Sviðsmyndir Landverndar um raforkunotkun 2040

Goðafoss í Skjálfandafljóti.
Goðafoss í Skjálfandafljóti. Ljósmynd: Richard Dorran.
Orkuskipti sem við getum verið stolt af – orkuskipti, loftslagsvernd og náttúruvernd haldast í hendur. Hér kynnir Landvernd sviðsmyndir um raforkuskipti.

Skýrsla Landverndar, Sviðsmyndir Landverndar um raforkuskipti,  Orkuskipti sem við getum verið stolt af – orkuskipti, loftslagsvernd og náttúruvernd haldast í hendur er komin út.

 

Hér er kynnir Landvernd raunsæja framtíðarsýn sem ekki byggir á eyðileggingu íslenskra náttúruperla. Með vel ígrunduðu líkani eru framreiknaðar sviðsmyndir sem sýna hvernig má framkvæma orkuskipti á Íslandi næstu tvo til þrjá áratugina með raforku sem frumorku. Tilgangurinn er að sýna hvernig má standa að orkuskiptum með umtalsvert hófsamari orkuöflun en Samorka hefur boðað með frekari virkjunum, en jafnframt að viðhalda forsendum fyrir efnahagslegri velsæld í landinu.

Sviðsmyndirnar byggja á líkani sem sjálfstæður ráðgjafi setti upp fyrir Landvernd og orkuhermi sem Ágústa Þóra Jónsdóttir hefur hannað á grundvelli þess. Orkuskiptahermir Ágústu verður aðgengilegur á heimasíðu Landverndar og geta notendur þróað sína eigin sviðsmynd með honum.

Þrjár sviðsmyndir

Þær þrjár sviðsmyndir sem hér fara á eftir hafa verið reiknaðar með herminum. Sviðsmyndirnar hafa þann tilgang að sýna að Íslendingar geta auðveldlega framkvæmt orkuskipti í sátt við náttúru og íbúa landsins. Um leið verður ljóst að leið orkufyrirtækjanna er slæmur kostur sem óhjákvæmilega mun spilla náttúru landsins og víðernum og ganga gegn almennu viðhorfi til nýtingar náttúruauðlinda.

Sviðsmyndir 2 og 3 sem hér eru kynntar sýna að loftslagsvernd og náttúruvernd geta haldist í hendur. Íslendingar geta náð umtalsverðum árangri í loftslagsvernd án þess að spilla dýrindi okkar allra og komandi kynslóða: Einstakri náttúru og víðernum sem eru segull og aflvaki ferðþjónustunnar, ríkur þáttur í stolti og vitund þjóðarinnar og uppspretta einstakra lífsgæða.

 

Sviðsmynd 1 – kæruleysi og aðgerðaleysi – óbreytt ástand

Þessi sviðsmynd leiðir til „kolefnishlutleysis[1]“ eftir um 20 ár án þess að nokkuð sé gert til að bæta orkunýtni. Hröð orkuskipti þýða að full orkuskipti hafa átt sér stað fyrir 2040. Niðurstaðan er að auka þarf raforkuframleiðslu frá liðlega 19 þúsund GWst frá árinu 2019 upp í um 35 þúsund GWst., eða um tæplega 75% miðað við 2019. Hér er ekki gert ráð fyrir nýjum orkufrekum verkefnum öðrum en þeim sem þarf til að framleiða rafeldsneyti. Umfang millilandaflugs helst óbreytt miðað við árið 2019.

Ef fylgja á þessari línu þarf að auka raforkuframleiðslu á Íslandi á næstu tveimur áratugum um sem nemur þremur Kárahnjúkavirkjunum. Áhrif þess gætu orðið umtalsverð á náttúru og víðerni. Þessi sviðsmynd er þó hógvær í samburði við sviðsmynd Samorku sem kynnt var í grænbók ráðherra orkumála. Skv. henni þarf að auka raforkuframleiðslu um 124% á næstu tveimur áratugum. Að mati Landverndar er það fjarstæðukennd sviðsmynd.

[1]Hér er ekki tekið tillit til mikillar losunar frá landi sem talin er vera um 9 m. tonn á ári í skýrslum Umhverfisstofnunar.

Sviðsmynd 2 – það er nóg til ef við nýtum það vel

Hér er stefnt að algjörum orkuskiptum árið 2040; Ísland án jarðefnaeldsneytis. Hröð orkuskipti þýða að full orkuskipti hafa átt sér stað fyrir 2040.

Til þess að svo megi verða þarf að grípa til skilvirkra aðgerða sem bæta orkunýtni umtalsvert og til nokkurra annara aðgerða sem hér segir:

  • Orkumannvirki – orkunýtni batnar um 10%[1].
  • Fiskveiðar – orkunotkun dregst saman um 40% á 20 árum með betri nýtni og breyttum veiðiaðferðum.
  • Flugvélar – orkunýtni batnar um 50% á 20 árum.
  • Heimili – orkunýtni batnar um 15%.
  • Stóriðja – orkunotkun dregst saman um 50%.
  • Gagnaver – orkunotkun dregst saman um 25%
  • Hlutfall metans og vetnis í eldsneyti fyrir fiskiskip 14/86.
  • Um 90% hópbíla og flutningabíla ganga fyrir rafmagni beint
  • Hlutfall rafmagns í flutningaskipum verður 5%.
  • Flugferðum fækkar um fimmtung á 20 árum[2].

[1]Betra dreifikerfi sem dregur úr flutningstapi og framleiðslutapi og og nýtir betur núverandi virkjanir án þess að hafa áhrif á náttúrufar og vatnafar.

[2]Ferðamenn dvelja lengur og fleiri koma með ferju frá meginlandi Evrópu til Þorlákshafnar þannig að ferðþjónustan lifir góðu lífi og álag á ferðamannastaði fer ekki úr hófi fram.

Sviðsmynd 3 – viðunandi árangur, en full orkuskipti ná ekki fram að ganga

Hér er gert ráð fyrir að orkuskiptin taki lengri tíma og að þeim verði ekki að fullu lokið árið 2040. Reiknað er með að losun gróðurhúsalofttegunda á ábyrgð Íslands verði mætt með bindingu í skógrækt, endurheimt votlendis og landgræðslu. Forsendur eru eins og í sviðsmynd 2 að öðru leyti en því að kröfur um samdrátt í orkunotkun stóriðju eru 25% í stað 50%.

Hægari orkuskipti taka tillit til þess að líftími bíla, skipa og flugvéla er langur og því tekur lengri tíma en 18 ár að skipta þeim öllum út.

Sjá nánar í ritinu Sviðsmyndir Landverndar um raforkunotkun 2040

Við stöndum frammi fyrir skýrum valkostum. Við getum vaðið áfram eins og ekkert hafi í skorist og leitt hjá okkur brýnar áskoranir í loftslagsmálum, við getum haldið áfram óbreyttum áherslum ofgnóttar og græðgi. Við getum líka tekist á við verkefnið sem við blasir af ábyrgð og einurð með hagsmuni komandi kynslóða í huga. Samhliða orkuskiptum þurfa að verða neysluskipti hjá okkur öllum – ekki bara alþýðu manna heldur líka stóriðju og atvinnulífi.

Sviðsmyndagreining Landverndar sýnir skýrt að þjóðin hefur val um það hvernig verður staðið að orkuskiptum. Velmögulegt er fyrir Ísland að ná fullum orkuskiptum án þess að ráðast í meiriháttar virkjanaframkvæmdir og vernda þannig íslenska náttúru fyrir eyðileggingu.

Sviðsmyndir Landverndar um raforkunotkun 2040 er unnin af Ágústu Þóru Jónsdóttur sjálfstæðum ráðgjafa.

Orkuskipti sem við getum verið stolt af

Orkuskiptahermir

Hvernig vilt þú sjá orkuskiptin? Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar og settu upp þínar sviðsmyndir. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd