Norræni strandhreinsunardagurinn

Gæta þarf að dýra- og fuglalífi við skipulagningu strandhreinsana, landvernd.is
Norðurlöndin tóku höndum saman í baráttunni gegn plastmengun í hafi og var hreinsað samtímis á öllum Norðurlöndum.

Kærar þakkir fyrir þátttökuna og góðar móttökur

Svæðisgarðurinn SnæfellsnesUmhverfisvottun SnæfellsnessLandverndLions hreyfingin og Blái herinn þakka öllum þeim sem tóku þátt í Norræna strandhreinsunardeginum 6. maí 2017 s.l. laugardag.

Mörg tonn af plasti söfnuðust

Mörg tonn af rusli, að mestu leyti plast, voru hreinsuð skipulega af þremur strandsvæðum og að auki voru víða minni hreinsanir. Landeigendur tóku til hendinni, ferðaþjónustufyrirtæki, eyjar voru hreinsaðar, kafað var í höfnina í Stykkishólmi og áfram má telja. Lionsklúbbur Nesþinga, Lionsklúbbur Ólafsvíkur, starfsmenn umhverfisstofnunar og norrænu sendiráðanna ásamt öðrum sjálfboðaliðum fóru hamförum á ströndinni við Bervík. Umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir tók þátt í fjörunni í Skógarnesi en þar var einnig að finna lengsta strandsvæðið með hörkuduglegt lið heimamanna fremst í flokki.

Veðrið lék við þátttakendur og í lokin var blásið til snæfellskrar veislu á Breiðabliki þar sem yfir 200 manns komu saman.

Ruslið sent til endurvinnslu

Mikil áhersla var lögð á að flokka ruslið og koma því til endurvinnslu eins og hægt var. Á hverjum hreinsunarstað var stikaður af 10m x 100m tilraunareitur. Haldin var nákvæm skráning um það sem þar fannst og verður það borið saman við tilraunareiti á Norðurlöndunum sem voru hreinsaðir samtímis. Nánari upplýsingar um magn og gerð rusls sem safnaðist koma síðar.

Snæfellsnes í farabroddi

Markmið verkefnisins var að vekja athygli á viðfangsefninu plast í hafinu og mögulegum aðgerðum til úrbóta. Við þurfum að endurskoða neyslu,flokka og skila rusli og hreinsa gamlar syndir. Snæfellsnes er í fararbroddi því að þar hefur verið unnið skipulega að umhverfismálum. Við hvetjum ykkur til að halda ótrauð áfram að hreinsa strendur og koma í veg fyrir að plast endi í hafinu. Margir lögðu hönd á plóg og viljum við sérstaklega þakka samstarfsaðilunum Landvernd, Bláa hernum og Lionshreyfingunni á Íslandi. Heimamönnum í Skógarnesi, Hofgörðum, þjóðgarðinum Snæfellsjökli og sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd