.b. tvöfalt hærra aflgjald og orkugjald til Landsnets en stórnotendur en afhendingargjald fyrir hvern tengipunkt er það sama fyrir stórnotendur og dreifiveitur. Sama gildir um raforkukaup frá Landsvirkjun, þar sem allir aðrir en stórnotendur greiða 86% hærra gjaldfyrir MWst. Hér er að finna nánari útlistun á hvernig þetta var reiknað út

Orkuskiptin krefjast upplýstrar ákvarðanatöku

Af ofangreindu er ljóst að núverandi ráðstöfun íslensku raforkunnar er ekki í takti við það markmið að hámarka verðmætasköpun. Að auki setur þessi mikla raforkusala til fárra mjög fjársterkra erlendra aðila mikinn þrýsting á orkuverð, íslenska stjórnsýslu og ákvarðanatöku.

Á næstu árum stöndum við frammi fyrir erfiðu vali: á að halda áfram á sömu braut og selja orkuna ódýrt til örfárra útvalinna erlendra stórfyrirtækja eða er hún betur komin annars staðar?

Ætlum við að auka hér raforkuframleiðslu um tugi/hundruð prósenta eða taka skynsamlegar ákvarðanir um orkunýtingu og láta náttúru Íslands njóta vafans?

Þetta eru stórar spurningar en eitt er víst. Við höfum val.

 

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2023. 

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd