Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri skrifar
2020 er líklega árið sem enginn mun sakna. Á því gerðist samt margt merkilegt í umhverfismálum þó það hafi fallið í skuggann af Covid eins og öll önnur málefni.
Árið verður líkast til eins og öll síðustu ár í flokki 5 heitustu ára síðan mælingar hófust. Vísbendingar bárust um að áhrif hamfarahlýnunar væru meiri á sumum sviðum en spár gerðu ráð fyrir og að hlýnunin væri að minnsta kosti jafn hröð og spáð var. Á sama tíma gekk þjóðum heims verr en áætlað var að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Brugðist við afleitri þróun
Til að bregðast við þróuninni settu mörg ríki sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum. Evrópusambandið hækkaði markmið sitt um samdrátt upp í 55%. Þá létu Sameinuðu þjóðirnar til sín taka í loftslagsmálum á mörgum sviðum þrátt fyrir að COP 26 hefði verið frestað fram á næsta ár. Í desember hvatti aðalritari Sþ þjóðir heims til þess að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum vegna þess að aðgerðir og árangur hafa látið á sér standa. Aðalfundur Landverndar 2019 hvatti íslensk stjórnvöld til þess að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum en þau hafa enn ekki brugðist við þeirri áskorun.
Ný von í vestri
Kjör Joe Bidens og Kamala Harris í embætti forseta og varaforseta Bandaríkjana lofa góðu á sviði loftslagsmála. Í kosningabaráttunni hefðu þau mögulega hefðu þau geta sneitt hjá loftslagsmálunum til að fæla ekki frá afneitunarsinna en þau settu fram skýra og nokkuð metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Biden hefur lofað að Bandaríkin gangi aftur inn í Parísarsamkomulagið sem er gríðarlega mikilvægt fyrir samstöðu þjóða heims í baráttunni gegn hamfarahlýnun.
Við fengum aftur að sjá heiminn sem var
Vegna samkomutakmarkana fengu jarðarbúar, mannapar og aðrir, smjörþef af því hvernig heimurinn gæti litið út ef umhverfisvernd væri ráðandi. Íbúar í nágrenni Himalaya sáu á ný fjallstoppa sem ekki hafa sést áratugum saman vegna mengunar, villt dýr hættu sér út á berangur og Íslendingar endurnýjuðu tengsl sín við íslenska náttúru. Fáir komust í frí til útlanda og urðu að láta Ísland duga – sem það gerði svo sannarlega. Í sumar voru samfélagsmiðlar fullir af myndum af fólki að njóta náttúrunnar í botn. Vonir standa til að þetta leiði til aukinnar meðvitundar Íslendinga allra um landið sitt og gæði þess að hafa að svo stórkostlegum undrum að hverfa sem náttúra Íslands er.
Ágangur á vistkerfi jarðar er lýðheilsumál
Margar skýrslur komu út þar sem skýrð voru tengsl milli smitsjúkdóma sem eiga uppruna sinn hjá dýrum og ágangs manna á náttúruleg vistkerfi. Þegar líffræðileg fjölbreytni minnkar og vistkerfi eru brotin upp eykst hætta á dreifingu sjúkdóma. Þess vegna fengu aðgerðir sem vinna gegn því að líffræðileg fjölbreytni minnki og vistkerfi eyðist, aukna og annarskonar athygli en áður – sumsé sem mikilvæg lýðheilsumál. Auk þess voru áhrif okkar á umhverfið dregin allrækilega fram.
Þolmörk jarðar
Ein ánægjulegustu tíðindi ársins (fyrir utan fregnir af bóluefni) komu þann 22. ágúst. Þá var þolmarkadagur jarðar (earth overshoot day) fyrir árið 2020 en það er sá dagur þegar nýting mannkynsins á auðlindum jarðar fer fram úr því sem hún getur endurnýjað á því ári. Spár höfðu gert ráð fyrir því að dagurinn yrði í fyrsta skipti í júlímánuði árið 2020 en vegna takmarkana á allskyns starfsemi eins og flugi og hráefnavinnslu færðist hann aftur um heilar þrjár vikur. Sérfræðingar telja þó líklegt að eftir Covid faraldurinn muni mannkynið missa niður þennan árangur og að á næstu árum muni ásælni í auðlindir aukast hraðar en áður vegna aðgerða til þess að reisa efnahaglífið aftur við.
Hálendisþjóðgarður í deiglunni
Hér innanlands voru mörg stór umhverfismál til umræðu. Árið byrjaði og endaði á líflegum og heitum umræðum um Hálendisþjóðgarð. Hann yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum þar sem okkar einstæðu náttúruperlum yrði hampað um leið og þær hlytu vernd fyrir stórframkvæmdum og ágangi. Þó skiptar skoðanir séu um frumvarp umhverfisráðherra sem lagt var fram í lok ársins virðast flestir vera á því að rétt sé að stofna þjóðgarð á hálendi Íslands.
Aukinn metnaður í loftslagsmálum
Á árinu var birt ný aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Stjórn Landverndar taldi áætlunina mun betri en þá fyrri en þó dygði hún ekki til til þess að ná markmiðum um samdrátt sem þó eru fremur metnaðarlaus. Í lok árs tilkynnti forsætisráðherra metnaðarfyllri markmið um samdrátt í losun til 2030; spennandi verður að sjá hvernig aðgerðaáætlanir ríkisstjórnarinnar verða uppfærðar í samræmi við það.
Víst getum við breytt heiminum
Í heildina er þó tvennt sem mun líklega standa upp úr á sviði umhverfismála þegar litið verður til baka til ársins 2020. Annars vegar hið risastóra verkefni að breyta samfélaginu okkar á stuttum tíma þegar markmiðið er velferð og heilsa okkar allra. Með samhentu átaki þjóðarinnar tókst það vel. Þannig sýndi Covid okkur að þær breytingar sem gera þarf til að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda eru vel mögulegar. Hin stóru tíðindi ársins eru breytt viðhorf margra til náttúrunnar og okkar sjálfra.
Mjög margir kunna nú betur að meta gjafir náttúrunnar og hafa gert sér grein fyrir því að skaði sem er unninn á henni er skaði fyrir mannkynið. Margir hafa líka náð dýpri skilningi á stöðu sinni í heiminum og tengslunum við aðra jarðarbúa. Við þurfum öll að kljást við sömu vandamálin – þannig hefur heimurinn minnkað og um leið gerum við okkur grein fyrir því hve viðkvæm við erum. Með þessum breyttu viðhorfum fylgir breytt gildismat sem er skilyrði fyrir því að við náum tökum á þeirri umhverfisvá sem við horfum nú fram á: hamfarahlýnun, útdauði fjölda tegunda, eyðing og röskun vistkerfa til að nefna dæmi. En árið 2020 hefur engu að síður sýnt okkur að kannski hafði Obama rétt fyrir sér, við getum þetta: YES WE CAN!
Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.