Viltu virkja? Veistu hvað er í húfi?

Vestari-Jokulsa Héraðsvötn
Vestari-Jökulsá í hlaupi - Hérðasvötn. Ljósmynd: Skagafjordur.is
Íslensk náttúra er leiksvið kvikrar landmótunar, elds og íss og verðmætra vistkerfa. Hér eru stór lítt snortin víðerni og stórbrotið landslag. Allt eru þetta verðmæti sem er afar brýnt að vernda.

Íslensk náttúra er leiksvið kvikrar landmótunar, elds og íss og verðmætra vistkerfa. Hér eru stór lítt snortin víðerni og stórbrotið landslag. Allt eru þetta verðmæti sem er afar brýnt að vernda.

Náttúrukortið er lifandi vefsjá sem sýnir einstök svæði á Íslandi sem eru í hættu vegna virkjanahugmynda. Á kortinu eru tilgreind áform um vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir og vindorkuver. Einnig er fjallað um staði í verndarflokki rammaáætlunar, sem Náttúrukortið byggir á ásamt öðrum opinberum gögnum.

Hægt er að leita að einstökum stöðum á Náttúrukortinu, kveikja og slökkva á mismunandi tegundum virkjana og svæða eftir því hvernig þau eru flokkuð í rammaáætlun.

 

 

Flokkun svæða skv. Rammaáætlun

Verndarflokkur

Mun meiri ávinningur er af því að vernda svæði en virkja þau. Samkvæmt rammaáætlun er verðmæti svæða í verndarflokki hátt og ekki ákjósanlegt til virkjana. Ekki stendur til að virkja á þeim svæðum sem eru flokkuð í verndarflokk.

Biðflokkur

Svæði í biðflokki falla yfirleitt í þann flokk vegna skorts á gögnum eða vegna þess að rannsókna er ábótavant og því ekki unnt að ákveða hvort meiri ávinningur sé af því að vernda svæðið eða að virkja til orkunýtingar.

Nýtingarflokkur

Svæði í nýtingarflokki eru talin vera betri til virkjana en aðrir staðir. Þó að svæði falli í nýtingarflokk í Rammaáætlun er ekki sjálfsagt að það þar verði virkjað eða að þar sé rétt að virkja. Hvert svæði þarf að rannsaka nánar og sækja um mörg leyfi áður en virkjað er.

Ljósmyndir og umfjöllun um einstök svæði

Á Náttúrukortinu má finna umfjöllun um hvert svæði fyrir sig, ljósmyndir og myndbönd svo landsmenn geti betur glöggvað sig á þeim einstöku svæðum sem eru nú í hættu vegna áætlana um orkunýtingu. Markmiðið er að fræða og færa um leið þessi einstöku svæði nær landsmönnum – í stað þess að svæðin séu fjarlæg og óþekkt. Það getur verið erfitt að láta sér þykja vænt um land sem maður hefur hvorki séð né þekkir.

Náttúrukortið fyrir grúskara

Auk þess að skoða og fræðast um einstaka staði er hægt að sjá þá í margvíslegu samhengi í vefsjá Landverndar. Þar er hægt að leggja ýmis önnur kort yfir svæðin, t.d. vistgerðir, friðlýst svæði, skipulagsmál, aðalskipulag o.fl.

Náttúrukortið til Landverndar

Náttúrukortið var fyrst opnað fyrir áratug og var þá á vegum Framtíðarlandsins sem síðar gekk til liðs við Landvernd og starfar nú sem hópur innan samtakanna. Náttúrukortið hefur verið uppfært ítarlega og var opnað á nýjan leik þann 24. febrúar 2022.

Náttúrukortið verður áfram í stöðugri uppfærslu enda spretta upp nýjar áskoranir nær daglega. Það er von Landverndar að landsmenn leggi kortinu lið með því að senda inn efni sem bætir eða dýpkar upplýsingarnar, til dæmis myndefni eða ábendingar varðandi einstaka staði sem fjallað er um. Landvernd tekur fagnandi á móti slíku efni á natturukortid@landvernd.is.

Skoðaðu Náttúrukortið!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd