Náttúruverndarsamtök og landeigendur kæra virkjun í Hverfisfljóti

Hverfisfljót. Áhrifasvæði Hnútuvirkjunar. Skoðaðu náttúrukortið á landvernd.is
Hverfisfljót - Áhrifasvæði Hnútuvirkjunar.
Við höfum kært ákvörðun sveitastjórnar Skaftárhrepps um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna virkjunar við Hnútu í Hverfisfljóti.

Landvernd, Eldvötn – samtök um náttúruvernd í SkaftárhreppiNáttúruverndarsamtök SuðurlandsNáttúruverndarsamtök Íslands og Ungir Umhverfissinnar ásamt stórum hópi landeigenda í nálægð við Hverfisfljót hafa kært ákvörðun sveitastjórnar Skaftárhrepps um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna 9,3 MW virkjunar við Hnútu í Hverfisfljóti til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samtökin kæra meðal annars á grundvelli þess að:

  • Náttúruverndarlög eru brotin þar sem eldhraunum, fossum og víðernum sem njóta verndar verður spillt
  • Lög um umhverfismat og útgáfu framkvæmdaleyfis eru brotin þar sem ekki er tekið tillit til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, sem var afar neikvætt
  • Skipulagslög og stjórnsýslulög eru brotin þar sem sveitafélagið hefur ekki kynnt greinagerð eða rökstuðning fyrir því að ganga gegn náttúruverndarlögum og áliti Skipulagsstofnunar
  • Virkjun á svæðinu sem um ræðir er í biðflokki rammaáætlunar

Dregið úr náttúruverðmætum Skaftárhrepps

Skaftárhreppur býr yfir magnaðri, óspilltri og verðmætri náttúru og mikilvægasta atvinnugrein sveitafélagsins, ferðaþjónustan, byggir á því ríkidæmi. Ferðamenn koma ekki í Skaftárhrepp til að skoða virkjanir eða keyra á vegum. Þeir koma til að skoða einstæða óspillta náttúru. Með virkjun við Hnútu er dregið úr þeim náttúruverðmætum sem sveitafélagið býr yfir. Virkjun Hverfisfljóts myndi spilla víðernum á stóru svæði, þ.m.t. innan Vatnajökulsþjóðgarðs, sem og innan hálendismarka. Núpahrauni, Skaftáreldahrauni og fossunum Lambhagafossum og Faxa yrði raskað en þau njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Engin góð réttlæting fyrir framkvæmdinni

Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn með framkvæmdinni eða almannahagsmuni eins og 61. gr. náttúruverndarlaga kveður á um. Skaftáreldahraun hefur mikla sérstöðu og bendir Skipulagsstofnun á að gera verði nákvæmlega grein fyrir brýnum almannahagsmunum ef réttlæta á rask á svo einstökum náttúruundrum.

Kynntu þér Hverfisfljót á Náttúrukortinu

Kynntu þér einstaka náttúru Hverfisfljóts á Náttúrukortinu. Þar kemur við sögu eitt af yngstu árgljúfrum í heimi og einstök landslagsheild í Skaftárhreppi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd