Nýir straumar í náttúruvernd

IUCN (the International Union for Conservation of Nature) eru alþjóðleg náttúruverndarsamtök, stofnuð árið 1948 og fagna því 60 ára afmæli sínu á þessu ári. Um 8000 manns víðsvegar að úr heiminum tóku þátt í þeim 900 viðburðum sem í boði voru á þingi alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN í Barcelona.

Í gær lauk vel heppnuðu þingi alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN í Barcelona á Spáni (www.iucn.org). Fyrir þingið stóðu samtökin fyrir stórri ráðstefnu um náttúruvernd og strauma og stefnur til framtíðar. Um 8000 manns víðsvegar að úr heiminum sóttu þá 900 viðburði sem í boði voru. Efni ráðstefnunnar var skipt upp í þrjár meginlínur: breytt andrúmsloft, heilbrigt umhverfi – heilbrigt fólk og varðveisla fjölbreytileika lífsins. Á ráðstefnunni kom glögglega fram að náttúruvernd nútímans snýst ekki um friðun eingöngu heldur það samspil sem þarf að vera milli friðunar og annarar nýtingar náttúrunnar. Náttúruvernd snýst um samstarf ólíkra hagsmunaaðila við að ná fram hagsmunum heildarinnar á þann hátt að auðlindin sjálf, náttúran, skaðist ekki heldur nái að viðhalda sér og endurnýja sig samhliða nýtingu.

Hvað er IUCN?
IUCN (the International Union for Conservation of Nature) eru alþjóðleg náttúruverndarsamtök, stofnuð árið 1948 og fagna því 60 ára afmæli sínu á þessu ári. Þau eru elsta og jafnframt stærsta umhverfisnetverk sem starfar á alþjóðlega vísu og byggð á lýðræðislegum grunni félagsaðildar. Innan IUCN eru yfir 1000 félagar, bæði frjáls félagasamtök sem og ríki og ríkisreknar stofnanir. Um 11.000 vísindamenn frá yfir 160 löndum eru einnig aðilar að IUCN í gegnum sérstakar nefndir og leggja samtökum til þekkingu í sjálfboðaliðastarfi. Samtökin reka alls 60 skrifstofur staðsettar víðsvegar um heiminn en aðalstöðvar þeirra eru í Gland í Sviss.

Markmið samtakanna er að hvetja og aðstoða samfélög um allan heim til að vernda líffræðilega fjölbreytni vistkerfa sinna, á landi sem í láði, og tryggja að nýting náttúruauðlinda sé byggð á jafnræði og vistfræðilegri sjálfbærni.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd