Einnota plast er vandamálið – Fimm hlutir sem hjálpa hafinu

Plast fiskur á diski. Plast er þema september mánaðar á afmælisári grænfánans. Landvernd
Svona getur þú hjálpað hafinu í plastlausum september.

Í dag er plast nánast órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Farið var að fjöldaframleiða plast um miðja síðustu öld eða um 1950 og var það gert úr jarðefnaeldsneyti.  

Uppfinning sem breytti miklu

Plast er sniðugt efni. Það er vatnshelt, endingargott og ódýrt. Plast getur verið örþunnt og mjúkt eins og plastpoki eða grjóthart og eldþolið eins og legókubbar. Þegar við flokkum plast þá er stundum hægt að endurvinna það og búa til nýja hluti úr plastinu.
Plast var fundið upp fyrir meira en 100 árum. Fyrr á öldum notaði fólk önnur efni til að búa til nytsamlega hluti. Sem dæmi má nefna tré, gler, leir, málm, bein, skinn og jafnvel vambir! Í dag er plast notað í hjálplega hluti líkt og reiðhjólahjálma og björgunarvesti. Plast hefur hjálpað til við að létta farartæki líkt og bíla og flugvélar og svo er plast notað utan um mat svo að hann skemmist síður.

Hvert er vandamálið?

Vandamálið við plast er ekki plastið sjálft heldur hvernig við notum það og hversu mikið við notum. Plast er allt of sniðugt og gott efni til að nota bara einu sinni og henda.

Mengun virðir engin landamæri

Mengun er það þegar ákveðin efni flæða út í umhverfið í því magni að þau valdi skaða. Efnin sjálf eru ekki alltaf skaðleg en þau verða skaðleg þegar það er komið of mikið af þeim á rangan stað. Þegar það gerist þá geta þau valdið tjóni á heilsu fólks og dýra og óhreinkað vatnið, landið og loftið.

Það má segja að plast og sykur séu dæmi um svona efni. Í ákveðna hluti er gott að nota plast, líkt og í reiðhjólahjálm en þegar plastið lendir í náttúrunni er það orðið að vandamáli. Ekki má henda gömlum hjálmi beint út í náttúruna!

Sykur er í sjálfu sér ekki skaðlegur. Hann er unninn úr náttúrulegum ávöxtum, rótum og blómum en ef við borðum of mikið af sykri getur hann valdið skaða, okkur verður illt í maganum og tennurnar skemmast.

Einnota er vandamálið!

Helmingur af öllu plasti sem er framleitt er bara notað einu sinni! Hlutir sem eru einnota eru bara notaðir einu sinni og síðan hent. Einnota plastpokar eru að meðaltali notaðir í aðeins 20 mínútur!

Sama má segja um aðrar umbúðir og einnota borðbúnað. Fjölnota hlutir eru notaðir oft og eiga að endast lengur. Það er betra fyrir náttúruna og umhverfið að nota sama hlutinn aftur og aftur. Þá þarf ekki að framleiða jafn mikið plast og minna plast endar úti í náttúrunni.

Hvað verður um plastið?

Mikið af því plasti sem er notað í heiminum lendir úti í náttúrunni. Stundum er því bara hent beint á götuna, stundum fýkur það t.d. úr opinni ruslafötu og stundum kemur það frá skipum eða fyrirtækjum.
Á hverju ári fara um átta milljón tonn af plasti í sjóinn. Það er ansi mikið! Einn stór fíll er eitt tonn. Það þýðir að plastið sem fer í sjóinn vegur jafn mikið og átta milljón fílar á hverju ári!

Verndum dýrin

Plast á röngum stað?
Plast getur verið hættulegt dýrum eins og fuglum, fiskum og öðrum sjávardýrum. Dýrin geta flækst í plastinu og halda jafnvel að það sé matur. Þegar dýrin hafa borðað mikið af plasti halda þau að þau séu södd og fá ekki næga næringu.

Plast sem rekur á strendur kemur stundum langt að. Hafstraumarnir flytja plastið í hafinu langar leiðir. Plastmengun á einum stað hefur því áhrif á náttúruna á öðrum stað. Jafnvel þó að staðurinn sé mjög langt í burtu.

Fimm hlutir sem þú getur gert strax í dag gegn plastmengun í hafi!

Fimm hlutir sem þú getur gert strax í dag gegn plastmengun í hafi!
1. Hættum að nota einnota hluti eins og plastglös og plasthnífapör.
2. Afþökkum einnota hluti og segjum öðrum frá af hverju við afþökkum.
3. Kaupum minna af óþarfa og sleppum því að kaupa dót úr plasti sem endist ekki lengi.
4. Flokkum og þrífum allt plast sem við notum.
5. Tínum upp rusl sem við sjáum á víðavangi, því ef það er laust, þá fýkur það í sjóinn í næsta roki.

Þessi grein byggir á námsefninu Hreint haf og Hreint haf – Plast á norðurslóðum eftir Margréti Hugadóttir.

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd