Sævar Helgi skrifar um paradísina Jörð
Ég man þegar sjokkið kom – vendipunkturinn. Það var þegar ég stóð í ruslareininni í Álfsnesi, dvergvaxinn við rætur ruslafjalls sem gnæfði yfir allt í kring. Þetta voru leifarnar af (of)neyslunni okkar. Pakkningar, málmar, gler, plast og ál sem við rústuðum landi til að framleiða, notuðum einu sinni og hentum. Kannski af því að við erum flest frekar löt. Kannski af því að við vitum bara ekki betur. Óþefurinn af rotnandi lífrænum leifum var yfirþyrmandi. Þvílík sóun.
Eftir þetta snarhætti ég allri óþarfri neyslu. Afþakkaði umbúðir, tók mig á í matarsóun og hóf að nota vistvænni samgöngumáta í meira mæli en áður. „Vá, fórnaðirðu öllu þessu?“ spyrja margir. Þetta er engin fórn. Lífið varð miklu betra: Meiri frítími, meiri peningar, meiri hreyfing, betri svefn. Stundum þarf maður að sjá afleiðingar gjörða sinna til að breyta sjálfum sér.
Allt hófst þetta fyrir rúmu ári. Þá varð mér á að gagnrýna óhóflega sprengjugleði Íslendinga um hver áramót. „Skjóttu þig, fáviti! og drullaðu þér eitthvert annað!“ sögðu viskustykkin í athugasemdakerfunum. Gott og vel. En umræðan hafði áhrif og breytti lífi mínu. Eftir að hafa varið síðustu árum í að miðla stjarnvísindum sór ég þess eið að tala meira um umhverfismál, mikilvægasta málefni okkar tíma.
Fáeinum mánuðum síðar bauð Sagafilm mér að gerast umsjónarmaður þátta um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Draumar geta ræst! Allt frá því að ég sá Cosmos þætti Carl Sagan, fyrirmyndar minnar í lífinu, hafði mig dreymt um að gera vísindaþætti.
Ég hef lengi viljað gera mitt besta til að breyta heiminum – í það minnsta hnika honum í rétta átt – og þótt ég viti vel að þátturinn breyti ekki heiminum, þá vona ég að hann hreyfi við fólki og hvetji það til jákvæðari og sjálfbærari lífsstíls. Við þörfnumst þess svo sárlega.
Þættirnir Hvað höfum við gert? eru tíu talsins og hafa haft ótrúlega mikil áhrif. Hver vill ekki setjast niður á besta tíma á sunnudagskvöldi og láta sér líða illa í rúman hálftíma? Vonandi bara að við virkjum þessa ónotatilfinningu og ótta til þess að gera heiminn að enn betri stað.
Ég starfa við vísindamiðlun og finnst ég í besta starfi í heimi: Að vinna með og hafa áhrif á framtíðina. „Miklu valdi fylgir mikil ábyrgð“ sagði Ben Parker. Þessi orð frænda Köngulóarmannsins eiga svo sannarlega við þegar ég tala við framtíðina, börnin og barnabörnin ykkar, í skólum.
Nú, þegar ég heimsæki skóla og tala við krakka um plánetuna okkar, þá spyrja þau mjög gjarnan um loftslagsbreytingar. Satt best að segja eru margir krakkar hræddir og kvíðnir. „Hugsaðu bara vel um Jörðina,“ segi ég þá.
Ég hef séð meira af alheiminum en margir aðrir. Við þekkjum í dag næstum fimm þúsund aðrar plánetur fyrir utan sólkerfið okkar. Engin þeirra kemst nálægt paradísinni Jörð. Því meira sem ég læri um aðrar plánetur, því vænna þykir mér um Jörðina. „Þú verndar aðeins það sem þú elskar, þú elskar aðeins það sem þú þekkir. Þú þekkir aðeins það sem þér hefur verið kennt,“ sagði Guðmundur Páll Ólafsson.
Jörðin er eini staðurinn þar sem þú getur hlustað á fuglasöng, heyrt róandi lækjarnið, fundið ilminn af blómunum, dýft tánum í sjóinn, fundið regndropa falla á andlitið þitt, orðið ástfangin(n), elskað börnin þín og knúsað þá sem þér þykir vænt um.
Jörðin er eina plánetan sem mannkynið hefur yfirgefið og óvart uppgötvað þegar líflaust, litlaust landslag annars hnattar var kannað. Við tökum fegurðinni í kringum okkur sem svo sjálfsögðum hlut að við þurftum að yfirgefa heimahagana til að læra að meta hana. Við eigum enn eftir að læra að vera góðir verndarar geimskipsins Jörð.
Sjálfur er ég alveg dolfallinn yfir þessum stórkostlega stað sem plánetan okkar er – einmana ögn í regindjúpum himingeimsins, svífandi í kringum fremur dæmigerða stjörnu í útjaðri vetrarbrautar.
Vanvirðing okkar fyrir náttúrunni, ofneysla okkar og gegndarlaus sóun breytir ekki aðeins Jörðinni, heldur útrýmir dýrategundum og eyðileggur ótrúleg verðmælti, ekki bara fyrir okkur sjálfum heldur líka komandi kynslóðum. Við erum að ræna framtíðina.
Þrátt fyrir alla fundi ráðamanna, alla sáttmálana sem skrifað hefur verið undir og öll loforðin um betrumbót, erum við óralangt frá því að ná markmiðum okkar. Næsta áratug þurfum við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming og svo aftur um helming næstu tvo áratugi þar á eftir. Ef við sjáum ekki að okkur fylgja hörmungar fyrir vistkerfið sem er þegar byrjað að láta undan.
Valið er okkar. Heimurinn er í okkar höndum. Annað hvort þrömmum við áfram á sömu braut, knúin áfram af gróðafíkn þar sem við, auðugasta fólk veraldar, fáum aldrei nóg á kostnað annarra lífvera, eða byrjum loks að bera þá virðingu fyrir Jörðinni sem hún á skilið. Náttúran þarf ekkert á okkur að halda – en við getum ekki án hennar verið.
Vonandi auðnast okkur að velja fegurðina og lífið og fara gætilega með þessa stórkostlegu plánetu sem við erum svo heppin að búa á.
Gerum það sem við gerum best: Vinnum saman. Framtíð okkar veltur á því. Enginn einn einstaklingur getur leyst vandann, ekkert eitt fyrirtæki, engin ein þjóð heldur. Þetta er stærsta áskorun sem við höfum staðið frammi fyrir sem tegund. Ef við bregðumst, þá bregðumst við framtíð mannkynsins.
Sameiginlegir hagsmunir okkar, að lifa af og elska börnin okkar, neyða okkur til að vinna saman að því að vernda föla bláa punktinn, eina heimili okkar í geimnum.
Pistillinn birtist í ársskýrslu Landverndar 2018-2019